Sævar Jónsson fæddist 28. mars 1950. Hann lést 7. apríl 2023.

Útför hans var gerð 24. apríl 2023.

Í dag kveð ég föður minn sem var svo stór hluti af lífi mínu enda var tengingin á milli okkar sterk og mikil.

Ég á ótal margar góðar minningar um þig pabbi minn. Mér er mjög minnisstætt þegar við fórum til Spánar sumarið '82 þegar HM var haldið þar. Þá fékk ég að fara á fyrsta alvöru fótboltaleikinn minn þegar við fórum á leik Skotlands og Sovétríkjanna sálugu í Malaga. Ég fékk fótboltaáhugann þarna beint í æð sem hefur fylgt mér alla tíð síðan. Að halda með Liverpool fékk ég frá þér í vöggugjöf og eftir að við fluttum í Garðabæinn urðum við öll fjölskyldan mikið Stjörnufólk. Evrópuárið '14 hjá Stjörnunni er djúpt í minningunni. Ég ætlaði ekki til Mílanó að sjá Stjörnuna spila við Inter en þú tókst það ekki í mál og bauðst mér með og með krókaleiðum og hjálp Adda bróður fundum við flug.

Þú varst höfuð fjölskyldunnar, algjör klettur og elskaðir hana út af lífinu, vinmargur, með ríka réttlætiskennd, ákveðinn og mikil félagsvera. Í dag eru nokkrir vinir þínir líka vinir mínir og einnig vingaðist þú við marga vini mína. Mér þykir vænt um það og þannig mun minning þín lifa meira með mér.

Þú fylgdir okkur bræðrum í fótboltanum. Ég á líka ljúfsárar minningar um að naglhreinsa í Stjörnuheimilinu og bera út Sjónvarpsvísinn. Hæðarbyggðin var oft eins og félagsmiðstöð enda lékum við okkur þar í kjallaranum í handbolta, borðtennis og snóker. Þú byggðir Hæðarbyggðina ungur maður og þar bjugguð þið mamma alla tíð fram að slysinu en þar ætlaðir þú að búa alla ævi en við ráðum víst ekki örlögum okkar. Þú vannst alla þína tíð hjá Loftorku þar sem þér leið vel og elskaðir starfið þitt. Á þessum langa starfsferli eignaðist þú líka góða vini hjá Loftorku. Þegar ég var lítill gutti fór ég stundum með þér á skrifstofuna í Skipholtinu og þar var oft Sigurður heitinn forstjóri Loftorku. Samband ykkar var einstakt og farsælt alla tíð. Ég vann svo síðar á sumrin og með skóla hjá Loftorku og kynntist þar fyrirtækinu vel og fór þá að heyra ennþá meira „Sævar í Loftorku“ en það varstu kallaður og í seinni tíð þegar ég hef hitt fólk sem hefur spurt mig hverra manna ég væri þá hefur oft verið nóg að segja að ég sé sonur Sævars í Loftorku.

Þú fylgdist alltaf mjög vel með því sem ég var að gera og sýndir því áhuga. Studdir mig ávallt, veittir mér góð ráð og hjálpaðir mér endalaust, sérstaklega í gegnum mín veikindi. Við vorum mjög nánir alla tíð og ég leit mikið upp til þín.

Þú áttir 65 mjög góð ár en eftir hið hörmulega slys fyrir rúmum sjö árum breyttist allt. Vonin um að þú kæmir til baka var sterk hjá mér til að byrja með en skaðinn var það mikill að sú von dvínaði með tímanum og hvarf síðan nær alveg. Ég veit að þetta var erfitt fyrir þig, að geta ekki séð um þig sjálfur, enda hafðir þú sjálfur sagt að á hjúkrunarheimili færir þú aldrei. Ég er viss um að þú sért kominn á betri stað og við munum hittast síðar.

Elsku pabbi minn.

Takk fyrir að vera alltaf til staðar fyrir mig.

Takk fyrir að gefast aldrei upp á mér.

Takk fyrir að vera besti vinur minn.

Meira á www.mbl.is/andlat

Þinn sonur,

Jón Gunnar.

