Sigurður Z. Þórarinsson fæddist 24. ágúst 1943 á Víðivöllum ytri 1 í Fljótsdal. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Dyngju 15. apríl 2023.

Foreldrar hans voru Sigríður Elísabet Þorsteinsdóttir f. 2. júlí 1907, d. 17. janúar 1956 og Þórarinn Hallgrímsson, f. 13. júlí, d. 27. mars 1948.

Systkini Sigga, eins og hann var jafnan kallaður, eru Hallgrímur, f. 20. apríl 1935, d. 31. desember 2011, Þorsteinn Ingimar, f. 29. janúar 1941 og Bergljót Ingibjörg, f. 16. ágúst 1942.

Siggi sleit barnsskónum í Fljótsdal en hefur búið á Egilsstöðum síðan 1968. Hann gekk í Framhaldsskólann á Laugum en lauk meistaranámi í húsasmíði frá Iðnskólanum á Sauðárkróki.

Siggi vann sem verkamaður t.d. við byggingu Hallormsstaðaskóla og starfaði einnig á sjó, bæði á Snæfugli SU og Gunnari SU. Þegar námi lauk lá leiðin aftur upp í Hérað í smíðavinnu og tók hann þátt í að stofna smíðaverkstæðið Brúnás á Egilsstöðum. Árið 1973 hófst nýr kafli hjá Sigga þegar hann fjárfesti í vinnuvél sem var upphafið að Vélaleigu Sigga Þórs sem varð svo að ævistarfinu og rekið í 45 ár. Árið 1982 var lokið við að smíða verkstæði undir Vélaleiguna. Siggi tók einnig þátt í stofnun Héraðsverks ehf. 1988 og var fyrsta sameiginlega verkefnið stækkun á flugvellinum á Egilsstöðum. Siggi sat í stjórn Héraðsverks og hafði hann ætíð mikinn metnað fyrir því að fyrirtækið fengi gott brautargengi og gengi vel.

Barnsmóðir Sigga er Alda Jónsdóttir, f. 26. mars 1952. Þau eignuðust saman börnin Þórarin Víði, f. 17. júlí 1970, í sambúð með Matte Schonfeldt og á hún fjögur börn, og Elísabetu Ósk, f. 9. janúar 1972, gift Guðmundi Inga Haraldssyni.

Eftirlifandi eiginkona Sigga er Lúvísa Hafdís Kristinsdóttir, f. 29. ágúst 1950, börn hennar Sigrún Hulda, Ágúst Hreinn og Kristinn Hafþór. Þau Lúlla og Siggi hófu búskap í Árskógunum en fluttu svo í Bjarkarsel þar sem þau bjuggu sér fallegt heimili. Þau hjónin deildu sameiginlegu áhugamáli, að ferðast, og voru ófáar ferðirnar farnar á Augasteini í húsbílaferðalög og til Kanarí þar sem þau nutu samvista með frábærum ferðafélögum svo ekki sé minnst á allar góðu stundirnar í bústaðnum í Fljótsdal.

Útför Sigga verður gerð frá Egilsstaðakirkju í dag, 25. apríl 2023, klukkan 14. Streymt verður frá athöfninni á:

www.egilsstadaprestakall.com

Elsku Siggi.

Nú skiljast leiðir og þú ert kominn í sumarlandið. Það er gott að fá hvíldina fyrir þreyttan líkama eftir erfið veikindi.

Við vorum búin að eiga góð ár saman og ferðast mikið sem var okkar sameiginlega áhugamál auk þess að grípa í spil auðvitað. Það eru ófáar ferðirnar til Kanarí, í sumarbústaðinn okkar í Fljótsdalnum og ekki síst allar ferðirnar í húsbílnum okkar. Þarna sköpuðust minningar sem gott er ylja sér við. Takk fyrir allt.

Hittumst seinna.

Þín eiginkona, Lúlla.

Lúvísa Hafdís
Kristinsdóttir.

Pabbi er dáinn. Minning þín lifir.

Heiðarleiki, jákvæðni, réttsýni, viljastyrkur, vinnusemi, gestrisni, hjálpsemi og auðmýkt eru orð sem lýsa pabba best.

Þú varst maður fárra orða en lést verkin tala. Það eru margir sem eiga þér mikið að þakka fyrir að þú hefur hjálpað þeim.

