Þingvallabærinn Bygging sem flestir Íslendingar ættu að kannast við.
Þingvallabærinn Bygging sem flestir Íslendingar ættu að kannast við. — Morgunblaðið/Ómar
Kristján Jónsson kris@mbl.is Til stendur að ráðast í framkvæmdir á Þingvallabænum sem friðlýstur var af forsætisráðherra árið 2014. Framkvæmdasýslan óskaði eftir tilboðum í endurbætur á innviðum Þingvallabæjarins fyrir hönd forsætisráðuneytisins.

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Til stendur að ráðast í framkvæmdir á Þingvallabænum sem friðlýstur var af forsætisráðherra árið 2014. Framkvæmdasýslan óskaði eftir tilboðum í endurbætur á innviðum Þingvallabæjarins fyrir hönd forsætisráðuneytisins.

Bárust tvö tilboð í verkið. Nokkur munur var á tilboðunum en Norðanmenn ehf. voru lægri og buðu 103.934.431 milljón króna. Langeldur ehf. bauð 147 milljónir í verkið en tilboðin eru með virðisaukaskatti. Kostnaðaráætlun nam 88.652.040 milljónum án virðisaukaskatts. Án virðisaukaskatts voru Norðanmenn ehf. nokkrum milljónum undir kostnaðaráætlun.

Arkitektastofan Gláma/Kím hefur teiknað endurbætur á innviðum hússins samkvæmt upplýsingum frá Framkvæmdasýslunni. Verða allar lagnir hússins endurnýjaðar, sett loftræsting í það og húsið innréttað með þeim hætti að það verði aðgengilegra hreyfihömluðum. Ætlunin er að framkvæmdum við lokaáfanga verði fram haldið nú á vormánuðum.

93 ára gömul bygging

Þingvallabærinn var byggður sem prestsseturshús árið 1930 eftir uppdráttum Guðjóns Samúelssonar húsameistara ríkisins og var bærinn þá þrjár burstir. Árið 1974 voru byggðar tvær burstir til viðbótar.

Í viðbótarbyggingunni hefur forsætisráðherra síðan haft opinberan sumardvalarstað, sem kom í stað Konungshússins á Þingvöllum sem brann árið 1970. Þingvallabærinn er til afnota fyrir forsætisráðherra, við embættisstörf, fundarhöld og móttöku gesta.

Breytingar um aldamótin

Eldri hluti Þingvallabæjarins var íbúð þjóðgarðsvarðar en eftir að hann hætti að búa á staðnum árið 2000 tók forsætisráðuneytið yfir meginhluta bæjarins og var húsinu við það tækifæri breytt, milliveggir teknir og útbúnir salir fyrir móttöku gesta, samkvæmt upplýsingum frá Framkvæmdasýslunni. Í nyrstu burstinni er aðstaða fyrir þjóðgarðsvörð og prest Þingvallakirkju.

Við þetta má bæta að árið 2021 var farið í viðgerðir á þakklæðningu bæjarins. Minjastofnun Íslands lagði til á sínum tíma að Þingvallabærinn yrði friðlýstur og eru viðgerðir unnar í samstarfi við Minjastofnun.