Elsku pabbi. Þau voru þung skrefin sem við fjölskyldan tókum af gjörgæslu Landspítalans í lok janúar 2016. Alla þína baráttu þar trúði ég að þú kæmir aftur til okkar. „Hann Sævar Jónsson kjaftar sig út úr þessu,“ sagði ein góð vinkona mín og það átti svo vel við.

Vikurnar þar á eftir voru erfiðar og mikill tími til að hugsa. Hugsa um rétt rúmlega 30 ár. En pabbi, þetta voru bara 30 ár sem okkur voru gefin saman. Stundum er erfitt að skilja þetta líf og tilgang þess. Hvað þá að reyna að útskýra fyrir ungum saklausum afabörnum sem héldu að plástur á ennið myndi laga höfuðhögg elsku afa.

Þú hefur alla tíð verið minn klettur og það er erfitt að kyngja því að pabbi minn, þessi stóri sterki maður sem sigrað hefur krabbamein, sé tekinn frá okkur af slysförum.

Ég minnist þess sterkt þegar ég var sirka sjö ára og naut þess að fara með þér í göngu eftir kvöldmat. Þú gekkst rösklega og ég hljóp stórum skrefum til að halda í við þig. Göngutúr sem þú notaðir til að losa streitu eftir langan vinnudag en fyrir mig þá var það samveran með þér, bara við tvö, og oftar en ekki stoppuðum við í Spesíunni og keyptum okkur smá lakkrís sem við pössuðum að klára á leiðinni heim svo mamma myndi ekki fatta neitt.

Eitt af því sem þú hafðir svo gaman af var að lesa yfir ritgerðarskrif hjá okkur systkinunum og alltaf fékk ég þig til að lesa yfir það sem ég sendi frá mér sem einhverju máli skipti.

Aldrei breyttir þú neinu nema stöku sinnum stafsetningarvillum sem við vorum þó ekki alltaf sammála um. Á síðastliðnum árum hef ég oft horft á símann minn alveg viðbúin að hringja í þig og fá að senda á þig grein til yfirlestrar eða lesa hana upp fyrir þig og fá þitt álit. Það venst kannski aldrei.

Oft pirraði ég mig á því hversu langan tíma þú gast talað um eitthvað sem nokkrar setningar hefðu getað afgreitt. Þessi samtöl eru núna það dýrmætasta sem ég veit um og ég þrái það svo heitt að þú truflir mig með símtali og spurningum sem engu máli skipta og talir við mig alltof lengi. Við áttum okkar síðustu samræður í síma þennan örlagaríka þorrablótsdag. Ég kvaddi þig með þeim orðum að ég elskaði þig. Þú spurðir mig aðeins út í skíðaferðina sem ég var á leið í tveim dögum síðar og kvaddir mig svo með þessum orðum: „Góða ferð og góða skemmtun, en farðu nú varlega elskan mín, það er ekki allt keppni.“

Það var svo dásamleg tilfinning að upplifa þig sem afa. Þú hafðir svo gaman af því að vera í kringum barnabörnin þín og þau sáu ekki sólina fyrir þér. Ég held m.a.s. að þú hafir haft meira gaman af þeim en þínum eigin börnum. Það er erfitt að hugsa til þess að Eva hafi ekki fengið meiri tíma með þér en minningunum og sögunum deilum við reglulega með henni. „Enginn veit sína ævi fyrr en öll er.“

Það sem ég hef lært á þessum erfiðu sjö árum er að lífið er dýrmætt og það sem var er eitthvað sem ég fæ ekki breytt og það sem verður er meiri tími og fleiri tækifæri til að lifa.

Ég er þakklát fyrir okkar tíma og allt sem var og er og verður.

Þangað til við hittumst næst -

Ég elska þig pabbi.

