Á boðnarmiði á Guðmundur Arnfinnsson limruna Hundakæti: „Ég af því hef endalaust gaman og engist af hlátri“, kvað daman, „þegar hundurinn minn tekur hringsnúninginn, til að hann nái endunum saman“

Á boðnarmiði á Guðmundur Arnfinnsson limruna Hundakæti:

„Ég af því hef endalaust gaman

og engist af hlátri“, kvað daman,

„þegar hundurinn minn

tekur hringsnúninginn,

til að hann nái endunum saman“.

Um helgina skrifaði Friðrik Steinsgrímsson: „Einhvern tíma orti ég þetta við svipaðar veðrabreytingar“:

Kuldinn hann bítur í kinnar og tær

svo krókloppið hamast mitt hjarta,

vorið er horfið sem var hér í gær

með vermandi sólgeislann bjarta.

Ég þrestina heyr' ekki þylja sitt lag

né þytinn frá vængjanna slætti,

það næddi hér vindur svo napur í dag

að náttúran vorstörfum hætti.

Nú leggst ég á koddann í lotningu bið

um lognkyrrð og sólskin og hita,

um fallegu blómin og fuglanna klið

og ferskleika sumarsins lita.

Hallmundur Kristinsson fylgist vel með:

Alltaf er lífið í borginni best;

batnandi hagur.

Í umræðu Silfursins fegraði flest

fallegur Dagur.

Limrur eftir Jón Jens Kristjánsson:

Runólfur talar af rausn um

að rétt sé að hyggja að lausnum

og kenna þær öllum

en kemur af fjöllum

og klórar sér bara í hausnum

Björgúlfur bóndi á Grundum

birtist á hlaðin' á Lundum

„sæll vertu, góði“

sagði þá Fróði

og sigaði á 'ann hundum

Ódæll var Arnljótur Markan

í Ólsen þar gilti harkan

hjá Svanhildi grimmu

„Settu út fimmu“!!!

þá setti hann alltaf út fjarkann

Broddi B. Bjarnason segir að sumardagurinn fyrsti sé rétt ókominn:

Þegar sólarleysi lýkur,

léttist hugans þor.

Út í bláinn vetur víkur.

Vaknar blessað vor.


Gamall húsgangur:

Rauður bera manninn má,

mun hann vera þungur,

eins og þytur er að sjá

yfir hrun og klungur.