Birgir Þórarinsson
Birgir Þórarinsson
Erdogan hefur verið við völd í 21 ár. Á valdatímanum hefur hann markvisst aukið völd forseta á kostnað þingsins og veikt dómsvaldið.

Birgir Þórarinsson

Forseta- og þingkosningar fara fram í Tyrklandi 14. maí næstkomandi. Tyrkland er annað fjölmennasta ríki Evrópu. Athyglin hefur beinst að forsetakosningunum fremur en þingkosningunum. Það er ekki síst fyrir þær sakir að sex flokkar hafa sameinast um einn frambjóðanda, Kemal Kilicdaroglu, til forseta undir merkjum CHP eða Þjóðarbandalagsins. Tilgangur bandalagsins er að eiga raunhæfa möguleika á að fella Erdogan, sitjandi forseta. Alls eru fjórir frambjóðendur til embættis forseta. Nýjustu skoðanakannanir benda til þess að sigur Erdogans sé ekki vís. Frá því 6. mars, þegar tilkynnt var um kosningabandalag CHP, benda flestar kannanir til þess að frambjóðandi CHP muni fara með nauman sigur af hólmi. Greinarhöfundur var í Ankara fyrir skömmu á vegum Evrópuráðsins og átti fundi með fulltrúum frambjóðenda til forseta. Helstu kosningamálin eru efnahagsmál, endurreisn vegna hins öfluga jarðskjálfta sem reið yfir 6. febrúar og varð rúmlega 50 þúsund manns að bana og málefni flóttamanna.

Jarðskjálfti, óðaverðbólga og flóttamenn

Líkur eru á því að kjósa verði um forsetaembættið tvisvar en reglurnar eru með þeim hætti að fái enginn frambjóðandi meira en 50% atkvæða verður að kjósa aftur um tvo efstu. Efnahagsmálin eru ofarlega í huga Tyrkja. Opinberar tölur um verðbólgu eru rúmlega 50%. Það er hins vegar talið að hún sé allt að 120%. Mikilla hækkana hefur gætt á matvöruverði. Margir eru áhyggjufullir um framtíðina og þá sérstaklega ungt fólk. Atvinnuleysi meðal ungs fólks er um 25%. Stjórnarflokkurinn AKP og Erdogan forseti hafa verið gagnrýndir fyrir að bregðast seint við jarðskjálftunum og kann það að hafa áhrif á niðurstöðu kosninga. Vaxandi andúð er í garð hinna fjölmörgu flóttamanna sem dvelja í Tyrklandi. Fyrir tíu árum voru þeir um 50 þúsund en nú eru þeir um fjórar milljónir, einkum frá Sýrlandi og Afganistan. Allir frambjóðendur eru sammála um að senda eigi flóttamenn til síns heima um leið og aðstæður í heimalandi leyfa. Stefna Þjóðarflokksins eða CHP er hvað hörðust hvað þetta varðar. Erdogan hefur mildari stefnu í orði, en hann hefur sagt það siðferðilega skyldu að taka á móti flóttamönnum og jafnframt lagt áherslu á þátttöku þeirra á vinnumarkaði. Á þessu ári hafa stjórnvöld hins vegar sent um 30 þúsund afganska flóttamenn til baka til Afganistans og er sýnileg aukning í aðdraganda kosninga. Þess má geta að Evrópusambandið veitir Tyrkjum háa styrki vegna móttöku flóttamanna. Álagið er mikið á innviði landsins vegna fjöldans.

Völd og veldi Erdogans

Erdogan hefur verið við völd í 21 ár. Fyrst sem forsætisráðherra og síðan forseti. Á valdatímanum hefur hann markvisst aukið völd forseta á kostnað þingsins og veikt dómsvaldið. Hann á sér tryggan stuðningshóp en þó er valdaþreyta farin að gera vart við sig meðal almennings. Hann hefur byggt sér mörg minnismerki á tímabilinu. Ber þar hæst forsetahöllina með 1.100 herbergjum og 63 lyftum. Erdogan lætur gagnrýni á framkvæmdina sem vind um eyru þjóta og segir höllina bæta orðstír Tyrklands. Höllin er 30 sinnum stærri en Hvíta húsið í Washington. Síðasta afrekið er síðan nýi flugvöllurinn í Istanbúl og flugstöðin, sem er engu lík í íburði. Þar er nóg pláss fyrir einkaþotur Erdogans, sem eru 16 talsins. Leitast hefur verið við að hressa upp á ímynd Erdogans sem stjórnmálamanns og er lögð áhersla á að hann sé einn mikilvægasti þjóðarleiðtoginn á erlendum vettvangi, friðflytjandi og mannvinur.

Titrings gætir meðal flokksmanna Erdogans vegna kosninganna.

Forseti þingsins hefur m.a. gagnrýnt eftirlitsmenn Evrópuráðsins og sagt þá hlutdræga í yfirlýsingum sínum. Komandi kosningar í Tyrklandi skipta Evrópu máli. Niðurstaðan getur haft áhrif á framgang umsóknar Tyrkja um inngöngu í Evrópusambandið. Hvort sem Erdogan fer með sigur af hólmi eða frambjóðandi kosningabandalags Þjóðarbandalagsins er hætta á því að niðurstöðunni verði ekki tekið þegjandi meðal stuðningsmanna þess sem bíður lægri hlut.

Höfundur er þingmaður og situr í eftirlitsnefnd Evrópuráðsins.