Jóhanna Sævarsdóttir. Meira á www.mbl.is/andlat

Ég kynntist Sævari Jónssyni í sjö ára bekk í Breiðagerðisskóla. Við vorum í sama bekk í Réttarholtsskóla og síðar í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Á þessum árum varð til vinátta sem entist út lífið. Sævar var skemmtilegur, sá alltaf skoplegar hliðar lífsins, sýndi með sérstöku brosi og sagði skemmtilega frá. Hann var einstaklega ráðagóður og lausnamiðaður og mjög hjálplegur þegar eftir því var leitað. Hann átti auðvelt með að umgangast og ræða við menn, sama hver átti í hlut.

Sævar var sá eini í hópnum sem átti bíl á menntaskólaárunum og var varkár og góður ökumaður og skipti engu máli hvar ekið var, í bænum eða yfir Krossá. Ein ferð er sérstaklega eftirminnileg á útihátíð um verslunarmannahelgi. Bílinn hans var bilaður og fékk hann Trabant að láni hjá vinnufélaga. Hann var fylltur af farangri fyrir útileguna og lagt af stað seint á föstudegi. Á leiðinni varð fyrir nokkuð mikil brekka og þegar ekið hafði verið upp hana um stund segir Sævi „strákar, það eru engin ljós á bílnum“. Ljósin voru í lagi, en bíllinn var afturhlaðinn af farangri og farþegum þannig að ljósin lýstu upp í himinblámann. Í miðri brekkunni hægðist mjög á bílnum og þá kallaði Sævi „allir út að ýta“. Þegar komið var á áfangastað í niðamyrkri leist Sæva ekkert á tjaldstæðin og keyrði áfram þangað til bíllinn hvarf ofan í djúpa dæld. Okkur hinum leist ekkert á blikuna, en Sævi sagði „við tjöldum hér“. Um morguninn sáum við að tjaldið var á milli aðsetra stjórnenda hátíðarinnar. Þegar til brottfarar kom sótti Sævi nokkra vini sem hann hafði kynnst á staðnum um helgina og lyftu þeir Trabantinum léttilega upp úr dældinni.

Konur okkar eru æskuvinkonur og í gegnum árin umgengumst við fjölskyldu Sæva mikið, ferðuðumst saman innanlands sem erlendis og áttum margar eftirminnilegar ánægjustundir. Sævar slasaðist alvarlega fyrir sjö árum og hvarf þá vinum og ættingjum og var sárlega saknað.

Sævari líkaði vel við ósnortna náttúru í Garðahrauni og var talsmaður þess að lagðir yrðu göngustígar um hraunið. Honum var það sérstakt ánægjuefni þegar ákveðið var að slíkur stígur yrði lagður yfir Garðahraunið milli Miðhrauns og Flata. Sævar stjórnaði lagningu stígsins sem liggur í hrauninu og fylgir öllum hæðum og hólum. Hann hefur verið nefndur Sævastígur af kunningjum hans.

Þegar gengið er um Sævastíg fylla minningar hugann þar sem hann skokkar eða gengur hratt, léttur í bragði, heilsar öllum og ræðir stuttlega við flesta sem hann mætir. Annaðhvort er hann á leiðinni heim eða til einhverra af þeim fjölmörgu vinum sem hann átti í Garðabænum, til að eiga við þá stutt spjall eða þiggja smá hressingu.

Þannig er myndin í minningunni af þeim góða dreng sem nú er kvaddur og alltaf var til staðar fyrir vini sína. Við Helga sendum Maríu, Jóni Gunnari, Ásmundi, Atla og Jóhönnu okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Rósmundur Guðnason.

Leiðir okkar Sævars lágu fyrst saman í fyrsta bekk Réttarholtsskóla og fljótt tókst með okkur góð vinátta sem hélst fram á þennan dag. Ýmislegt var brallað á árunum áður en við festum ráð okkar ásamt nánum félögum þeim Sidda, Rósa, Stebba og Jóni Gunnari. Það var oft kátt á hjalla hjá okkur félögunum þegar við hituðum upp fyrir Glaumbæ og oftar en ekki hittumst við í kjallaranum hjá mér í Skógargerði. Einnig gripum við í spil í Ásgarðinum heima hjá Sævari og oft fylgdist Jón með spilamennsku sonarins og veitti honum góð ráð, sem ekki voru alltaf jafnvel þegin, en Jón hafði mjög gaman af að spila bridge. Sævar var fyrstur okkar til að eignast bíl, gamlan Willys-jeppa sem kom sér vel í ferðalögum sem við fórum í. Eftir Willys-bílinn kom Citroën en svo eingöngu Range Rover-bílar sem hann hélt sig við. Minnisstæðar eru ferðir um verslunarmannahelgina í Þórsmörk og Húsafell og svo réttarferðir í Miðfjörðinn að heimsækja frænda Sævars, Jón á Ósi, og hjálpa til við fjárrekstur. Seinna fórum við einnig saman í göngur á Arnarvatnsheiðina. Svo tók alvaran við og við félagarnir giftum okkur einn af öðrum og stofnuðum fjölskyldur.

