Lykilhlutverk Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er komin heim.
Lykilhlutverk Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er komin heim. — Ljósmynd/Kristinn Steinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stjarnan hirti annað sætið, og þar með Evrópusætið, af Breiðabliki á lokaspretti síðasta tímabils og mætir til leiks í Bestu deild kvenna með tvo bikara í safninu eftir vel heppnað undirbúningstímabil

Stjarnan hirti annað sætið, og þar með Evrópusætið, af Breiðabliki á lokaspretti síðasta tímabils og mætir til leiks í Bestu deild kvenna með tvo bikara í safninu eftir vel heppnað undirbúningstímabil.

Garðabæjarliðið fór ósigrað í gegnum veturinn, vann Þór/KA í úrslitum deildabikarsins og Val í Meistarakeppninni. Báðir sigrarnir unnust reyndar eftir vítaspyrnukeppni en eru eftir sem áður gott veganesti fyrir átökin sem eru fram undan.

Stærstu tíðindi vetrarins voru heimkoma Gunnhildar Yrsu Jónsdóttur, landsliðskonu og fyrirliða Stjörnunnar áður en hún fór í atvinnumennsku fyrir tæpum tólf árum.

Með henni kom eiginkonan og landsliðsmarkvörður Kanada í áraraðir, Erin McLeod, en þær léku báðar með bandaríska atvinnuliðinu Orlando Pride. Þessari heimkomu fylgir því gríðarleg reynsla sem gefur Stjörnukonum vonir um að þær geti endurtekið afrekin frá árunum 2011 til 2016.

Það er blómaskeið liðsins sem á þeim árum varð fjórum sinnum Íslandsmeistari og þrisvar bikarmeistari en hefur síðan gengið í gegnum mikla endurnýjun og Kristján Guðmundsson hóf uppbygginguna á nýju liði þegar hann tók við þjálfun í árslok 2018. Nú hefur Stjarnan á tveimur árum klifrað úr sjötta sætinu upp í annað sætið og Kristján og hans konur ætla sér örugglega að fara alla leið í ár.

Erin fær harða samkeppni í markinu því Auður Scheving kom líka til Stjörnunnar í vetur, frá Val, en hún lék með bæði ÍBV og Aftureldingu í deildinni í fyrra og hefur verið í landsliðshópnum. Þær koma í stað Chanté Sandiford sem lagði hanskana á hilluna í vetur og þjálfar nú markverði í Grindavík.

Stjarnan fékk líka Andreu Mist Pálsdóttur frá Þór/KA þannig að miðjan styrkist enn frekar. Þá lék nýsjálenska landsliðskonan Betsy Hassett í heimalandinu í allan vetur en er mætt í slaginn með liðinu á ný og munar um minna.

Katrín Ásbjörnsdóttir er farin í Breiðablik en hún myndaði besta sóknartríó deildarinnar í fyrra með Jasmín Erlu Ingadóttur og Gyðu Kristínu Gunnarsdóttur. Snædís María Jörundsdóttir, framherji U19 ára landsliðsins, er komin úr láni í Keflavík og á að fylla skarð Katrínar.

Fyrirliðinn Anna María Baldursdóttir og reynsluboltinn Málfríður Erna Sigurðardóttir eru áfram í vörninni og ljóst er að Stjarnan er komin með lið sem gæti hæglega unnið stóran titil í ár.