Lára Sesselja Hansdóttir fæddist 18. apríl 1940. Hún lést 6. apríl 2023.

Útför hennar fór fram 19. apríl 2023.

Við bræður eigum ömmu Láru mikið að þakka. Hún vildi allt fyrir okkur gera.

Strax í frumbernsku vorum við farnir að dvelja nánast um hverja helgi hjá ömmu og afa í Austurbrúninni. Það var líka þannig að þegar líða tók á skólavikuna þá hlökkuðum við ekki til að fá helgarfrí heldur hlökkuðum við til að fara í kotið hjá ömmu Láru.

Afi Doddi kvaddi okkur langt fyrir aldur fram árið 2003 og fór svo að amma minnkaði við sig og festi kaup á íbúð við Sólvallagötuna. Helgarheimsóknir okkar bræðra héldu áfram langt fram á unglingsaldurinn. Á þeim árum þegar unglingar reyna að öðlast sjálfstæði frá foreldrum sínum sóttumst við aldrei eftir sjálfstæði frá ömmu.

Þegar við hófum síðar nám við Háskóla Íslands þáðum við að meðaltali tvisvar í viku boð hennar um að leggja frá okkur námsbækurnar og rölta á Sólvallagötuna í kvöldmat. Þessar stundir eru meðal okkar dýrmætustu minninga um ömmu. Heima fyrir sá pabbi um eldamennskuna sem var jafnan framúrstefnuleg og vel ígrunduð. Heimilismaturinn hennar ömmu féll hins vegar miklu betur í kramið hjá okkur bræðrunum í æsku, enda einfaldur og góður matur, eldaður án mikils umstangs.

Ófáar eru minningar okkar bræðra í eldhúsinu hjá ömmu, að spjalla um heima og geima og aðstoða um leið við eldamennskuna; sem gat verið að skræla sjóðheitar kartöflur, stappa kartöflumús eða reka hvítlauksgeira á kaf í sunnudagslambið. Við munum sakna þess um alla tíð að fara í mat til ömmu, að gæða okkur á gúllasi, kótelettum, kjöti í karríi, steiktum fiski, kjötbollum og lambalærinu hennar.

Amma var þeirrar gerðar að hún hvatti okkur sífellt áfram, í leik og starfi. Hún kom fram við okkur sem jafningja og svo var hún auðvitað bráðskemmtileg. Við munum sakna allra samtalanna, fróðleiksins og grínsins. Það var alltaf stutt í bros og hlátur hjá okkur þremur.

Margt kenndi amma okkur sem mun fylgja okkur út ævina. Við eigum þó eftir að rekast á einhvern utan fjölskyldunnar sem þekkir hugtakið „diggið“. Í hvert skipti sem við grípum í diggið minnumst við ósjálfrátt ömmu og umhyggjunnar sem hún sýndi okkur. Hvað digg er í raun verður áfram fjölskylduleyndarmál.

Amma glímdi við heilabilun síðustu árin. Það hefur verið sárt að horfa á ömmu missa getuna til daglegs lífs og síðustu vikur varð okkur ljóst að sjúkdómurinn hafði tekið öll völd, og engin leið væri til baka.

Við erum því ólýsanlega þakklátir fyrir að hafa fengið tækifæri til að kveðja ömmu rétt áður en yfir lauk. Við kvöddum ömmu Láru að hennar eigin sið; með því að skella á hana rembingskossi og strjúka henni létt um kollinn. Þannig heilsaði hún og kvaddi okkur ævinlega.

Þorgeir og Hringur.

Kæra tengdamamma - nú ert þú farin héðan og ég náði aldrei að kveðja þig. Við áttum samleið í gegnum lífið í rúman aldarfjórðung áður en leiðir okkar skildi fyrir um tíu árum síðan og tengsl mín við þig og fjölskylduna þína rofnuðu. Í fyrstu var málið viðkvæmt eins og skilnaðarmál eru oft en síðar þegar þú varst orðin veik vildi ég ekki rugla tilveru þína meira en orðið var. Kannski var það rangt, kannski ekki. En ég hef saknað þín alla tíð síðan.

