Guðný Andrésdóttir fæddist 16. október 1984. Hún lést 11. apríl 2023.

Foreldrar hennar eru Sigríður Friðjónsdóttir tónlistarkennari, f. 16.11. 1961, ekkja. Faðir hennar er Andrés Gunnlaugsson húsasmíðameistari, f. 31.7. 1960. Hann er kvæntur Kristínu Stefánsdóttur hárgreiðslumeistara, f. 8.12. 1968.

Bróðir Guðnýjar, sammæðra, er Friðjón Snorri Guðjónsson, f. 20.6. 1978.

Eiginkona hans er María Sigríður Guðbjörnsdóttir, f. 5.8. 1981.

Dóttir þeirra er Erla Björk Friðjónsdóttir, f. 19.2. 2015.

Samfeðra systkin Guðnýjar eru Hjálmar Andrésson, f. 10.10. 1997.

Sambýliskona hans er Agnes Ýr Rósmundsdóttir, f. 16.10. 1996.

Dóttir þeirra er Aldís Rökkva Hjálmarsdóttir, f. 18.1. 2022.

Stjúpbróðir Andreas Örn M. Aðalsteinsson, f. 30.11. 1989.

Sambýliskona hans er Heiðrún S. Þórarinsdóttir, f. 21.2. 1995.

Sonur þeirra er Theodór M. Andreasson, f. 4.9. 2021.

Maki Guðnýjar er Eiður Örn Eyjólfsson, kerfis- og netstjóri, f. 24.6. 1986. Móðir Eiðs er Hanna Eiðsdóttir, f. 21.5. 1964, gift Arngrími Jónssyni, f. 19.10. 1960. Faðir Eiðs er Eyjólfur Gunnarsson, f. 10.3. 1962.

Börn Guðnýjar og Eiðs eru Andrés Emil Eiðsson, f. 29.5. 2004, Hanna Katrín Eiðsdóttir, f. 19.11. 2008, og Elísabet Íris Eiðsdóttir, f. 20.12. 2016.

Útför Guðnýjar fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 25. apríl 2023, klukkan 13.

Elsku Guðný.

Sit hér og er að berjast við alls konar tilfinningar. Að skrifa minningargrein um þig er eitthvað sem lífið hefur ekki undirbúið mig fyrir.

Pabbi situr og veit ekki hvernig á setja á blað það sem er í huga mínum. Ég man sem það hafi gerst í gær þegar ég fékk þig í fangið í fyrsta sinn, hjartað barðist í brjósti mínu og hugurinn fór á flug. Gat það virkilega hafa gerst að ég hefði verið þátttakandi í að búa til fallegasta barn sem hefði fæðst? Þetta var ótrúleg tilfinning, trúlega varð ég að fullorðnum manni á þessari stundu. Frá byrjun var strengur á milli okkar sem nú er slitinn, það tendraðist logi á milli okkar sem dafnaði og óx. Þótt logi þinn hafi dofnað þá verður í hjarta mínu stór logi sem þú ein átt.

Í gegnum árin höfum við brallað ansi mikið saman enda varstu mikil pabbastelpa. Þú hafðir ástríðu fyrir handbolta í gegnum það að elta mig á æfingar og taka þátt í ótal mörgum leikjum með mér, tala ekki um allar ferðirnar sem þú þvældist með mér vegna handboltans um allt land.

Þegar við Kristín förum að vera saman, tala ekki um þegar við fórum að búa, þá tók það þig nokkurn tíma að þurfa að deila mér með henni og Andreasi. En einn daginn þá small eitthvað og þú og litli bróður þinn urðuð sem eitt, tala ekki um þá vináttu og ást sem varð á milli þín og Kristínar.

Það var oft þröngt uppi í hjá okkur því þið sváfuð bæði tvö flestar nætur á milli.

Þegar Hjálmar fæddist þá vildir þú helst vera með hann alla daga. Það var ótrúlegt hvað þú nenntir að hafa bræður þína mikið hjá þér. Það var þannig alla tíð þótt þú væri orðin þriggja barna móðir og eiginkona, það varð að hittast, grilla, spila og spjalla saman.