Það var mikið gæfuspor þegar Sævar kynntist Maju sinni sem var hans stoð og stytta út ævina. Fljótlega byggðu þau sér framtíðarheimili í Hæðarbyggð, af miklum myndarbrag, þar sem fjölskyldan undi hag sínum vel. Það varð strax mikil vinátta og samgangur á milli fjölskyldna okkar og reglulega mætt í barnaafmæli, útskriftarveislur og aðra fjölskyldufagnaði auk þess sem börnin gistu á víxl þegar á þurfti að halda. Einnig eru ferðir í sumarbústaði minnisstæðar.

Þegar við Eyrún fórum til náms í Danmörku minnkaði samgangurinn um tíma en við tókum aftur upp þráðinn þegar heim kom. Það einkenndi Sævar hve duglegur hann var við að gefa sig á tal við allar kynslóðir innan fjölskyldunnar, líka þá elstu í hópnum, til að fylgjast með lífi þeirra og líðan og átti þetta m.a. við um móðurömmu mína, tengdamóður og foreldra. Þeim þótti öllum mjög gaman að hitta Sævar og ræða við hann enda hann einstaklega hress og glaðlegur í viðmóti og aldrei nein lognmolla í kringum hann.

Sævar var mikill fjölskyldumaður og hafði mikinn metnað fyrir hönd barna sinna og sem mikill fótboltaáhugamaður fylgdist hann vel með fótboltaiðkun strákanna sinna. Hann var mikill Stjörnumaður og lagði sitt af mörkum við uppbyggingu félagsins. Hann var jafnframt dyggur stuðningsmaður Liverpool.

Það var gríðarlegt áfall fyrir alla þegar Sævar slasaðist. Ferðirnar á hjúkrunarheimilið Ísafold, þar sem Sævar dvaldist síðustu sjö árin, voru erfiðar framan af en urðu smátt og smátt auðveldari. Eftir áramótin fór að halla undan fæti hjá Sævari og ljóst hvert stefndi. Nú hefur hann fengið hvíldina. Í dag kveð ég minn kærasta vin en missir ykkar, Maja, Jón Gunnar, Addi, Atli, Jóhanna og fjölskyldur, er mikill enda kemur enginn í staðinn fyrir Sævar.

Við Eyrún, Gísli, Snorri og Guðrún sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur. Hugur okkar er hjá ykkur í sorginni.

Sturla R. Guðmundsson.

Það eru mikil forréttindi að fá að umgangast gott og traust fólk til langs tíma. Sævar Jónsson var í þeim hópi. Hann var traustur og gegnheill vinur, vinur sem gott var að leita til og uppbyggilegt að eiga samleið með.

Við fylgdumst að stóran hluta af okkar æviskeiði. Þannig vorum við samferða alla okkar skólagöngu; byrjuðum í Breiðagerðisskóla, síðan Réttarholtsskóla; vorum í fyrsta árgangi MH og lukum svo viðskiptafræðinámi frá HÍ.

Fyrir utan ýmis bernskubrek eru mér ógleymanlegar allar gönguferðirnar með Sævari eftir þjóðbraut hins gangandi manns í Smáíbúðahverfinu, hitaveitustokknum. Stokkurinn hentaði einkar vel á góðviðrisdögum, þegar haldið var heim úr MH.

