Á flótta Hermaður aðstoðar hér barn við að flýja frá Súdan.
Á flótta Hermaður aðstoðar hér barn við að flýja frá Súdan. — AFP/Khalil Mazraawi
Erlend ríki héldu áfram tilraunum sínum í gær til þess að forða ríkisborgurum sínum undan átökunum í Súdan, sem nú hafa staðið yfir í tíu daga. Rúmlega 420 manns hafa fallið í átökunum og um 4.000 til viðbótar særst samkvæmt áætlunum Sameinuðu…

Erlend ríki héldu áfram tilraunum sínum í gær til þess að forða ríkisborgurum sínum undan átökunum í Súdan, sem nú hafa staðið yfir í tíu daga. Rúmlega 420 manns hafa fallið í átökunum og um 4.000 til viðbótar særst samkvæmt áætlunum Sameinuðu þjóðanna, sem hjálpuðu til við brottflutning erlendra ríkisborgara frá höfuðborginni Kartúm í gær.

Bandarískar sérsveitir forðuðu um 100 sendiráðsstarfsmönnum og fjölskyldum þeirra frá Kartúm í gær, en þær komu á þyrlum frá bækistöð bandaríska flotans í Djibouti. Þá munu leyniþjónustumenn vera að störfum í Súdan við að tryggja brottflutning annarra Bandaríkjamanna.

Breskar hersveitir forðuðu sendiráðsstarfsmönnum sínum á sunnudaginn, og voru breskir hermenn í Súdan í gær til að kanna möguleikann á að forða öðrum Bretum frá landinu, en áætlað er að þeir séu um 4.000 talsins. Frakkar greindu frá því í gær að þeir hefðu náð að senda tvær flugvélar með um 200 manns frá Súdan, og voru þar ríkisborgarar ýmissa annarra ríkja, þar á meðal Bretlands og Þýskalands.

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, varaði við því í gær að átökin í Súdan gætu breiðst út til annarra ríkja í heimshlutanum, og hvatti til þess að stríðandi fylkingar myndu gera með sér vopnahlé sem fyrst.