Leit Handknattleikssambands Íslands að nýjum þjálfara fyrir karlalandsliðið Íslands hefur verið í meira lagi áhugaverð. Líkt og Morgunblaðið og mbl.is greindu frá í síðustu viku hefur óeining ríkt innan sambandsins um það hver eigi að taka við…

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Leit Handknattleikssambands Íslands að nýjum þjálfara fyrir karlalandsliðið Íslands hefur verið í meira lagi áhugaverð.

Líkt og Morgunblaðið og mbl.is greindu frá í síðustu viku hefur óeining ríkt innan sambandsins um það hver eigi að taka við liðinu eftir að Guðmundi Þórði Guðmundssyni var óvænt sagt upp störfum í febrúar.

Dagur Sigurðsson, einn af okkar fremstu þjálfurum, steig svo fram í síðustu viku og talaði um þjálfaraleitina sem leikrit. Er hann einn þeirra þriggja sem hafa átt í óformlegum viðræðum við HSÍ um að taka við liðinu.

Ég hef áður sagt mína skoðun á því hver eigi að taka við landsliðinu og það er svo sem óþarfi að tönglast endalaust á því.

Eitt sem ég hef hins vegar ekki tjáð mig neitt sérstaklega um, fyrr en nú, er það að mér finnst persónulega að landsliðsþjálfari Íslands eigi að vera í fullu starfi innan hreyfingarinnar.

Ef til stendur að fá inn þjálfara, sem stýra til að mynda liðum í Evrópukeppnum, þá erum við að tala um þjálfara sem eru að undirbúa leiki þrisvar í viku með sínu félagsliði á heilu tímabili. Það er ágætis álag.

Ég kynntist þessi álagi ágætlega þegar við gerðum vefþættina Syni Íslands enda var oft á tíðum ógerningur að plana tökudaga með landsliðsmönnum Íslands sökum mikils álags.

Að tala um þjálfara, sem stýrir liði í Evrópukeppni líka, í 50% starfshlutfalli hjá landsliði Íslands er í basta falli grín enda yrði starfshlutfallið aldrei meira en 10-20% miðað við álagið sem ríkir í handboltaheiminum.

Dagur talaði um það að hann hefði lítinn áhuga á því að vinna með forráðamönnum HSÍ eftir leikritið sem hefur verið í gangi. Forráðamenn HSÍ hafa verið lengi að og maður hlýtur að spyrja sig hvort þeir séu kannski bara búnir að vera of lengi að?