Kambabrún Aðkoma að bílaplani er sögð vera slæm í skýrslunni.
Kambabrún Aðkoma að bílaplani er sögð vera slæm í skýrslunni. — Morgunblaðið/Hari
Gera þarf úrbætur og auka umferðaröryggi á mörgum þeirra áningarstaða ferðamanna sem finna má við Gullna hringinn svonefnda um Þingvallaveg, að Geysissvæðinu og Gullfossi og niður á Suðurlandsveg skammt norðan við Selfoss

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Gera þarf úrbætur og auka umferðaröryggi á mörgum þeirra áningarstaða ferðamanna sem finna má við Gullna hringinn svonefnda um Þingvallaveg, að Geysissvæðinu og Gullfossi og niður á Suðurlandsveg skammt norðan við Selfoss. Þetta má lesa út úr skýrslu VSÓ Ráðgjafar fyrir Vegagerðina og menningar- og viðskiptaráðuneytið um helstu staði á Gullna hringnum þar sem ferðamenn stoppa oft til að virða fyrir sér útsýnið, taka myndir eða skoða norðurljósin. Þessi u.þ.b. 210 km vegalengd er fjölfarnasta ferðamannaleið landsins.

Í skýrslunni eru kortlagðir 24 áningarstaðir eða myndastopp á Gullna hringnum og leggja höfundarnir til að gerðar verði úrbætur á níu stöðum, m.a. til að draga úr slysahættu. Í flestum tilfellum er ástæðan sögð sú að í ljós kom að tenging við þjóðveginn er ekki nógu góð, vegsýn takmörkuð og umferðaröryggi ógnað. Einnig leggja þeir til að byggðir verði upp þrír nýir áningarstaðir til að draga úr hættu á umferðarslysum og stýra betur aðgengi að viðkvæmri náttúru.

Á sumum vinsælum áningarstöðum hefur verið byggð upp ágæt aðstaða og aðgengi er gott en á öðrum þarf að gera ýmsar úrbætur. T.a.m. er umferðaröryggi sagt slæmt á vinsælum stað við Vilborgarkeldu á Þingvallaveginum en þar er aðkoma að staðnum sögð geta verið hættuleg vegna krapprar beygju út af þjóðveginum. „Heldur blint er fyrir umferð sem kemur að vestan þegar ekið er út af planinu aftur sem er á blindhæð. Staðsetningin er því slæm umferðaröryggislega séð,“ segir í skýrslunni. Gera þarf bragarbót á áningarstað við Skálabrekku þar sem margir stoppa enda gott útsýni þar yfir Þingvallavatn. Er yfirborð bílaplansins sagt ójafnt, malarborið og það verði að forarsvaði í rigningu sem geri óvönum ökumönnum erfitt um vik. Umferðaröryggi er einnig sagt slæmt á vinsælu bílastæði við Brúará við gönguleiðina að Brúarfossi en tekið er fram að þar vinni landeigendur að úrbótum með byggingu vegar vestan árinnar þar sem gert er ráð fyrir nýju bílastæði og þjónustu nær fossinum.

Á yfirlitstöflu í skýrslunni er umferðaröryggi sagt slæmt á tíu áningarstöðum. Einnig er bent á að við vinnslu hennar hafi komið í ljós skortur á svæðum þar sem hægt sé að njóta norðurljósa í öllu sínu veldi. „Í viðtölum kom fram að mikil hætta getur skapast þegar ferðamenn leggja bílum í vegkanti í svartamyrkri og standa jafnvel á miðjum veginum að virða fyrir sér norðurljósin og hafa slys orðið vegna þess,“ segir í skýrslunni. Er m.a. sett fram tillaga í skýrslunni um að gerð verði norðurljósaplön með aðskildum rútustæðum og bílastæðum.

Víða á Gullna hringnum eru merkingar á áningarstöðum ekki settar upp með nægilegum fyrirvara fyrir ökumenn. Í sumum tilfellum er skilti um áningarstað í 500 metra fjarlægð en oftast virðist vera miðað við 200 metra sem er of stutt að mati höfunda skýrslunnar. Einnig eru dæmi um að skilti sé eingöngu við staðinn sjálfan. Fara þurfi kerfisbundið yfir þessar merkingar til að draga úr hættu á að ökumenn snögghemli þegar komið er á áningarstað. Horfa megi til hinna norrænu landanna sem fyrirmynd. „Í Noregi er t.d. reglan að áningarstaður er kynntur til leiks að lágmarki einum km áður en komið er að staðnum en að hámarki tveimur km.“