Hjónin Ingvar og Elín.
Hjónin Ingvar og Elín.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ingvar Björnsson fæddist 25. apríl 1973 á Blönduósi og ólst upp á Hólabaki í Þingi. „Ég er annað barn foreldra minna en við systkinin erum fjögur talsins. Þegar ég kom í heiminn höfðu foreldrar mínir nýlega hafið búskap á Hólabaki þar sem þau byggðu upp myndarlegt kúabú

Ingvar Björnsson fæddist 25. apríl 1973 á Blönduósi og ólst upp á Hólabaki í Þingi. „Ég er annað barn foreldra minna en við systkinin erum fjögur talsins. Þegar ég kom í heiminn höfðu foreldrar mínir nýlega hafið búskap á Hólabaki þar sem þau byggðu upp myndarlegt kúabú.

Bernskan leið við leiki og sveitastörf. Jafnan var fjölmennt á bænum á sumrin. Farið var í reiðtúra, veiðiferðir og íþróttaæfingar á sumarkvöldum.

Grunnskólaganga Ingvars hófst við sjö ára aldur í skólaseli frá Húnavallaskóla sem var í Flóðvangi í Vatnsdal. Við 10 ára aldur hófst nám við Húnavallaskóla. „Það var ánægjulegur tími í fjölmennum bekk.

Á unglingsárunum æfði ég og keppti í frjálsum íþróttum undir merki USAH og safnaði á þeim árum nokkrum Íslandsmeistaratitlum í kastgreinum.

Eftir útskrift úr grunnskóla var ekki um annað að ræða en að hleypa heimdraganum og lá leiðin til náms við Menntaskólann á Akureyri. MA er einstakur skóli og þar mynduðust vinabönd sem endast lífið. Þar kynntist ég einnig Elínu konu minni, en saman höfum við gengið allar götur síðan.

Náttúran, lífríkið og landbúnaðurinn hefur alltaf staðið hjarta mínu nærri og eftir stúdentspróf og stutta viðdvöl í Háskóla Íslands hófst nám við Bændaskólann á Hvanneyri.“ Þaðan útskrifaðist Ingvar sem búfræðingur vorið 1996 og sem B.Sc. í búvísindum vorið 1999. Eftir að hafa stundað rannsóknir og kennslu við nýstofnaðan Landbúnaðarháskóla á Hvanneyri í eitt ár ákváðu þau hjónin að halda til framhaldsnáms í Kanada.

Þau hófu M.Sc. nám við University of Guelph í Ontario og fékk Ingvar veglegan námsstyrk til að stunda nám í erfðafræði og plöntukynbótum með áherslu á bygg og aðrar korntegundir.

„Námsárin í Kanada voru afskaplega gefandi og þroskandi tími. Kanadíska samfélagið er sannkallað fjölmenningarsamfélag og þar leið okkur vel. Segja má að landið sé eins konar millistig á milli Evrópu og Bandaríkjanna en einnig mikill menningarlegur suðupottur.

Þrátt fyrir að okkur liði vel í Kanada og í boði væru fjölmörg tækifæri á frekara námi eða störfum kallaði fósturjörðin. Þegar leið að námslokum hafði ég samband við framkvæmdastjóra Búnaðarsambands Eyjafjarðar og það varð úr að ég réð mig sem ráðunautur hjá BSE vorið 2003. Næsta áratuginn komum við hjónin okkur vel fyrir á Akureyri og eignuðumst börnin okkar þrjú.“

Á þessum árum starfaði Ingvar fyrir bændur á Norðausturlandi sem ráðunautur en einnig hluta tímans sem sérfræðingur við Tilraunastöð Landbúnaðarháskólans á Möðruvöllum.

„Starf búnaðarráðunautar er einstaklega fjölbreytt og áhugavert. Starfið felst í því að miðla fræðilegri þekkingu til bænda en ekki síður að flytja reynsluvísindi á milli bæja. Þarna kynntist ég fjölmörgu vönduðu fólki. Einnig fékk ég í tengslum við starfið tækifæri til að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi á sviði jarðræktar og gegna trúnaðarstörfum m.a. fyrir Norræna genabankann, NordGen og NJF, samtök búvísindafólks á Norðurlöndum.

Eftir að hafa fylgst með góðbændum í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum í 10 ár lá það beint við að reyna fyrir sér í búskap. Foreldrar mínir vildu fara að hægja á sér eftir að hafa búið í ríflega 40 ár og það var úr að við fjölskyldan fluttum á æskuslóðir mínar í Húnaþingi haustið 2013. Við tókum við kúabúinu og hófumst handa við að byggja upp aðstöðu fyrir hönnunarfyrirtæki sem Elín hafði stofnað nokkru fyrr.

