Sautján ára stúlku, sem var ein þeirra fjögurra sem sátu í gæsluvarðhaldi vegna morðsins fyrir utan Fjarðarkaup í síðustu viku, hefur verið sleppt úr haldi. Stúlkunni var sleppt eftir að Landsréttur felldi gæsluvarðhald yfir henni úr gildi í gærkvöldi

Sautján ára stúlku, sem var ein þeirra fjögurra sem sátu í gæsluvarðhaldi vegna morðsins fyrir utan Fjarðarkaup í síðustu viku, hefur verið sleppt úr haldi. Stúlkunni var sleppt eftir að Landsréttur felldi gæsluvarðhald yfir henni úr gildi í gærkvöldi.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður stúlkunnar sagði í fréttum RÚV að hún hefði tekið upp myndband af árásinni og ekki komið nærri fórnarlambinu eða verknaðinum. Þar kom jafnframt fram að einn sakborninga hefði játað að hafa orðið manninum að bana.

Í tilkynningu lögreglu síðdegis í gær kom fram að rannsókn málsins miðaði vel. Lögreglan telur sig í meginatriðum hafa nokkuð skýra mynd af atburðarásinni sem leiddi til dauða 27 ára pólsks karlmanns sem var stunginn til bana. Fjögur ungmenni, öll undir tvítugu, voru handtekin vegna málsins. Þrjú sæta nú gæsluvarðhaldi. Tvö þeirra eru vistuð á Stuðlum en eitt í fangelsinu á Hólmsheiði.