Unglingsárin voru á stundum erfið en við kláruðum þau saman. Ég man þegar þú komst til mín og sagðist vera ófrísk að þínu fyrsta barni, þá sá ég ótrúlega breytingu sem varð hjá þér og ég fékk sömu tilfinningu og þegar þú komst í fangið mitt í fyrsta sinn. Á sama tíma kom stóra ástin inn í lífið hjá þér, Eiður, sem var alltaf kletturinn í þínu lífi. Það er ekki sjálfgefið að fá svona mann sem hefur alltaf verið til staðar og verið tilbúinn að takast á við þá erfiðleika sem voru á stundum vegna veikinda þinna. Þið stofnuðuð saman litla fjölskyldu sem stækkaði með tveimur stelpum til viðbótar, fjölskyldan var þér allt.

Elsku Guðný mín, ég gæti haldið endalaust áfram að kalla fram minningar þótt tíminn okkar hafi ekki orðið lengri en þetta. Erfiðast verður að fá ekki símtal frá þér þar sem við tölum um allt og ekkert, það eru fáir dagar sem við áttum ekki samtal. Oftast var hlegið, stundum grátið, við töluðum um börnin og Eið, handbolta og ákváðum næstu ferðalög, hvenær ætti að hittast, elda og vera saman. Verður sérstakt að fá ekki símtal og ræða við þig. Verst verður að fá ekki faðmlag frá þér og fá að njóta þess að hafa þig hjá mér.

Pabbi.

Elsku systir, það er óendanlega margt sem ég vildi geta sagt þér og rætt um. Þú hefur alltaf verið minn helsti verndari, stærsti aðdáandi og stutt mig og samglaðst mér yfir öllum mögulegum fréttum og árangri sem ég hef náð í gegnum lífið. Þú varst alltaf svo stolt af þeim stefnum sem ég tók í lífinu og hvattir mig til að ná eins langt og ég gat hugsað mér í öllu sem ég gerði. Ég mun gera allt sem ég get til að uppfylla þá ímynd sem þú hafðir af mér og reyna mitt besta að styðja við fjölskyldu og vini á sama hátt og þú gerðir fyrir mig, Agnesi, Aldísi og alla aðra í kringum þig alla tíð. Ég lofa því að gera allt sem ég get til að styðja við börnin þín, hjálpa þeim og hvetja eins og þú hefur ávallt gert fyrir mig.

Litli bróðir,

Hjálmar.

Elsku Guðný mín.

Við áttum einstakt samband í gegnum árin en ég gæti skrifað heila bók um þau ævintýri sem við fórum í. Ég var aðeins þriggja ára þegar þú komst inn í líf mitt en það sem þú kenndir mér á næstu árum er eitthvað sem ég mun taka með mér út ævina og er stór hluti af því hvaða einstakling ég hef að geyma í dag. Þú varst alltaf mín fyrirmynd og kenndir mér hvernig ég átti að tækla hlutina þegar ég var ekki alveg með þá á hreinu. Það var alveg sama hvort það var að hjálpa mér að kaupa fyrstu gallabuxurnar, handboltinn, en við ólumst að mestu leyti upp á handboltavellinum, og seinna meir, það mikilvægasta, að vera foreldri fyrir Theodór.

Ég er ekki viss um að þetta sár muni einhvern tímann gróa til fullnustu en sárast finnst mér að Theodór fái ekki að kynnast þeirri hlið af þér sem ég þekkti og leit svo upp til. Ég mun seint skilja hvers vegna besta fólkið okkar er tekið fyrst en það var lagt meira á þínar herðar en margir þola í gegnum lengra líf. Þú munt eiga sérstakan stað í hjarta mínu alla daga.

Takk fyrir allan hláturinn, grátinn, þræturnar, slagsmálin, ráðin og það besta af öllu, fyrir að vera stóra systir mín.

Þinn bróðir,

Andreas.

Elsku Guðný mín. Það sem kemur fyrst upp í hugann þegar ég hugsa um þig er lífsgleði. Mig langar að segja svo margt en á sama tíma er ég orðlaus. Að fara í ferðalag um allar þessar minningar í huganum er ótrúlegt. Ég er þakklát fyrir þær allar en á sama tíma leið því við áttum eftir að búa til svo margar minningar saman.

Mér er sérstaklega minnisstætt þegar við vinkonurnar hittum loks Guðnýju hans Eiðs og litla fallega Andrés Emil. Þið voruð einhvers konar ólýsanleg snilldarþrenna sem var búin til hvert fyrir annað. Ykkur var augljóslega ætlað að hittast og seinna bæta í hópinn dásamlegu stelpunum ykkar. Það var allt fallegt við ykkur. Það var alltaf þessi lífsgleði. Það var svo gott í hjartað að vera í kringum ykkur.

