Kirkjufoss Vatnsfallið þornaði upp við myndun Ufsalónsvirkjunarinnar.
Kirkjufoss Vatnsfallið þornaði upp við myndun Ufsalónsvirkjunarinnar. — Ljósmynd/Christopher Lund
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það vildi þannig til að Ósk Vilhjálmsdóttir myndlistarmaður og mágkona mín var með skipulagðar ferðir á þetta svæði ásamt Ástu Arnardóttur og árið 2006 fór ég með í eina af síðustu ferðunum þeirra – skömmu áður en byrjað var að safna…

Höskuldur Ólafsson

hoskuldur@mbl.is

„Það vildi þannig til að Ósk Vilhjálmsdóttir myndlistarmaður og mágkona mín var með skipulagðar ferðir á þetta svæði ásamt Ástu Arnardóttur og árið 2006 fór ég með í eina af síðustu ferðunum þeirra – skömmu áður en byrjað var að safna vatni í Hálslón Kárahnjúkavirkjunar – og myndaði,“ segir Ólafur Sveinsson kvikmyndagerðarmaður um tilurð heimildarmyndarinnar Horfinn heimur sem frumsýnd verður í Bíó Paradís annað kvöld.

Sláandi breytingar

Horfinn heimur er að sögn Ólafs klassísk heimildarmynd.

„Þetta er ekki áróðursmynd eins og sú sem Andri Snær Magnason gerði [Draumalandið] því einkenni áróðursmynda er að þar er engum möguleika hleypt að fyrir fólk að taka upplýsta afstöðu en það er mikilvægt fyrir mig að öll sjónarmið komist að,“ segir Ólafur.

Í kynningartexta með myndinni segir að hún sé að mestu tekin í fimm daga gönguferð Ferðafélagsins Augnabliks síðsumars 2006 og svo 2007 þegar lónið var fyllt í fyrsta sinn og næstu vor og sumur á eftir, síðast árið 2021. Í þessum ferðum myndaði Ólafur þær sláandi breytingar sem urðu á hálendinu kringum Snæfell með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar. Í myndinni eru viðtöl við vísindamenn, sem voru með í för og héldu uppi harðri gagnrýni á virkjunina og byggingu hennar, en einnig við yfirverkfræðing Kárahnjúkavirkjunar og Smára Geirsson, fyrrverandi kennara, rithöfund og stjórnmálamann í Fjarðabyggð, sem fór fremstur í flokki þeirra sem börðust fyrir stóriðju á Austurlandi. Fram kemur í myndinni að Smári sé enn á því að virkjunin og álver Alcoa hafi verið mikið gæfuspor fyrir samfélagið á Mið-Austurlandi rétt eins og meirihluti íbúa þar.

Af hverju kemur myndin út núna?

Aðallega vegna þess að ég hef verið að skoða þetta í stærra samhengi, þ.e.a.s. varðandi áhrif vatnsfalla á lífríki í sjó. Það hefur verið rætt að virkjanir í Þjórsá geti verið skaðlegar fyrir Selvogsbankann sem er landgrunnið suðvestan við landið og er mikilvægasta hrygningaslóð nánast allra nytjafiska við Ísland svo ég ákvað að athuga þetta og hélt að það myndi taka mig mánuð að fara ofan í saumana á því máli en tók mig á endanum sjö ár.“

Vonast Ólafur til að afrakstur þeirrar vinnu verði bók og heimildarmynd og að Horfinn heimur sé eins konar upptaktur að þeirri útgáfu.“

Auk heimildarmyndarinnar verður stuttmyndin Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur, einnig eftir Ólaf, sýnd og margmiðlunarsýningu komið upp í anddyri Bíós Paradísar sem er gerð í samstarfi við Landvernd og náttúruverndasamtök á landsbyggðinni meðan á sýningu heimildarmyndanna stendur. Bíó Paradís er fimmti staðurinn þar sem hún er sett upp. Á hverjum stað bætast nýjar myndir við og eru nú vel yfir hundrað, auk þriggja stuttmynda sem Ólafur gerði sérstaklega fyrir hana.

Á sýningunni í Bíó Paradís verða níu stórar ljósmyndir (1,20 x 1,60 m) af áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar á hálendinu, bæði fyrir og eftir virkjun, auk nokkurra smærri mynda.