Seltún Hverasvæðið þarfnast endurbóta og viðhalds.
Seltún Hverasvæðið þarfnast endurbóta og viðhalds. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Seltún í Krýsuvík verður lokað frá 2. maí til 6. júní nk. vegna framkvæmda. Verið er að skipta um göngupall úr timbri, sem er eina örugga aðkoman að leirhverunum á svæðinu, og því verður svæðið alfarið lokað meðan á framkvæmdunum stendur

Seltún í Krýsuvík verður lokað frá 2. maí til 6. júní nk. vegna framkvæmda. Verið er að skipta um göngupall úr timbri, sem er eina örugga aðkoman að leirhverunum á svæðinu, og því verður svæðið alfarið lokað meðan á framkvæmdunum stendur.

Um er að ræða mjög virkt sprengigíga- og borholusvæði og kallar það eitt á að gönguleiðir þarf stöðugt að vera að laga þar sem slitið er mikið. Samhliða verður borið í malarstíga eins og aðstæður leyfa. Verkefnið er unnið með styrk úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða til áframhaldandi uppbyggingar á svæðinu sem er talið brýnt vegna öryggis- og náttúruverndarsjónarmiða, segir í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ.

Í tilkynningunni segir jafnframt að það sé forgangsatriði hjá bænum að viðhalda stígum og byggja upp gönguleiðir á þessum vinsæla ferðamannastað, Krýsuvík sé ein fegursta náttúruperla landsins og litadýrð hverasvæðisins við Seltún heilli marga.

Vitnar Hafnarfjarðarbær til nýútgefinnar áfangastaðaáætlunar höfuðborgarsvæðisins, þar séu uppi hugmyndir um frekari uppbyggingu aðstöðu á svæðinu á næstu árum.

Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði vona að ferðafólk sýni þessum framkvæmdum skilning og þakka þeim þolinmæðina fyrir fram.