Mér er það mjög minnisstætt, þegar við vorum á síðasta ári í viðskiptafræðinni 1975, að Sævar Kristján Þorsteinsson hringdi í mig og sagðist vita af tveimur lausum lóðum fyrir hús í Garðabæ. Við ákváðum strax að láta til skarar skríða. Þannig var bjartsýni og útsjónarsemi Sævari í blóð borin. Drifið var í að fá teikningar af tveimur nánast eins húsum. Með náminu síðasta veturinn smíðuðum við alla gluggana í bæði húsin.

Við hófum svo byggingu einbýlishúsa við Hæðarbyggð 2 og 4, í Garðabæ í júní 1976, um það leyti sem við lukum námi í viðskiptafræðinni. Við höfðum mjög gaman af þessu og vorum einstaklega samtaka. Öllum kostnaði við byggingu húsanna var skipt til helminga, allt þar til kom að smekksatriðum. Aldrei bar skugga á samstarf okkar í þessum efnum þó oft væri þetta erfitt og auraráð takmörkuð. Bjartsýni og óbilandi trú á að við gætum klárað verkefnið var drifkrafturinn. Það hjálpaði mikið til að Sævar hafði víða góð tengsl þegar kom að verklegum framkvæmdum. Sævar var þá þegar mjög vel kynntur á því sviði. Hann starfaði í áratugi hjá Loftorku, lengst af sem framkvæmdastjóri félagsins.

Samheldni og tryggð milli okkar og fjölskyldna okkar var slík að við Sævar vorum oft nefndir síamstvíburarnir í Hæðarbyggð. Ekki nóg með að við byggðum eins hús heldur áttum við oft eins bíla.

Við vorum nágrannar í Hæðarbyggðinni í tæpa þrjá áratugi og voru heimili okkar mjög nátengd.

Á milli húsa okkar var malbikað plan sem Sævar beitti sér fyrir að láta gera. Þetta plan þjónaði oft sem leik- og íþróttavöllur fyrir börnin í hverfinu. Einnig var það vettvangur fyrir ýmsa skemmtilega viðburði, svo sem á gamlárskvöld. Það var margt brasað og við alltaf jafn samstíga.

Ógleymanlegar eru þær stundir þegar við fórum á sjóinn á Snúði, bátnum okkar sem við keyptum saman nokkrir félagar 1980. Okkur Sævari fannst fátt jafnast á við þá hvíld frá daglegu amstri sem var í því fólgin að fara til veiða í góðu veðri og lygnum sjó á innanverðum Faxaflóa. Í lok hverrar veiðiferðar var gert að aflanum á planinu milli húsanna.

Sævar var alltaf boðinn og búinn til að takast á við hin ýmsu verkefni, einkum ef þau voru á verklega sviðinu. Þannig vann hann mikið og ósérhlíft starf að félagsmálum í Garðabæ, einkum fyrir Stjörnuna og um tíma sem félagi í Rótarýklúbbnum Görðum.

Ég kveð góðan vin með söknuði um leið og ég votta Maju og fjölskyldu innilega samúð mína.

Kristján Þorsteinsson.

Mannsævin er undarlegt fyrirbrigði. Frá vöggu til grafar gerist æði margt í lífi einstaklinga. Eitt þrep í þroskaferlinu tekur við af öðru. Sum skeiðin öðrum sterkari. Þannig má segja að unglingsárin séu æði sterk mótunarár. Þetta þekkjum við frá skólaárum. Við komum saman úr ólíkum áttum, ólíkir einstaklingar, en förum sem hópur í gegnum fjögur viðburðarík menntaskólaár. Sá tími æskunnar þar sem við breytumst úr barni í fullorðna manneskju - eins og púpa sem skríður úr híði sínu og flýgur út í heiminn stóra. Þessi sameiginlega lífsreynsla virðist hafa ofið einhvern ósýnilegan en sterkan streng. Meira en hálfri öld síðar, mörkuð af aldri og reynslu, finnum við enn fyrir hinum sterka þræði vináttunnar. Skólafélagar og ekki síst bekkjarfélagar sem enn hittast eins og ástkær systkin. Þannig er m.a. um okkur N-bekkinga úr víðfrægum fyrsta árgangi í MH. Á langri vegferð frá stúdentsprófi höfum við fundið fyrir hinni sterku samkennd - ekki endilega daglega eða mánaðarlega en í hvert sinn eins og síðasti hittingur hafi verið í gær.

