Lykilhlutverk Agla María Albertsdóttir er með frá byrjun í ár.
Lykilhlutverk Agla María Albertsdóttir er með frá byrjun í ár. — Ljósmynd/Kristinn Steinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Breiðablik missti af stóru titlinum á síðasta tímabili því liðið hafnaði í þriðja sæti Bestu deildarinnar og tapaði bikarúrslitaleiknum gegn Val. Niðurstaðan í deildinni varð til þess að liðið leikur ekki í Evrópukeppni í ár sem voru mikil vonbrigði …

Breiðablik missti af stóru titlinum á síðasta tímabili því liðið hafnaði í þriðja sæti Bestu deildarinnar og tapaði bikarúrslitaleiknum gegn Val.

Niðurstaðan í deildinni varð til þess að liðið leikur ekki í Evrópukeppni í ár sem voru mikil vonbrigði fyrir Kópavogsfélagið, í kjölfar þess að það komst í riðlakeppni Meistaradeildarinnar veturinn 2021-22.

Breiðablik missti báða miðverðina frá síðasta tímabili því Natasha Anasi fór til Brann í Noregi og Heiðdís Lillýjardóttir til Basel í Sviss. Karen María Sigurgeirsdóttir fór aftur til Þórs/KA, verður í láni þar í sumar, Anna Petryk fór heim til Úkraínu og Hildur Antonsdóttir fór síðsumars í fyrra til Fortuna Sittard í Hollandi.

Hafrún Rakel Halldórsdóttir missti af nær öllu síðasta tímabili en er með á ný sem hefur mikið að segja fyrir breiddina því landsliðskonan og vinstri bakvörðurinn Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir missir að vanda af fyrstu og síðustu leikjunum vegna náms í Harvard.

Toni Pressley, bandarískur varnarmaður með mikla reynslu af atvinnudeildinni vestanhafs, verður væntanlega í aðalhlutverki í hjarta Blikavarnarinnar. Elín Helena Karlsdóttir, sem var í láni í Keflavík, er þar við hlið hennar og þá hefur unglingalandsliðskonan Mikaela Nótt Pétursdóttir bæst í hópinn frá Val.

Hin bráðefnilega Andrea Rut Bjarnadóttir er komin frá Þrótti og styrkir miðjuna hjá Blikum en hún er komin með mikla reynslu í deildinni þrátt fyrir ungan aldur.

Þá er framherjinn reyndi Katrín Ásbjörnsdóttir komin frá Stjörnunni. Blika vantaði eiginlegan framherja á síðasta tímabili og ef Katrín hristir af sér meiðsli sem hún varð fyrir í vetur gæti hún breytt málunum talsvert í sóknarleik liðsins.

Birta Georgsdóttir lofaði góðu í fyrra og gæti reynst einn besti kantmaður deildarinnar.

Landsliðskonurnar Agla María Albertsdóttir, Ásta Eir Árnadóttir, Karitas Tómasdóttir og Telma Ívarsdóttir markvörður eru allar í stórum hlutverkum og í ár ætti að muna miklu fyrir liðið að Agla María er til staðar allt tímabilið en hún spilaði aðeins síðustu átta leikina í fyrra eftir að hafa leikið með Häcken í Svíþjóð.

Ásmundur Arnarsson er sitt annað ár með lið Breiðabliks. Þegar horft er yfir hópinn er ljóst að hann er með í höndunum lið sem gæti hæglega unnið bæði deild og bikar í ár ef allt gengur samkvæmt áætlun.