Lykilhlutverk Arna Sif Ásgrímsdóttir er firnasterkur miðvörður.
Lykilhlutverk Arna Sif Ásgrímsdóttir er firnasterkur miðvörður. — Ljósmynd/Kristinn Steinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslands- og bikarmeistarar Vals tefla fram mikið breyttu liði frá því í fyrra en mæta samt til leiks með firnasterkan hóp. Að sjálfsögðu er mikil blóðtaka að missa fjóra öfluga leikmenn á borð við Söndru Sigurðardóttur landsliðsmarkvörð, miðvörðinn Mist Edvardsdóttur, miðjumanninn Ásgerði S

Íslands- og bikarmeistarar Vals tefla fram mikið breyttu liði frá því í fyrra en mæta samt til leiks með firnasterkan hóp.

Að sjálfsögðu er mikil blóðtaka að missa fjóra öfluga leikmenn á borð við Söndru Sigurðardóttur landsliðsmarkvörð, miðvörðinn Mist Edvardsdóttur, miðjumanninn Ásgerði S. Baldursdóttur og framherjann Elínu Mettu Jensen. Allar fjórar lögðu skóna á hilluna í vetur.

Til viðbótar er Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir úr leik með slitið krossband, Sólveig Larsen fór til Örebro í Svíþjóð, Cyera Hintzen til Perth Glory í Ástralíu og Brookelynn Entz fór til HK. Samtals eru því farnir átta leikmenn sem spiluðu talsvert á síðasta tímabili.

Fanney Inga Birkisdóttir, markvörður U19 ára landsliðsins, á að leysa Söndru af hólmi en Valur hefur líka fengið Kelly Rowswell frá Orlando Pride í Bandaríkjunum henni til halds og trausts.

Lillý Rut Hlynsdóttir er með á ný eftir að hafa misst af nær öllu síðasta tímabili vegna meiðsla og fyllir skarð Mistar. Að auki er Arna Eiríksdóttir komin aftur frá Þór/KA og Rebekka Sverrisdóttir kom frá KR þannig að breiddin í vörninni er líklega meiri en áður.

Hin bandaríska Haley Berg kom frá Nordsjælland í Danmörku og hin þýska Hanna Kallmaier frá ÍBV, og þær eiga að styrkja miðjuna. Þar er breiddin líka meiri með tikomu þeirra.

Helsta spurningin er framlínan þar sem Elín, Cyera, Þórdís Hrönn og Sólveig fóru allar. Bryndís Arna Níelsdóttir verður í stærra hlutverki, Ísabella Sara Tryggvadóttir kemur frá KR og hefur gert það gott með yngri landsliðunum og Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir kom frá Aftureldingu þar sem hún skoraði 23 mörk í 1. deildinni 2021 en missti mikið úr á síðaasta tímabili.

Pétur Pétursson þjálfar Val áfram og er sitt sjötta ár með liðið en hann hefur þegar unnið þrjá Íslandsmeistaratitla auk langþráðs bikarsigurs liðsins í fyrra. Ásgerður er komin með honum í þjálfarateymið og mun án efa hjálpa liðinu talsvert af bekknum.

Liðið hefur verið í mótun á undirbúningstímabilinu, komst ekki í fjögurra liða úrslit deildabikarsins og tapaði Meistarakeppninni, reyndar í vítaspyrnukeppni.

Eftir sem áður eru miklar væntingar gerðar til liðsins og lykilmenn eins og Arna Sif Ásgrímsdóttir, Elísa Viðarsdóttir og Lára Kristín Pedersen þurfa allar að eiga mjög gott tímabil til að Valskonur geti staðið undir þeim.