Nú hefur skuggi fallið á. Hann Sævi okkar, Sævar Jónsson, er fallinn frá. Við skynjum samkenndina sem aldrei fyrr. Póstar hafa gengið á milli gömlu bekkjarfélaganna þar sem harmurinn þjappar hópnum enn frekar saman. Við uxum saman sem ungmenni og við kveðjum vin okkar sem góðan vin. Við fráfall leitar hugur oft til fortíðar. Þar rifjast upp augnablik og myndir þar sem hann Sævi er hrókur alls fagnaðar, opinskár, hlýr og skemmtilegur. Einhvern veginn sér bréfritari hann bara fyrir sér með sitt fallega bros og innilega. Hann skilur eftir sig skæra mynd í safni minninganna.

Við úr N-bekknum syrgjum fráfall Sævars Jónssonar. Við minnumst hans sem eins af okkar góðu félögum. Mæju og fjölskyldunni allri sendum við okkar bestu kveðjur.

F.h. N-bekkjar MH 1970,

Hjálmar Waag Árnason.

Sævar var mér mikilvægur maður. Hann var góður faðir og einstakur vinur fyrir vini barna sinna. Ég reyndi það og þakka það af bljúgum hug.

Sævar og Mæja eignuðust fjögur börn, þrjá drengi og í lokin stúlkuna langþráðu. Það kom til eftir að Sævar las í grein í sænsku blaði að ef geta ætti stúlkubarn „þá skyldu áreynendur vera í sokkum!“ eins og hann sagði svo skemmtilega frá í brúðkaupi Jóhönnu og Jónasar áður en hann veiktist.

Sævar var af gamla skólanum. Hann elskaði að láta dekra við sig og Mæja á svo sannarlega skilið verðlaun fyrir það heimili sem hún hélt fyrir fjölskylduna og alla heimalningana. Sævar elskaði að sama skapi að dekra við fólkið sitt á sinn hátt. Hann bar í brjósti einlæga von um farsæld þeirra og lífshamingju. Við Jóhanna smullum saman á leikskólanum Kirkjubóli. Það var einhvers konar ást við fyrstu sýn. Við urðum systur og höfum verið það alla tíð.

Við erum mörg sem lítum þakklátum augum til Hæðarbyggðar 2. Heimili Sævars og Mæju varð mörgum athvarf um lengri eða skemmri tíma. Það var mitt annað heimili og heiðurshjónin voru ávallt glaðhlýir gestgjafar. Þvílíka hamingju tengdi ég við það að geta gengið inn um dyrnar og það eina sem tók á móti mér var gleði, hlýja og diskur á matarborðinu. Þessar stundir eru fagrir geislar í litrófi minninga minna.

Í augum Sævars var alltaf glampi sem ég eignaði mér, því ég vissi að honum þótti vænt um mig og var stoltur af hverju framfaraskrefi á minni ævileið. Við tókumst þó oft á því Sævar elskaði að rökræða. Oft fór ég fram í krafti ríkrar réttlætiskenndar og gagnrýndi þann ríkulega skerf sem knattspyrnudeild Stjörnunnar fékk af kökunni án þess að fimleikadeildin fengið nokkuð að smakka á henni. Hann stóð á sínu og ég á mínu – stál í stál. Og hann elskaði mig fyrir það og ég hann líka.

Eitt sinn settum við Jóhanna stefnuna á unglingamót um verslunarmannahelgi en foreldrar okkar voru ekki hrifnir af þeirri hugmynd. Sævar brá þá á það ráð að setja upp stærstu og flottustu tjaldútilegu sem sést hefur í heimaskógi. Risatjald þar sem gólfið var þakið rúmdýnum og koddum á meðan í loftinu tindruðu þúsundir ljósasería. Hljómflutningsgræjum var komið fyrir, sjónvarpi og VHS-tæki, og þarna fjölmenntu unglingar í Garðabæ í heimsins bestu útihátíð. Nokkrir kossar og hlý faðmlög fengu að fæðast undir tónum Fugees og Brandy í öruggu rými á öruggum stað. Æðislegur morgunmatur, heitur hádegismatur frá elsku Mæju var í boði alla dag og svo pítsa beint úr kassanum öll kvöld ásamt einni nýrri og einni gamalli spólu úr Bónusvídeó.