Afi dó þegar þú varst fimm ára gamall og amma dó þegar þú varst þrettán ára. Það hlýtur að hafa verið mikið áfall að missa þau bæði þegar þú varst svo ungur. Ég veit ekki hvort það var ástæðan fyrir því að þú vildir halda verndarhendi yfir mér þegar ég hef misstigið mig á lífsins vegi.

Þú varst alltaf til staðar fyrir mig og ég verð þér ætíð þakklátur fyrir þær stundir sem við áttum saman. Hvort sem það var heima, á verkstæðinu, á veiðum, í sumarbústaðnum, að spila bridge eða þegar við unnum saman í vegavinnu.

Þú ert stór hluti af mínu lífi og það sem þú hefur gefið mér er það sem ég er í dag.

Þú veiddir þína fyrstu rjúpu þegar þú varst tólf ára gamall. Þú fórst gangandi heiman frá Víðivöllum til Halla á Þorgerðarstöðum til að fá lánað skotvopn. Síðan fórstu upp í fjall og náðir einni rjúpu. Þú skilaðir skotvopninu til Halla af því að hann þurfti að nota það morguninn eftir. Þú gekkst þú svo heim eftir að myrkur var skollið á. Það eru margir veiðitúrarnir, rjúpnaveiðar og hreindýraveiðar, sem við höfum farið saman. Eitt skipti fórum við á rjúpnaveiðar á svæðinu við Skessugarð. Þar skutum við átta rjúpur í samskoti og þú talaðir um þennan túr í mörg ár.

Við áttum góð ár saman í Árskógunum með kærleik og trygga ramma. Þar var mikill gestagangur, hvort sem það var til að gista, spila, borða eða drekka kaffi.

Árið 1973 keypti Dagsverk sf., þar sem þú varst einn eigenda, hjólaskóflu. Þú vannst á hjólaskóflunni við að moka möl á vörubíla á sumrin og að ryðja snjó með snjóblásara á veturna.

Þú hættir í Dagsverki árið 1979 og hjólaskóflan varð þín eign. Þú keyptir þína fyrstu beltagröfu árið 1989 og Sigmundur Halldórsson var fyrsti fastráðni starfsmaður Vélaleigu Sigga Þór ehf. Það var upphaf farsæls samstarfs í mörg ár. Árið 1998 baðstu Andrés H. Axelsson, frænda okkar að vinna tvær vikur á Siglufirði sem síðan urðu að árum. Samband ykkar Andrésar var náið og það var mikið lán og gæfa fyrir þig að hafa hann þér við hlið.

Þú byggðir verkstæðið þitt að Miðási 31 sem var kallað „Skemmuskólinn“. Þar var oft mikið líf og fjör. Það komu margir til að fá kaffi og spjall. Þar komu líka vinir þínir með bíla og tæki til viðgerða. Þú varst oft að hjálpa þeim án þess að vilja fá krónu fyrir. Á veturna voru Sigmundur, Andrés, Unnsteinn og Sigurvin með þér á verkstæðinu til að sinna viðhaldi á vinnuvélunum.

Þú varst alltaf svo góður við Anne Mette og börnin hennar Frederik, Tomas, Söru og Teu. Þú lánaðir okkur sumarbústaðinn og bíla þegar við komum í sumarfrí til Íslands. Við eigum margar góðar minningar úr Fljótsdalnum með þér. Þeirri hlýju og alúð sem sýndir þeim koma þau aldrei til með að gleyma.

Ég vil þakka starfsfólki Dyngju fyrir þá góðu umönnun og kærleik sem þau sýndu þér, pabbi.

Þórarinn Víðir
Sigurðsson.

Nú hefur Siggi fengið hvíldina eftir erfið veikindi. Hann kom inn í líf okkar systkina árið 1991 þegar þau mamma byrjuðu að hittast og fara saman í bíltúr. Við hefðum ekki getað hugsað okkur yndislegri mann sem kom alltaf fram af hógværð og ljúfmennsku. Ekki skemmdi fyrir að hann þekkti pabba frá tímanum sínum á sjónum. Við eigum margar skemmtilegar minningar með Sigga, í útilegum, allskyns fjölskyldustundum og þá sérstaklega í Fljótsdalnum þar sem við vorum alltaf velkomin og hann svo einstaklega stoltur af sinni sveit.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Hvíldu í friði, elsku Siggi.

Sigrún, Ágúst (Gústi), Kristinn og fjölskyldur.