Þú varst ein af þessum sterku manneskjum. Sama hvað lífið gaf þér erfið verkefni, þú hélst alltaf áfram þakklát fyrir allt sem þú áttir. Stundum skil ég ekki hvar þú fannst allan þennan styrk. Þú varst svo þakklát fyrir lífið og tókst því aldrei sem gefnu. Það finnst mér aðdáunarvert.

Þú lærðir af þinni lífsreynslu og varst góð í því að miðla henni áfram. Það var svo sjálfsagt fyrir þig að ráðleggja okkur vinkonum þínum og alltaf gafstu þér tíma til þess. Að auki varstu víðlesin og fróð, þú vissir svo ótrúlega margt.

Þú tókst lífinu aldrei sem gefnu og naust þess á þinn eigin hátt. Það voru einmitt litlu hlutirnir og hversdagsleikinn sem þú kunnir svo vel að meta. Þú hafðir þetta einstaka hjartalag, mikil tilfinningavera og gafst frá þér einlæga hlýju og ást. Það var svona Guðnýjar-bragur yfir þeirri væntumþykju og ást sem þú gafst frá þér. Mér hlýnar um hjartarætur þegar ég rifja upp þín fallegu orð og meiningar í minn garð á tímum sem voru mér erfiðir. Þú hafðir þessa hreinu, tæru og fallegu nærveru. Svo nærgætin og hlý, samgladdist alltaf svo innilega og ófeimin við að sýna það.

Þú varst ófeimin við að vera þú sjálf og ekkert annað í einu og öllu. Ávallt samkvæm sjálfri þér og hafðir aldrei neitt að fela. Fyrst og síðast var það lífsgleðin sem alltaf fylgdi þér.

Þú varst svo innilega þakklát fyrir fólkið þitt og svo stolt. Það var dásamlegt að sjá og heyra hvað þér var mikið í mun að segja frá fólkinu þínu og því hversu stolt þú varst af öllum og hvað þú elskaðir heitt og innilega.

Elsku vinkona, takk fyrir að hafa verið þú sjálf, ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa kynnst þér og fyrir allt sem þú kenndir mér frá unglingsárum til dagsins í dag. Ég mun geyma þig í hjarta mínu um aldur og ævi.

Elsku Eiður, Andrés Emil, Hanna Katrín, Elísabet Íris og fjölskyldan öll, guð gefi ykkur styrk á þessum erfiða tíma, ég sé og ég veit að Guðný býr í ykkur öllum.

Þín vinkona,

Bergrós Gísladóttir.

Elsku hjartans vinkona mín.

Ég trúi því ekki enn að þú sért farin frá okkur og að ég sitji hér og skrifi þessi orð. Það hefur verið mjög erfitt og vont að þurfa að kveðja þig, svona góða vinkonu sem varst mér svo kær. Elsku Guðný mín, þú varst mér ómetanleg vinkona. Þú varst svo falleg manneskja, þú hugsaðir svo fallega til allra hvort sem þú þekktir þá eða ekki, gafst þig á tal við alla, enda fannst þér ekkert leiðinlegt að tala og þá sérstaklega um börnin þín og mann. Það sem þú varst alltaf stolt af börnunum þínum og eiginmanni og nýttir hvert tækifæri til þess að monta þig af þeim. Það var bara svo mikill kærleikur yfir þér og þú elskaðir svo mikið. Þú varst svo dugleg að hrósa og segja þína skoðun, sem er svo frábær eiginleiki.

Þú hafðir einstaklega gott minni og það var svo gaman að hlusta á allar sögurnar þínar af þér og þínu fólki, vísurnar sem þú þuldir fyrir börnin okkar og barnalögin sem þú mundir. Þú varst svo fróð og það var svo gott að leita til þín. Ef það var eitthvað sem ég var efins með þá varst þú alltaf sú sem ég talaði við, því þú vissir svo mikið og kunnir svo margt. Þú ert mín helsta fyrirmynd í móðurhlutverkinu, þú varst alltaf svo hlý og góð við börnin þín og mikill vinur. Vináttan sem þú áttir við börnin þín var svo skínandi og falleg. Það var svo gott að leita til þín og þú leiðbeindir mér svo vel þegar ég eignaðist dóttur mína. Þú varst alltaf tilbúin að svara öllum mínum spurningum og ráðleggja mér. Fyrir það er ég þér virkilega þakklát.