Ég gæti sagt svo margt fleira sem því miður rúmast ekki í einni minningargrein. Æskan mín er öll samofin því sómafólki sem Mæja og Sævar eru. Það var mér mikil blessun að eiga Sævar að og hafa fengið að reyna allt hið góða sem streymdi frá hjarta hans. Minning hans er mæt og merk en er öðru fremur björt og fallegt ljós sem mun lýsa alla mína daga. Hjartans þakkir fyrir æsku mína og gæsku þína, elsku bónuspabbi minn.

Katrín Eyjólfsdóttir.

Það var á nýársnótt 1973 þegar ég hitti Sævar fyrst. Mæja og Sævar voru með samkvæmi fyrir saumaklúbbinn hennar Mæju heima hjá þeim á Meistaravöllunum. Stelpan sem ég hafði áhuga fyrir að kynnast betur er í saumaklúbbnum og tók mig með í samkvæmið. Þarna hófst dýrmæt vinátta við Sævar og Mæju. Margt hefur verið brallað í gegnum tíðina. Það var ætíð notalegt að koma í kaffi í Hæðarbyggðina en á þeim tíma gat maður bankað upp á hvenær sem var án þess að gera boð á undan sér. Það var tekið vel á móti okkur, Mæja hellti upp á kaffi og Sævar bauð í stofu og strax byrjað að spjalla. Sævar bjó yfir þeim eiginleika að geta hafið samræður sem gerði vinafund skemmtilegan enda hafði hann áhuga á mörgum þáttum þjóðlífsins og kímnin skammt undan. Hann var hress og góður vinur vina sinna. Sævar var afar bóngóður og viljugur og alltaf tilbúinn til þess að taka til hendinni. Hann sinnti íþróttaáhuga strákanna sinna vel en fótboltinn var þeirra heimur. Stjarnan átti stóran hluta hjarta hans og hann vann ætíð mikið og gott starf fyrir Stjörnuna og Liverpool var aldrei langt undan. Það var gott að vera með Sævari.

Stóri vinningur Sævars var þegar hann hitti Mæju. Það er vandfundin trygglyndari og yndislegri manneskja en Mæja. Gæðin hennar eru algjör enda var hún stoð hans og stytta. Það var skýr verkaskipting á heimilinu eins og hjá mörgum af okkar kynslóð. Hún stjórnaði heimilinu og hann stjórnaði útimálunum.

Það voru vondar fréttir þegar Sævar slasaðist. Við vonuðumst öll til þess að hann fengi bata en batinn lét á sér standa. Mæja hefur sýnt ótrúlegt þrek og þolinmæði þessi ár sem Sævar hefur glímt við afleiðingar slyssins. Það kemur ekki á óvart þeim sem þekkja Mæju hvað hún hefur verið sterk og ástrík.

Þegar kemur að leiðarlokum á góðum vinskap rifjast upp margar dýrmætar minningar, ferðalögin saman, dvöl þeirra Mæju hjá okkur Þórhildi í London, dvöl okkar í Kofanum, göngutúrarnir, samkvæmin og leikur með börnunum. Góðs vinar er sárt saknað.

Það er erfitt að kveðja góða vini. Ég þakka Sævari fyrir ævilanga vináttu. Hugur okkar Þórhildar er hjá Mæju og fjölskyldu. Við biðjum guð að styðja þau öll í sorginni.

Eggert Ágúst Sverrisson.