Það eru mikil viðbrigði að taka sig upp á miðjum aldri og segja upp öruggum og vel launuðum störfum til að hefja búskap í sveit. Þrátt fyrir að fátt kæmi á óvart í búskapnum og rekstrinum er erfitt að búa sig undir þá miklu bindingu og ábyrgð sem fylgir því að halda búfé og þá sérstaklega kýr sem þurfa athygli og umhirðu alla daga ársins. Þá er gott að eiga góða að og foreldrar mínir búa í túnfætinum og hafa staðið við bakið á okkur í búskapnum.

Þótt starf bóndans sé krefjandi er það líka mjög gefandi og skemmtilegt. Að yrkja jörðina, bæta landið, byggja upp búið og sjá afrakstur vinnu sinnar í góðum afurðum veitir mikla ánægju.

Okkur var vel tekið í minni gömlu heimasveit og eins og gjarnan verður þegar nýtt fólk flytur í sveitina vorum við fyrr en varði komin í ýmis félagsstörf.“

Fljótlega var Ingvar orðinn formaður Búnaðarsambands Húnaþings og Stranda og búnaðarþingsfulltrúi. Þá er hann formaður Félags kúabænda í Austur-Húnavatnssýslu og hefur sinnt fleiri trúnaðarstörfum fyrir bændur. Á vettvangi Bændasamtakanna stýrði hann vinnu við gerð umhverfisstefnu sem samþykkt var á Búnaðarþingi árið 2020.

„Ég er mikill áhugamaður um umhverfismál og hvernig við bændur getum lagt okkar af mörkum í umhverfis- og loftslagsmálum. Ég trúi því að það sé skylda okkar að ganga ekki þannig á auðlindir jarðar að það komi niður á möguleikum komandi kynslóða. Við höfum landið að láni og okkar verkefni er að skila því af okkur í betra ástandi en við tókum við því.“

Auk trúnaðarstarfa fyrir bændur hefur Ingvar verið tengdur íþrótta- og æskulýðsstarfi og situr í stjórnum fyrir ungmennafélög á svæðinu og er í stjórn Ungmennasambands Austur-Húnvetninga. „Þá hef ég komið að íþróttaþjálfun barna og unglinga og haft mikla ánægju af því.

Eitt mitt helsta áhugamál er veiði og útivist og árið 2021 bauðst okkur hjónunum spennandi tækifæri þegar við tókum á leigu Gljúfurá í Húnaþingi. Áin er lítil lax- og silungsveiðiá sem skilur Húnavatnssýslurnar að og seljum við í hana veiðileyfi og sjáum um veiðihús. Varð þetta til þess að ég tek flugustöngina oftar fram en áður og á margar ánægjustundir á árbakkanum.“

Fjölskylda

Eiginkona Ingvars er Elín Aradóttir, f. 19.5. 1973, framkvæmdastjóri og sveitarstjórnarfulltrúi. Foreldrar Elínar eru Ari Teitsson frá Brún í Reykjadal, f. 13.3. 1943, bóndi, ráðunautur og fyrrverandi formaður Bændasamtaka Íslands, og Elín Magnúsdóttir frá Birkihlíð í Reykholtsdal, f. 28.6. 1943, hússtjórnarkennari, bóndi og húsfreyja. Ari og Elín eru búsett á Hrísum í Reykjadal S-Þing.

Börn Ingvars og Elínar eru Aðalheiður, f. 2.1. 2006, nemi við Menntaskólann á Akureyri, Ari, f. 13.8. 2009, nemi í 8. bekk Húnaskóla, og Elín, f. 31.1. 2013, nemi í 4. bekk Húnaskóla.

Systkini Ingvars eru Magnús, f. 15.7. 1969, stjórnmálafræðingur, forstöðumaður Konfúsíusarstofnunarinnar Norðurljósa við Háskóla Íslands, búsettur í Reykjavík; Björn Huldar, f. 23.7. 1978, tölvunarfræðingur, rekur eigið hugbúnaðarfyrirtæki, búsettur í Kópavogi, og Ingibjörg Hanna. f. 24.11. 1984, náms- og starfsráðgjafi, búsett í Reykjavík.

Foreldrar Ingvars eru hjónin Björn Magnússon frá Hnausum í Þingi, f. 5.9. 1947, bóndi og fyrrverandi oddviti, og Aðalheiður Ingvarsdóttir frá Eyjólfsstöðum í Vatnsdal, f. 24.4. 1948, bóndi og húsfreyja. Björn og Aðalheiður eru búsett á Hólabaki í Þingi.