Orri Björnsson
Orri Björnsson
„Það er aðallega verið að undirbúa komu Carbfix í bæinn og að skipuleggja þannig að þeir geti sett upp aðstöðu í bænum,“ segir Orri Björnsson, formaður skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar. Haldinn verður fundur í kvöld í Bæjarbíói kl

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Það er aðallega verið að undirbúa komu Carbfix í bæinn og að skipuleggja þannig að þeir geti sett upp aðstöðu í bænum,“ segir Orri Björnsson, formaður skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar. Haldinn verður fundur í kvöld í Bæjarbíói kl. 20 þar sem breytingar á aðalskipulagi bæjarins vegna aðkomu að Straumsvíkurhöfn og umferðarskipulags verða kynntar.

„Það er verið að breyta hafnarsvæðinu og bæta aðgengi að Straumsvíkursvæðinu, meðal annars með undirgöngum sem verða austan megin við álverið og þaðan aðgengi að nýrri landfyllingu hafnarinnar. Það er raunverulega verið að opna fyrir að hægt sé að setja upp aðstöðuna sem Carbfix þarf,“ segir Orri. Búið er að skrifa undir viljayfirlýsingu um komu fyrirtækisins í bæinn og breytingar á skipulagi og stækkun Straumsvíkurhafnar eru liður í þeirri forvinnu. „Það er samt aldrei neitt öruggt fyrr en það er komið,“ segir Orri, en segir þó allt benda til þess að áætlanir gangi eftir.

Tíu hektara stækkun

Helstu breytingarnar verða á hafnarsvæðinu segir hann en líka sé verið að undirbúa og gera mögulegt að hafa starfsemi Carbfix innan lóðar álversins, svo verði hægt að hafa hana í framtíðinni eitthvað sunnar og innar í landinu.

Orri segir að uppfylling sem bætist við höfnina sé nálægt tíu hekturum og hún verði norðaustan megin við núverandi hafnargarð í Straumsvík.

Tugir starfa skapast

„Það þarf að byggja hafnargarð, viðlegukant og síðan er talsverður hluti af þessum tíu hekturum athafnasvæði fyrir Carbfix svo þeir geti verið með tanka fyrir koltvísýringinn. Þessir tankar taka langmesta plássið,“ segir Orri.

- Hvaða áhrif munu þessar breytingar hafa á bæjarfélagið?

„Það gæti orðið talsverð aukning í hafnargjöldum,“ segir Orri en bætir við að ekki sé búið að semja um þau né aðra starfsemi enn. Hann segir að það sé þó augljóst að breytingin muni verða mikil lyftistöng fyrir Hafnarfjarðarbæ. „Tekjur bæjarins aukast með auknum hafnargjöldum og einnig munu einhverjir tugir starfa skapast við þessa breytingu. Höfnin verður öflugri fyrir vikið og býður upp á mikla möguleika fyrir iðnaðarstarfsemi og nýsköpunariðnað á hafnarsvæðinu.“

Coda Terminal

6. desember 2022 undirrituðu Carbfix, Coda Terminal, Hafnarfjarðarbær og Rio Tinto viljalýsingu um uppbyggingu kolefnis- og förgunarmiðstöðvarinnar Coda Terminal í Straumsvík.

Fyrsti áfangi kominn af stað 2026 og full afköst 2031.

Gæti tekið á móti og bundið 3 milljónir tonna af CO2 árlega, eða sem svarar helmingi losunar landsins.