Í sumar ætluðum við mæðgur loksins að fara til Spánar til ykkar og þú varst svo spennt að sýna mér allt sem ykkur þótti gaman að gera þar úti. Enda elskaðir þú ekkert meira en að vera með fjölskyldunni þinni í sólinni á Spáni. Minningarnar sem ég á með þér eru margar og þykir mér vænst um öll spilakvöldin okkar, löngu samtölin og samverustundirnar með fjölskyldum okkar. Alltaf var svo mikil gleði og gaman í kringum þig því sama hvað bjátaði á hjá þér, þá varstu alltaf glöð, stutt í hláturinn þinn og aulahúmorinn, samkenndina og hlýjuna þína.

Elsku vinkona mín, það er svo sárt að missa þig svona snemma. Ég vona að þú munir halda áfram að fylgja mér, styðja mig og styrkja þangað til við hittumst á ný. Elsku vinir mínir, Eiður, Andrés Emil, Hanna Katrín og Elísabet Íris, mínar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar, hugur minn og hjarta er hjá ykkur og öllum þeim sem syrgja fallegu Guðnýju. Við vitum að missirinn er sár og mikill.

Þangað til næst, elsku vinkona.

Þín

Karen Ösp.

Hjartans besta Guðný mín er fallin frá.

Það ná engin orð yfir hvað ég finn til með börnum hennar og manni, missir þeirra er mikill og hugur minn dvelur hjá þeim.

Okkar fyrstu kynni voru árið 2004/2005 þegar Eiður kom upp í bústað þar sem ég ásamt öðrum vinum var fyrir. Hann kynnti okkur alsæll fyrir nýju kærustunni sinni. Við tvær svona smellpössuðum saman á núll-einni og að nokkrum mínútum liðnum vorum við komnar á trúnó og höfum verið á þeim stað síðan. Sterkur og fallegur vinskapur varð til á milli okkar og áttum við fjölmargar gleðistundir saman næstu tuttugu árin. Í hugann koma upp dásamlegar minningar um Mávabrautina þar sem Eiður, Guðný og Andrés Emil bjuggu saman og var mitt annað lögheimili um tíma. Guðný var mikil félagsvera og þrátt fyrir erfiðleika síðustu ára fannst henni alltaf gaman að hitta fólk og kynnast nýju fólki. Hún elskaði að fara í sveitina, var vel lesin, ótrúlega barngóð og vildi öllum allt það besta í lífinu. Hún hafði mikinn áhuga á handbolta, spilum, góðum mat og tónlist en fyrst og fremst voru það börnin hennar þrjú, Andrés, Hanna og Elísabet. Hún sá ekki sólina fyrir þeim og átti hún yndislega fallegt samband við börnin sín. Eiður var hennar klettur og stóra ástin í lífi hennar. Hún talaði oft um hvað hún væri heppin með eiginmann. Hún var skemmtilegur villingur og stríðnispúki og með mest smitandi hlátur sem fyrirfinnst.

Söknuðurinn er mikill og missirinn enn meiri þegar ung kona í blóma lífsins er tekin frá börnum sínum svo snemma. Sorgin situr eftir og fer ekkert og maður veit ekkert hvernig maður á að höndla hana. Lífið getur verið alls konar, fullt af gleðistundum og á augabragði bankar sorgin á dyrnar og á tímum sem þessum finnst manni þetta svo ótrúlega ósanngjarnt. Því reyni ég eftir megni að hugsa um fallegu minningarnar og þakka fyrir allar samverustundirnar sem við áttum. Mikið á ég eftir að sakna þín, elsku Guðný mín. Þú verður aldrei gleymd, þú verður ætíð í hjarta mínu og huga. Þangað til næst.

Mínar hjartans samúðarkveðjur til ykkar, elsku Eiður og börn.

Þín vinkona,

Eyrún Ósk Elvarsdóttir.

Elsku yndislega vinkona mín, ég veit hreinlega ekki hvar eða hvernig ég á að byrja. Ekki hefði mig grunað að ég ætti eftir að þurfa að kveðja þig svona snemma en þú varst tekin frá okkur öllum eins og hendi væri veifað, frá Eiði og börnunum ykkar sem þú elskaðir meira en allt annað. Þú varst svo stolt af fólkinu þínu og varst dugleg að segja frá þeim hvar og hvenær sem er og við þá sem voru tilbúnir að hlusta. Þú hrósaðir ekki aðeins þeim heldur öllum sem voru í kringum þig, þú hafðir alltaf eitthvað jákvætt um hvern og einn að segja og varst dugleg að segja það upphátt og mættu allir taka þig til fyrirmyndar. Ég verð ævinlega þakklát fyrir að hafa fengið ykkur fjölskylduna inn í líf okkar Reynis fyrir öllum þessum árum. Fjölskyldur okkar urðu að einni risastórri fjölskyldu sem átti eftir að gera svo margt skemmtilegt saman, allar utanlandsferðirnar, bústaðarferðirnar, grillkvöldin og fleiri dásamlegar minningar sem ég mun geyma í hjarta mínu um ókomna tíð.

