Edna Hún var alveg einstök.
Edna Hún var alveg einstök. — AFP/Arthur Edwards
Sumar manneskjur eru til þannig að maður þarf bara að sjá þær og þá gleðst maður innra með sér. Maður þarf ekki endilega að þekkja þessar manneskjur, þótt það sé reyndar langbest. Stundum er nóg að vita af þeim

Kolbrún Bergþórsdóttir

Sumar manneskjur eru til þannig að maður þarf bara að sjá þær og þá gleðst maður innra með sér. Maður þarf ekki endilega að þekkja þessar manneskjur, þótt það sé reyndar langbest. Stundum er nóg að vita af þeim.

Á dögunum lést skemmtikrafturinn Barry Humphries í nokkuð hárri elli. Hann kom meðal annars margoft fram í gervi Ednu Everage. Edna var hávær og ósvífin, glysgjörn og hégómleg, ógurlega snobbuð og tókst aldrei að leyna því hversu óspennandi henni fannst venjulegt fólk vera. Edna lét ljós sitt skína á sviði og í sjónvarpsþáttum þar sem hún sagði endalausar sögur af kynnum sínum af frægu fólki, þar á meðal bresku konungsfjölskyldunni en þar sagðist hún vera innsti koppur í búri.

Edna var aldrei betri en í spjallþáttum með heimsfrægum einstaklingum þar sem hún blandaði saman ósvífni og smjaðri á eitursnjallan hátt. Þegar fréttist að skapari hennar, Barry Humphries, hefði kvatt þennan heim kepptust erlendar sjónvarpsstöðvar við að sýna brot af snilldartöktum Ednu. Það var beinlínis stórkostleg skemmtun. Blessuð sé minning þessa mikla eðalsnobbara sem kom manni alltaf í gott skap og fékk mann hvað eftir annað til að skella upp úr.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir