Ari Teitsson
Ari Teitsson
Fjallað er um meinta ofveiði í Laxá í Aðaldal.

Ari Teitsson

Miðvikudaginn 19. apríl sl. birtist í Morgunblaðinu viðtal við sir Jim Ratcliffe í tilefni af ráðstefnu um laxastofna í Atlantshafi sem hann stóð fyrir. Þar segir meðal annars:

Ratcliffe telur að veiðiálag hafi verið of mikið í gegnum árin sem hafi gengið nærri laxveiðiám og nefnir í því samhengi Laxá í Aðaldal. „Þar er nánast enginn fiskur eftir vegna þess að hún hefur verið ofveidd.“

Laxá í Aðaldal hefur verið rannsökuð meira og betur en flestar íslenskar laxveiðiár og er gögn um flestar þær rannsóknir að finna á vef Hafrannsóknastofnunar, www.hafogvatn.is.

Í þeim gögnum er ekkert að finna sem bendir til ofveiði í Laxá. Frá 2007 hefur nær öllum veiddum laxi verið sleppt og virðist því hrygningarstofn á árunum 2007-2016 að meðaltali hafa verið nálægt 1.150 löxum en virðist á árabilinu frá 1991-1995 nálægt 1.075 löxum og raunar einnig svipaður á árunum eftir 1970. Við mat á hrygningarstofni er gert ráð fyrir að 60% laxagöngunnar veiðist á stöng og 30% af slepptum laxi veiðist aftur.

Í skýrslu um athuganir á Laxá í Aðaldal 2019 (Guðni Guðbergsson, Jóhannes Guðbrandsson) segir: „Það vekur athygli að tengsl stærðar hrygningarstofns og seiðavísitalna er veikari en í mörgum öðrum ám og það sama á við um tengsl seiðavísitalna vorgamalla og ársgamalla seiða.“ Þessi umsögn bendir til að orsaka lítillar framleiðslu gönguseiða í Laxá sé fremur að leita í umhverfisþáttum en stærð hrygningarstofns og fjölda fyrsta árs seiða.

Veiði í Laxá hefur ætíð verið sveiflukennd en í yfirliti yfir veiði síðustu 50 ára er ekkert að finna sem bendir til að stórir hrygningarárgangar gefi endilega góða veiði þremur til fimm árum síðar. Þá er einnig umhugsunarvert að það hrun í stangveiði sem hófst í Laxá 2017 kemur í kjölfar stórra hrygningarárganga 2015 og 2016.

Ætíð er slæmt þegar rangar fullyrðingar eru birtar opinberlega og því verra sem meiri líkur eru á að á þeim sé tekið mark. Hrun stangveiði í Laxá er mikið áfall bæði líffræðilega og fjárhagslega og því mikilvægt að orsaka sé leitað með nákvæmri athugun á fyrirliggjandi gögnum fremur en að byggja á órökstuddum fullyrðingum.

Gögn sýna að seiðaframleiðsla og laxveiði er nær horfin úr efri hluta árinnar en hefur haldist mun betur neðst í ánni. Á sama tíma hefur botn breyst mikið í efri hlutanum af völdum sandreks en þekkt er að lax forðast sand mjög (Björn Blöndal). Þá hefur netaveiði á urriða sem áður var stunduð frá flestum bæjum verið að mestu hætt og miklum hluta af stangveiddum urriða er sleppt. Við þær aðstæður er alinn upp ránfiskur sem eftir að ákveðnum aldri er náð veiðir gjarnan fisk sér til matar.

Höfundur aðstoðaði við fiskrækt og rannsóknir á Laxá á ofanverðri síðustu öld.