Það var haustið 1981 að við fjölskyldan fluttum í Garðabæ eftir að hafa búið nokkur ár í Eyjum. Hinum megin við götuna bjó fjölskylda sem við áttum eftir að tengjast sterkum böndum, það voru þau Sævar og Mæja ásamt fjórum börnum þeirra. Addi, sonur þeirra, og sonur okkar urðu fljótlega bestu vinir og urðu heimagangar á heimilum hvor annars. Betri nágranna var ekki hægt að óska sér og með árunum varð til vinátta sem haldist hefur alla tíð og aldrei borið skugga á. Sævar var einstakur vinur, alltaf til í að rétta fram hjálparhönd og vinátta hans var okkur ómetanleg.

Við höfum í raun vitað að hverju stefndi, en einhvern veginn er maður aldrei búinn undir dauðann, hann er svo endanlegur. Minningabrotin streyma fram, Sævar í fótbolta úti í garði með sínum strákum og vinum þeirra, allt stússið í kringum Stjörnuna, bæði vinnu- og skemmtanatengt, getraunaleikir fyrir Stjörnuna, meistaraflokksráð kvenna sem í voru öflugar og skemmtilegar konur og var Sævar þar góður liðsmaður, Liverpoolferðir, þorrablótin, herrakvöldin, veiðiferðir og alls konar ferðir og partí. Allt eru þetta góðar minningar sem gleymast ekki. Sævar og Jón Ásgeir voru búnir að skipuleggja ferð á EM í Frakklandi, en því miður varð ekki af því vegna slyss sem Sævar lenti í og náði ekki heilsu eftir það.

Þessi góði vinur og félagi er nú horfinn á braut og við fjölskyldan þökkum vináttu og samfylgd og vonum að hollvættir vaki yfir öllu hans fólki. Blessuð sé minning Sævars Jónssonar.

Margrét (Magga) og Jón Ásgeir.

Hinn góði drengur og vinur minn Sævar Jónsson er fallinn frá. Ég kynntist honum þegar ég var á unga aldri og íþróttaiðkandi í Stjörnunni en þá var Sævar í forystusveit félagsins og átti m.a. um árabil sæti í aðalstjórn.

Sævar var oft kenndur við fyrirtækið Loftorku þar sem hann starfaði sem framkvæmdastjóri og var það Stjörnunni mikilsvert að hafa aðgang að manni sem hafði jafn mikla þekkingu á framkvæmdum og hann hafði, enda var oft til hans leitað. Hann var á sínum tíma í byggingarnefnd Stjörnuheimilisins sem kunnugir segja að hafa verið starfsamasta nefnd sem nokkru sinni hefur starfað innan félagsins – nefnd sem dreif Stjörnuheimilið upp á skömmum tíma og skilaði því skuldlausu til félagsins. Þegar svo Stjörnunni var treyst fyrir því af hálfu Garðabæjar að reka knattspyrnuvellina í bænum var það ekki síst því að þakka að traustir menn völdust í vallarstjórn sem stýrðu því verkefni af ábyrgð og samviskusemi. Þar var Sævar auðvitað í fararbroddi. Þegar svo kom að byggingu stúkumannvirkisins við aðalvöllinn var Sævar einn af þeim sem stóðu að verkinu fyrir hönd félagsins. Um árabil var hann í þorrablótsnefnd Stjörnunnar og kom bæði beint og óbeint að mörgum öðrum verkefnum sem fjölmennt íþrótta- og æskulýðsfélag eins og Stjarnan þarf að sinna.

Sævar var meðal þeirra félaga sem hittust á laugardagsmorgnum til þess að taka þátt í getraunum og spjalla um málefni félagsins síns. Þessi hópur fór stundum til Englands að horfa á leiki og í slíkum ferðum kynntist ég þessum heiðursmanni enn betur. Synir Sævars hafa allir verið virkir sjálfboðaliðar og stuðningsmenn Stjörnunnar og þannig fetað í fótspor föður síns.

Ungmennafélagið Stjarnan þakkar Sævari trausta og góða samfylgd og þakkar honum fyrir mikið, fórnfúst og ómetanlegt starf fyrir félagið um leið og félagið sendir aðstandendum hans, Maju, Jóni Gunnari, Adda, Atla og Jóhönnu, innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning um góðan dreng.

Sigurður Guðmundsson, formaður Stjörnunnar.