Damian Kristinn Sindrason fæddist 3. mars 2003 í Reykjavík. Hann ólst upp og bjó á Eskifirði. Hann lést erlendis 7. apríl 2023.

Foreldrar hans eru hjónin Małgorzata Beata Libera, fædd 9. nóvember 1975, fulltrúi hjá Afli - Starfsgreinafélagi, og Sindri Svavarsson, vélvirki hjá Alcoa Fjarðaáli, fæddur 14. maí 1975. Systir Damians Kristins er Lilja Nína Libera Sindradóttir, fædd 4. júní 2014. Foreldrar Malgorzata voru Danuta Libera, fædd 1. febrúar 1951, látin 3. október 2022 og Waldemar Libera, fæddur 14. nóvember 1951. Foreldrar Sindra voru Hildur Metúsalemsdóttir, fædd 2. janúar 1946, látin 22. febrúar 2011 og Svavar Kristinsson, fæddur 14. nóvember 1944.

Móðursystur Damians Kristins eru: 1) Dorota Libera-Stasik, fædd 6. febrúar 1973, gift Marek Stasik og eiga þau þrjú börn. 2) Katarzyna Libera-Trochim, fædd 2. október 1977, gift Piotr Trochim og eiga þau tvö börn. 3) Daria Libera, fædd 22. desember 1988.

Föðursystkini Damians Kristins eru: 1) Ásta Stefanía Svavarsdóttir, fædd 14. ágúst 1964, gift Sigurjóni Valmundssyni og eiga þau þrjú börn. 2) Kristján Svavarsson, fæddur 22. september 1965, giftur Eydísi Ásbjörnsdóttur og eiga þau fimm börn og eitt barnabarn. 3) Samfeðra, Harpa Hólm Svavarsdóttir, fædd 30. ágúst 1963, gift Finni Loftssyni og eiga þau tvær dætur og fimm barnabörn.

Damian Kristinn gekk í Eskifjarðarskóla og eftir grunnskóla stundaði hann nám við Verkmenntaskólann á Akureyri. Frá áramótum var hann í fjarnámi við Menntaskólann á Egilsstöðum. Damian Kristinn var vinamargur, jákvæður og duglegur til vinnu. Síðasta ár starfaði hann hjá Launafli ehf., áður hafði hann unnið við þjónustustörf á Akureyri og frá unga aldri reri hann til sjós með Svavari afa sínum á Kristjáni SU-106.

Útför Damians Kristins fer fram frá Eskifjarðarkirkju 25. apríl 2023 og hefst hún kl. 14. Streymt verður frá athöfninni og má nálgast hlekk á streymið á Facebook-síðu Eskifjarðarkirkju.

Elsku hjartans Damian minn.

Það er erfitt að setjast niður við borðstofuborðið og skrifa minningarorð um þig. Þú varst og verður einn af mínum nánustu og stóri bróðir Helga míns sem saknar þín endalaust mikið og bíðum við enn eftir að þú komir til baka úr páskaferðinni þinni og þið takið eina speglamynd af ykkur með vöðvana spennta eftir ræktina og fáið ykkur svo kjúkling sem þið vigtið og skráið í símaforritið ykkar. Já minningarnar ylja og eru þær svo ótrúlega margar og yndislegar þó þinn tími hafi komið alltof fljótt. Elsku hjartans drengurinn minn, ég veit að þú munt vaka yfir okkur og leiðbeina bróður þínum sem leit svo upp til þín og nánast þurfti að bera allt undir þig og fá þitt samþykki. Já þið voruð eitt. Jensína Martha mín reyndi nú líka aðeins að siða ykkur til og er hennar söknuður líka mikill. En Damian minn, ég ætla að hugsa um þig eins og Lilja Nína litla systir þín sagði við mig um nóttina sem við fengum þær hörmungarfréttir að þú hefðir látist af slysförum í Hollandi, að nú værir þú orðinn engill með vængi og byggir í stórri höll í himnaríki. Eitt veit ég líka fyrir víst að ömmur þínar og Úlfar Árni vinur þinn sem einnig fór allt of snemma frá okkur hafa tekið vel á móti þér, elsku Damian minn. Elsku Damian, það er skrýtið að hugsa til þess að þú birtist ekki hér og tékkir hvað sé að borða hjá okkur nágrönnunum eða bara til að gefa mér eitt knús og segja mér hvert þitt næsta ævintýri átti að vera.

Elsku Damian, takk fyrir allt, ég elska þig og mun gera allt til að halda minningu þinni á lofti.

Minning þín verður ávallt ljós í hjarta mínu.

Þín

Edda Dóra.

Elsku hjartans drengurinn okkar. Það var erfitt og sárt símtal sem við fengum frá föður þínum um að þú værir látinn, farinn frá okkur að kvöldi föstudagsins langa. Nýorðinn tvítugur og áttir allt lífið framundan. Þú ætlaðir að gera svo margt og varst byrjaður að setja þér markmið til framtíðar. Hæfileikaríkur, duglegur og vissir að þú gætir gert allt sem þú ætlaðir þér. Þú varst vinamargur og áttir sérlega auðvelt með að kynnast og tengjast öðrum. Það hefur svo sannarlega sýnt sig undanfarna daga þar sem í raun allt samfélagið sem tengir sig víða hefur tekið utan um foreldra þína, systur, afa, ættingja og vini.

Elsku Damian Kristinn, núna ertu farinn frá okkur allt of snemma, sem er sárt og óréttlátt. Þú ert án efa kominn í öruggar hendur hjá ömmum þínum og til eins af þínum besta vinum í sumarlandinu.

Hvíldu í friði, elsku frændi og vinur.

Elsku Gosia, Sindri, Lilja og pabbi/afi, megi góður Guð umvefja og styrkja ykkur og okkur öll á þessum erfiðum tímum.

Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum lætur hann mig hvílast,

leiðir mig að vötnum,

þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína,

leiðir mig um rétta vegu

fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,

óttast ég ekkert illt,

því að þú ert hjá mér,

sproti þinn og stafur hugga mig.

Þú býr mér borð

frammi fyrir fjendum mínum,

þú smyr höfuð mitt með olíu,

bikar minn er barmafullur.

Já, gæfa og náð fylgja mér

alla ævidaga mína,

og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

(23. Davíðssálmur)

Kristján, Eydís, Þórhildur, Ásbjörn, Svavar Kristján, Andrés, Pálmi og Gunnhildur Eydís.