Jóhann Steinar Ingibjörnsson stýrimaður og bifreiðastjóri fæddist í Djúpavík 24. júlí 1947. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans 6. apríl 2023.

Foreldrar hans voru Guðrún Brynhildur Árnadóttir húsmóðir, f. 5. mars 1928, d. 1. desember 1967, og Ingibjörn Hallbertsson sjómaður, f. 23. júní 1928, d. 14. apríl 2018.

Systkini Jóhanns eru: Árni, f. 14.1. 1950, maki Kolbrún Kristjánsdóttir. Sigurður Hallbert, f. 7.1. 1951, d. 8.9. 1951. Kristmundur Hrafn, f. 17.1. 1952. Sigríður Hallbjörg, f. 21.6. 1954, maki Friðfinnur Skaptason. Ólafur Róbert, f. 27.12. 1956, maki Hrönn Árnadóttir. Hlíf, f. 11.3. 1965, maki Friðgeir Axfjörð.

Jóhann kvæntist Þóru Kristjánsdóttur, f. 31.12. 1948, þau skildu. Börn þeirra eru: Kristján Gunnar smiður, f. 19.12. 1968, Ólöf Björk leikskólakennari, f. 16.3. 1972, Grétar Örn tæknifræðingur, f. 7.6. 1981.

Kristján er giftur Sunnevu Guðgeirsdóttur, f. 3.4. 1973. Börn þeirra eru: Arnar Logi, f. 24.8. 1998, og Aldís Anna, f. 26.10. 2004. Barn Kristjáns úr fyrra sambandi er Hörður Ingi, f. 1.4. 1990, hann er giftur Brynhildi Lilju Bjarnadóttur, f. 5.1. 1994. Börn þeirra eru: Jökull Þór, f. 7.8. 2017, og Una Eldey, f. 14.10. 2022. Ólöf er gift Valdimari Valdimarssyni, f. 14.12. 1972. Börn þeirra eru: Lovísa Þóra, f. 7.12. 1997, Jóhann Karl, f. 23.6. 2001, og Tryggvi Þór, f. 2.9. 2007. Unnusti Lovísu Þóru er Svavar Páll Kristjánsson, f. 28.8. 1998. Grétar er giftur Katrínu Klöru Þorleifsdóttur, f. 26.3. 1981. Börn þeirra eru: Elín Embla, f. 21.9. 2006, og Þorvaldur Geir, f. 11.3. 2010.

Jóhann elst upp í Djúpavík til 10 ára aldurs. 1957 flytur fjölskyldan til Skagastrandar en þar gengur Jóhann í gagnfræðaskóla og lýkur unglingaprófi 1962. Fór síðan á sjóinn og starfaði þar þangað til hann fór í Stýrimannaskólann í Reykjavík 1966. Lauk þaðan farmannsprófi 1969. Starfaði sem stýrimaður til 1972 en ákveður að hætta á sjó til að vera meira með fjölskyldunni. Eftir það starfaði hann sem bifreiðastjóri á eigin bíl, fyrst hjá sendibílastöðinni 25050 og síðar hjá Sól hf. Eftir það starfaði Jóhann hjá Gámaþjónustunni til ársins 2013, þegar hann lauk störfum.

Útför Jóhanns Steinars fer fram frá Lindakirkju í dag 25. apríl 2023, klukkan 13.

Jói var elstur okkar systkinanna. Hann fæddist í Djúpavík á Ströndum og þar eyddi hann fyrstu æviárunum í Ólafarhúsi ásamt mömmu, pabba, Ólöfu langömmu og okkur yngri systkinunum. Hann var uppáhald langömmu og augasteinn, oft á kostnað okkar hinna og einnig oft í óþökk hans sjálfs. En gamla gat verið mistæk og ekki allra. Jói var ljúfur drengur og í minningunni voru æskuárin í Djúpavík böðuð ljóma og þrátt fyrir að hafa ungur flutt með fjölskyldunni yfir á Skagaströnd og svo seinna suður eins og fólk gerði á þessum árum, var Djúpavík ávallt hans staður.

Jói var sannkallaður stóri bróðir, stórglæsilegur ungur maður sem lét draumana rætast, fór í nám í Stýrimannskólann og svo í millilandasiglingar. Hann var eini maðurinn sem við þekktum sem hafði farið til útlanda og kom heim með amerískt tyggjó, Macintosh í litríkum dollum, dúkkur sem töluðu og löbbuðu og fleiri undursamlega hluti sem við vissum ekki að væru til á þessari jörðu. Jói var líka sá sem fyrstur spældi sér egg með beikoni heima hjá okkur og það var sko ekki á hvers manns diski á þeim árum.

Föðurforeldrar okkar voru bændur í Veiðileysu en þar, í húsi afa okkar og ömmu, eigum við fjölskyldan okkar frístundahús. Þar var Jói kóngurinn í ríki sínu og þar vildi hann helst vera.

Jói var skemmtilegur og alltaf til í ævintýri. Hann og Þóra áttu til dæmis vígalegan fjórhjóladrifinn húsbíl löngu áður en það varð almennt. Á veturna var bíllinn atvinnutæki en á sumrin brunuðu þau um fjöll og firnindi oftast með Árna og Kollu og börnum, gengu á fjöll og jökla og skíðuðu heima og erlendis á veturna. Hann tók einkaflugmannsprófið og flaug um loftin blá, átti alltaf snjósleða, bát til að nota á Ströndum, veiðistangir og riffla. Við vorum nú ekki alltaf öll sammála um veiðiskap hans í firðinum okkar en það verður að viðurkennast að „pokaendurnar“ hans voru oft gómsætar og minningar um selkjötsveislurnar í eldhúsinu hennar ömmu í Veiðileysu ylja á stundum sem þessum þó ekki hafi allir kunnað að meta kræsingarnar og kosið pylsur fram yfir selkjötið. Það eru margar skemmtilegar sögurnar af Jóa og sambandi hans við náttúruna á Ströndum, til dæmis þegar hann sofnaði yfir tófugreninu eða naut tignarlegrar fegurðar gæsanna svo að hann gleymdi að veiða þær.

Síðustu árin voru honum erfið vegna veikinda og sem betur fer stóð lokaorrustan stutt. En Jói var ljúfur og tók örlögunum með æðruleysi og hélt áfram að fara norður á Strandir þegar færi gafst en það má segja að langþráður draumur hafi ræst þegar yngri sonur hans hóf að byggja upp húsið okkar, Ólafarhús, í Djúpavík en síðustu árin dvaldi hann þar eins mikið og hann gat.

Þegar litið er til baka á þessari sorgarstund er það þakklæti sem er okkur efst í huga. Að geta þakkað af heilum hug dýrmætar, skemmtilegar og elskulegar minningar um samfylgd góðs drengs í gegnum lífið. Við gleðjumst yfir að hafa átt hann að sem stóra bróður og vin og vottum afkomendum hans okkar dýpstu samúð.

Árni, Sigríður,
Kristmundur, Ólafur, Hlíf og makar.