Þú varst einstök kona. Með hlýjan faðm, hnífskarpa hugsun, skemmtilegan dökkleitan húmor og smitandi hásan sígóhlátur. Að sitja á spjalli með ykkur „reykisystrum“ var óborganlega skemmtilegt.

Þú varst fordómalaus með öllu, fyrir þér vorum við öll jöfn. Aldrei varð ég vör við annað en að ég og börnin mín væru velkomin í fjölskylduna þegar leiðir okkar Hrafns sonar þíns lágu saman. Árið var 1987 og þau voru 7 og 10 ára. Þið tókuð okkur opnum örmum og í þeirra augum voruð þið Doddi alltaf afi og amma. Þú opnaðir einnig faðm þinn og heimili fyrir systur minni sem hefur alltaf fylgt mér, hún og dóttir hennar voru sömuleiðis alltaf velkomnar í fjölskylduboðin.

Hvíl í friði elsku tengdamamma og njóttu þess sem þú hefur núna hvað og hvar sem það er, ef eitthvað er.

Margrét Ágústsdóttir.

Í dag kveðjum við tengdamóður mína og kæra vinkonu, Láru Hansdóttur. Lífið lék ekki við hana síðustu árin, þar sem alzheimerinn tók af henni völdin. Lára var næstyngst fjögurra systkina, samt aldrei kölluð annað en Minnsta í þeirri fjölskyldu, þó svo að yngri systir hefði átt að taka við titlinum. Lára ólst upp á Nesveginum og því borinn og barnfæddur Vesturbæingur. Ung kynntist hún Þorgeiri Halldórssyni, alias Dodda, og fljótlega var barn komið í heiminn, Hrafn. Varð því lítið af langskólanámi en streðið hófst þess í stað og Lára aðeins 18 ára gömul. Við myndum kalla það telpu nú til dags. En telpan átti annað barn einu og hálfu ári síðar, Halldór, og streðið varð enn meira. Doddi hætti við sitt háskólanám og nú var lífið sett í fullorðinsgír. Drengirnir þurftu sitt og fjárhagurinn þröngur.

Það var svo einn góðan veðurdag að Dodda var boðin vinna hjá Loftleiðum í New York. Það var árið 1962 og þau settu sig niður á Long Island, þar sem Lára sinnti heimilinu og heldur óstýrilátum sonum sínum, meðan Doddi sá um innkomu og flugafgreiðslu. Alltaf var þar fullt hús af vegalausum Íslendingum, sem þurftu gistingu og reddingar og þriðja barn þeirra Láru kom í heiminn, stúlkan Arndís.

Þegar faðir Láru, Hans Guðmundsson, varð bráðkvaddur, rétt rúmlega fimmtugur, og fleiri fjölskyldumeðlimir voru að falla frá, fannst Láru allt í einu nóg komið eftir átta ára búsetu erlendis og þau Doddi fluttu heim, því Lára gat ekki hugsað sér að börnin hennar yrðu Kanar, frekar en hún sjálf. Þau keyptu sér húsið Sætún á Lambastaðabraut og óstýrilátu synirnir urðu þeim degi fegnastir þegar þeir voru loksins komnir með fast land undir fót.

Lára fór í ýmsar íhlaupavinnur fyrst í stað, en var svo ráðin sem skrifstofustúlka hjá Sjúkrasamlagi Reykjavíkur, síðar Tryggingastofnun. Þar var gerður að henni góður rómur og sakir dugnaðar og eljusemi vann Lára sig upp hjá stofnuninni og varð á endanum deildarstjóri, allt þar til hún komst á eftirlaunaaldur. Þau Doddi áttu gott líf saman, hann vann hjá Viðlagasjóði og í beinu framhaldi hjá Brunabót og VÍS. Hann lést fyrir aldur fram árið 2003. Það var mikill missir fyrir hana, en að sama skapi kynntumst við betur og umgengumst mikið í öll þessi ár. Hún var alltaf með í partíum, ferðalögum og á sorgarstundum, skemmtileg, jákvæð og pólitísk, var á kafi í verkalýðsmálum og vann heilmikið starf fyrir samninganefnd BSRB og lagði sig alla fram við uppbyggingu orlofshúsanna í Munaðarnesi. Skemmtilegast af öllu var að segja Láru langa brandara, hún kunni að meta þá og hló, langt niður í maga og lungu, þangað til hún táraðist.

