Stemning „Í Harmony eru það fyrst og fremst hreyfingar og kóreógrafískt handverk sem skapa stemningu og merkingu verksins og nær höfundur ágætlega að koma markmiðum sínum á framfæri á þann hátt.“
Stemning „Í Harmony eru það fyrst og fremst hreyfingar og kóreógrafískt handverk sem skapa stemningu og merkingu verksins og nær höfundur ágætlega að koma markmiðum sínum á framfæri á þann hátt.“ — Ljósmynd/Sigurður Gunnarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tjarnarbíó Harmony ★★★·· Danshöfundur: Ernesto Camilo Valdes. Tónlist: Ernesto Camilo Valdes. Lýsing: Kristján Darri Kristjánsson. Dansarar: Álfheiður Karlsdóttir, Assa Davíðsdóttir, Bergþóra Sól Elliðadóttir, Diljá Þorbjargardóttir, Emma Eyþórsdóttir, Freyja Vignisdóttir, Hafey Lipka Þormarsdóttir, Kristín Rannveig Jóhannsdóttir og Sylvía Kristín Ívarsdóttir. Forward with Dance Youth Company frumsýndi í Tjarnarbíói fimmtudaginn 20. apríl 2023.

Dans

Sesselja G.

Magnúsdóttir

Þó nokkur fjöldi vel þjálfaðra dansara útskrifast frá framhaldsdeildum dansskólanna á hverju ári. Þessir nemendur hafa að loknu stúdentsprófi að meðaltali 10 ára dansnám að baki, sumir styttra en aðrir lengra. Þeirra bíða þó lítil sem engin tækifæri hér á landi til að taka þátt í danssýningum eða uppfærslum annars konar að námi loknu og þurfa þau (í miklum meirihluta þær) sem halda ekki beint áfram í háskólanám í greininni – nokkuð sem er leið flestra sem fá atvinnu sem dansarar – oft að hætta alfarið að dansa. Stofnun dansflokksins FWD Youth Company, sem settur var á laggirnar fyrir nokkrum árum undir hatti Dansgarðsins og hefur að markmiði að gefa 18-25 ára dönsurum tækifæri til áframhaldandi þjálfunar og reynslu í að vinna með danshöfundum utan skólaumhverfisins, var því mjög heilladrjúgt skref í átta að auðugra listdanslífi hér á landi.

Ólíkir danshöfundar hafa verið fengnir til að vinna með flokknum í gegnum árin, sem gerir bæði þátttökuna og áhorf á sýningarnar áhugavert. Þetta árið var dansarinn, danshöfundurinn, leikarinn, danskennarinn og einn af stofnendum flokksins, Ernesto Camilo Valdes, fenginn til að semja fyrir hann og var verk hans Harmony frumsýnt á sumardaginn fyrsta í Tjarnarbíói.

Camilo sækir að eigin sögn innblástur í náttúruna við gerð verksins og er „viðkvæmt og hárnákvæmt jafnvægi vistkerfa, þar sem hver einasta lífvera, stór eða smá, skiptir sköpum fyrir heildina“ innblástur sköpunarinnar.

Þegar áhorfendur settust í salinn á sumardaginn fyrsta lá gráleit birta yfir sviðinu, ekki ólíkt rökkri í skógarbotni, og tíu líkamar lágu um allt gólfið. Allt var hljótt nema litlir kippir fóru um líkamana öðru hverju. Þegar taktföst og mjög töff hljóðmynd/tónlist fór af stað jukust hreyfingar líkamanna smátt og smátt þar til þeir iðuðu í einni kös. Líkamarnir færðust síðan upp í standandi stöðu og við tók vel unnin kóreógrafía byggð á fallegum hreyfingum og lipurri framvindu sem hélt athygli áhorfandans óskiptri í tæpa klukkustund.

Hreyfingarnar, sem dansararnir höfðu gott vald á, voru áhugaverðar og þjónuðu efni verksins vel. Dansararnir tjáðu þær með líkama sínum en ekki persónu nema rétt á einum stað þar sem glitti í mannlega þjáningu sem leiddi af sér samkennd og vernd hópsins. Kóreógrafían gerði þó ráð fyrir að dansararnir fengju allir að njóta sín og sýna hvað í þeim býr án þess að það kæmi niður á heildarmyndinni.

Í Harmony eru það fyrst og fremst hreyfingar og kóreógrafískt handverk sem skapa stemningu og merkingu verksins og nær höfundur ágætlega að koma markmiðum sínum á framfæri á þann hátt. Hreyfingarnar þjónuðu vel efninu og kóreógrafískt handverk var vandað. Það, ásamt lýsingunni, sem var hófstillt allan tímann, og tónlistinni, skapaði fallegt flæði sem hélst allt frá upphafi til enda verksins. Harmony er áferðarfallegt dansverk, notalegt til áhorfs en skilur ekki mikið eftir sig.