Elsku vinkona mín, það verða þung og erfið skrefin að fara í gegnum lífið án þín og skilur þú eftir þig stórt skarð í hjörtum okkar allra sem elskuðum þig svo heitt. Við Reynir munum vera til staðar fyrir Eið og börnin ykkar í gegnum þessa hræðilegu sorg, það er mitt loforð til þín. Ég elska þig svo mikið og sakna þín svo sárt.

Þín vinkona,

Lilly Guðlaug.

Elsku, elsku Guðný okkar. Fallega, hjartahlýja Guðný með bjarta brosið. Guðný sem okkur þykir svo vænt um. Guðný sem var svo dýrmætur hluti af okkar góða hópi. Við trúum því ekki að þú sért farin, að þetta hafi endað svona. Þú sem varst búin að standa þig svo vel, sýna ótrúlegan styrk og berjast fyrir heilsunni. Við fylgdumst með þér, studdum þig, hvöttum áfram og vonuðum að þú kæmist yfir þessi erfiðu og ósanngjörnu veikindi. Við vildum öll halda í þá von að þú fengir lækningu sem gerði þér kleift að njóta lífsins með fallegu fjölskyldunni þinni og jafnvel koma aftur í smá vinnu. En því miður fór það ekki þannig. Líklega hefur verið þörf fyrir þig á öðrum stað. En við vorum heppin að kynnast þér og þinni fallegu sál og við duttum heldur betur í lukkupottinn þegar við fengum þig inn í okkar samheldna starfsmannahóp. Þú varst svo heillandi og hlý kona og á hárréttum stað í starfi með börnum. Þú komst fram við öll börn af virðingu og passaðir alltaf upp á að enginn yrði útundan. Í þínum augum voru allir jafnir, óháð stétt og stöðu. Þú máttir ekkert aumt sjá og hafðir einstakt lag á að láta fólki líða vel. Þú varst frábær með unglingum og þeim fannst gott að vera í kringum þig og tala við þig. Þú varst dugleg, kraftmikil, glaðlynd, jákvæð, hjartahlý, hress og skemmtileg. Það var gaman í kringum þig, alltaf stutt í djókið og dillandi hláturinn og það besta var að þú tókst lífið ekkert of alvarlega. Þú elskaðir ekkert meira en fjölskylduna þína, ástina þína, hann Eið, sem var kletturinn þinn og fallegu og góðu börnin þín sem þú sást ekki sólina fyrir, Andrés Emil, Hönnu Katrínu og Elísabet Írisi, sem voru svo heppin að einmitt þú varst mamma þeirra. Þú talaðir alltaf um þau af ómældri ást, virðingu og stolti og við erum sannfærð um að þetta hefur allt náð til þeirra og verður það sem þau taka með sér frá þér út í lífið.

Við í Myllubakkaskóla erum ein stór fjölskylda og þú varst sannarlega einn sterkur hlekkur í þessari fjölskyldu og skilur eftir þig stórt skarð. Þó svo þú hafir ekki unnið með okkur frá því þú veiktist varstu alltaf í sambandi, talaðir alltaf svo fallega um Mylluna þína og varðir hana með kjafti og klóm ef eitthvað var. Þú varst sannarlega traustur vinur sem gat gert kraftaverk. Við söknum þín sárt en yljum okkur við allar góðu minningarnar og allt sem þú kenndir okkur. Við eignuðumst ekki bara vinnufélaga daginn sem þú komst til okkar, við eignuðumst vinkonu. Vinkonu með svo fallegt hjarta, vinkonu sem sá það fallega í öðrum, vinkonu sem var annt um náungann, vinkonu sem hlustaði, sem faðmaði, sem var svo mikið hörkutól, svo ráðagóð, fyndin, falleg og svo mikill prakkari. Vinkonu sem við söknum sárt.

Blessuð sé minning elsku Guðnýjar okkar.

Fyrir hönd starfsfólks Myllubakkaskóla,

Íris Dröfn.