Samgöngur Flugfargjöld hækka með nýrri gjaldtöku stjórnvalda.
Samgöngur Flugfargjöld hækka með nýrri gjaldtöku stjórnvalda. — Morgunblaðið/Eggert
Alþjóðasamband flugfélaga (IATA) gerir athugasemd við fyrirhuguð áform stjórnvalda um álagningu svokallaðs varaflugvallargjalds sem leggst á alla komu- og brottfararfarþega í innanlands- og millilandaflugi

Alþjóðasamband flugfélaga (IATA) gerir athugasemd við fyrirhuguð áform stjórnvalda um álagningu svokallaðs varaflugvallargjalds sem leggst á alla komu- og brottfararfarþega í innanlands- og millilandaflugi. Talið er að gjaldið geti skilað ríkissjóði allt að einum og hálfum milljarði króna á ári.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviða­ráðherra hefur lagt fram frumvarp um upptöku gjaldsins. Áform eru um að leggja 200 krónur á hvert fargjald til viðbótar við önnur gjöld sem farþegum er nú þegar gert að greiða. IATA telur að gjaldtakan muni hafa veruleg áhrif á flugfélög þegar ferðalög eru að komast í eðlilegt horf á ný og félögin eru að ná vopnum sínum á ný.

IATA segir takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir um hið nýja gjald en því sé ætlað að fjármagna uppbyggingu flugvalla á landsbyggðinni. Samgöngur milli landshluta séu mikilvægar en uppbygging mikilvægra innviða á borð við flugvelli sé á ábyrgð hins opinbera. Færa þurfi sterkari rök til að réttlæta álagningu gjaldsins.

IATA bendir á að þegar flugvellir hafi verið byggðir á annað borð hafi notendur þeirra þegar greitt fyrir þá. Út frá lagalegu sjónarmiði sé erfitt að réttlæta það að flugfélög og farþegar þeirra fjármagni eða niðurgreiði rekstur flugvallanna. Íslenskt efnahagslíf hafi ríka hagsmuni af því að samgöngur við landið séu tíðar og ferðaþjónustan blómstri. Samtökin hvetja stjórnvöld til að endurskoða þessi áform. Gjaldtakan íþyngi flugélögum mismikið og geti raskað samkeppnisstöðu þeirra. Gjöld sem þessi séu óalgeng í Evrópu og þekkist vart á Norðurlöndum. hordur@mbl.is