Ármann Þorgrímsson fæddist 10. janúar 1932 í Garði í Núpasveit, N-Þingeyjarsýslu. Hann lést 10. apríl á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Foreldrar Ármanns voru Þorgrímur Ármannsson, f. 1898, d. 1978, og Guðrún Guðmundsdóttir, f. 1905, d. 1989. Systkini eru Guðmundur, f. 1926, d. 2016, Hálfdán, f. 1927, Þorbjörg, f. 1929, Jónas, f. 1934, d. 2013, Þóra, f. 1938, d. 2022, og Halldór, f. 1939.

Eftirlifandi eiginkona Ármanns er Kristveig Jónsdóttir frá Ærlækjarseli í Öxarfirði, f. 16.7. 1933. Synir þeirra eru Ármann Heiðar, f. 1955, kona hans er Mary Christopher Mselem; Arngrímur Ævar, f. 1956, kona hans er Kristbjörg Björnsdóttir; og Einar Haukur, f. 1961, kona hans er Erna Sigurbjörg Traustadóttir.

Útför Ármanns fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 25. apríl 2023, klukkan 13.

Mig langar að minnast afa míns Ármanns Þorgrímssonar sem lést á öðrum degi páska eftir skammvinn veikindi.

Afi var mikill hagleiksmaður og mörgum hæfileikum gæddur. Handverk hans prýddu mörg heimilin í formi húsgagna sem hann smíðaði af kostgæfni. En það var fleira en tréverkið sem lék í höndum þessa manns. Verkfærakistan var sannarlega vel búin og efniviðinn fann hann víða. Hann var hagyrðingur mikill, heimspekingur sem lét sig varða um menn og málefni líðandi stundar. Listilega nýtti hann þetta verkfæri og kom öllu því sem einhverju skiptir í bundið mál, sannkallaður orðasmiður. Sú auðlind var óþrjótandi allt til lokadags. Eftir hann liggur mikill kveðskapur, óteljandi stökur, vísur og dýrt kveðin sléttubönd.

Hann var fróður, fyndinn og góður sagnamaður og kunni margar þjóðsögur. Ég man sérstaklega eftir sögunum sem hann sagði okkur Rut þegar við vorum litlar af ofurmenninu Gretti. Hann kunni líka ferlegar draugasögur og ef við ætluðum eitthvað að efast um tilvist þessara furðuvera þá sannaði hann mál sitt með því að rekja ættir okkar aftur til þessara drauga. Hann hafði einskæran áhuga á ættfræði, bjó til og átti sína eigin Íslendingabók sem var vandlega ritrýnd. Þetta gat nú komið sér vel, sérstaklega fyrir tíma Internetsins: „Eigum við ekki að fletta honum upp?“ sagði afi og fór vandlega yfir staðreyndir.

Fyrir margt löngu gaf hann mér einstaka gjöf, ættarhring. Hann bjó til rammann sjálfur, málaði og hannaði form þar sem hann skráði með sinni fallegu rithönd nöfn forfeðra minna í báðar ættir, langt aftur í tímann. Að eiga slíkt verk um uppruna sinn er ómetanlegur fjársjóður.

Afi var hlýr og góður maður sem tók ávallt á móti mér og mínum með sínu fallega brosi. Ég minnist hans með hlýju í hjarta og þakka samfylgdina.

Árný Þóra
Ármannsdóttir.