Þegar Lára hætti að vinna fór Allinn að gera vart við sig, fór hægt af stað, en svo kom gleymskan, óöryggið, hræðslan og einangrunin. Arndís, dóttir hennar, var henni mikil hjálparhella alla tíð og við stöndum í þakkarskuld við hana fyrir umhyggjusemina.

Lára gerði rétt að flytja heim á sínum tíma og blómstra hér, frekar en í stóru Ameríkunni, og synirnir urðu stýrilátir og ég svo heppin að eignast annan þeirra.

Ég kveð Láru með söknuði, hún var stór hluti af lífi mínu í 40 ár og er þakklát fyrir vinskap okkar: stuðið, pólitísku kappræðurnar, réttsýnina og heiðarleikann.

Guðný Halldórsdóttir.

Við Þorgeir Halldórsson (Doddi) vorum 19 ára í hópi skólastráka sem sótti Laugaveg 11 og þá skemmtistaði sem buðust á þeim tíma. Kærustur bættust í hópinn, sumar duttu fljótt út, en aðrar urðu til frambúðar. Ekki leist mér á þegar Doddi vinur minn var kominn með 16 ára dömu upp á arminn. Það var Lára. Ég var þó fljótur að átta mig á að hún átti í fullu tré við okkur hvað þroska áhrærði. Mér fannst hún hafa þann eiginleika sem Englendingurinn kallar common sense en er ekki eins almennur og ætla mætti. Hún kom svo oft með einfalda svarið sem var svo augljóst þegar það var sagt. Hlutirnir gengu hratt á þessum árum. Eftir stúdentspróf fór Doddi að vinna hjá Loftleiðum. Frumburðurinn Hrafn fæddist og þau giftu sig 8. nóvember 1958.

Svo vildi til að við Sjöfn mín giftumst á sama degi. Við héldum saman upp á þennan brúðkaupsdag, stundum með utanlandsferðum. Því miður misstum við Lára bæði maka okkar á sjötugsaldri þannig að þeim viðburðum var sjálfhætt. En margar góðar minningar eru frá þessum dögum og þar trónir silfurbrúðkaupsferðin til Parísar hæst.

Doddi fékk starf hjá Loftleiðum í New York og fluttu þau þangað með strákana tvo. Þar fæddist þeim dóttir. Árið 1968 fékk ég styrk til fjögurra mánaða námsdvalar í New York. Ég gat tekið með mér konuna og tvö börn. Þá var ekki ónýtt að fá aðstoð og félagsskap Dodda og Láru. Þá kynntist ég því hvað Lára var algerlega á heimavelli sem húsmóðir á Long Island. Hún tjáði sig óhikað við háa sem lága. Það eina sem háði henni var að hún tók aldrei bílpróf. Þegar þau fluttu heim keyptu þau húsið Sætún á Seltjarnarnesi og undu sér þar vel.

Lára réð sig til starfa hjá Sjúkrasamlagi Reykjavíkur. Hún naut trausts yfirboðara sinna og var gerð að skrifstofustjóra. Samstarfsfólkið bar ekki síður traust til hennar því að hún var kjörin til trúnaðarstarfa í stéttarfélögum fyrir þeirra hönd. Atvikin höguðu því þannig að Lára átti ekki kost á langri skólagöngu, en það virðist ekki hafa háð henni mikið í starfi.

Lára var mikil fjölskyldumanneskja og naut samvista við börn sín, barnabörn og alla stórfjölskylduna, sem heldur svo vel saman.

Lára missti heilsuna á síðari árum og dvaldi síðustu árin á Grund. Ég heimsótti hana þangað fyrir allnokkru. Þá var hún fullklædd og hress. Ég er glaður að eiga þá mynd í minningunni um þessa elskulegu vinkonu.

Ég sendi börnum hennar og allri fjölskyldunni mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Gunnar Már
Hauksson.