Auður Bjarnadóttir fæddist í Vestmannaeyjum 1. febrúar 1960. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli 13. apríl 2023.

Foreldrar Auðar voru Bjarni Herjólfsson frá Vestmannaeyjum, f. 19. júlí 1932, d. 3. júní 2004, og Unnur Ketilsdóttir frá Ísafirði, f. 5. janúar 1933, d. 1. ágúst 2009. Bjarni starfaði sem flugumferðarstjóri í Vestmannaeyjum og Unnur vann við ýmis störf tengd flugi.

Auður bjó ásamt foreldrum sínum á Búastaðabraut 12 í Vestmannaeyjum fram að eldgosi árið 1973. Eftir það bjó hún í Reykjavík, fyrst á Kleppsvegi 120 hjá foreldrum sínum og síðar á Reynimel 84 en flutti svo aftur á Kleppsveginn árið 2011.

Eftir að hafa lokið gagnfræðaprófi frá Kvennaskólanum hóf Auður nám við Menntaskólann í Reykjavík og lauk þaðan stúdentsprófi. Þaðan lá leiðin í hjúkrunarfræði í Háskóla Íslands.

Eftir að námi lauk starfaði Auður sem hjúkrunarfræðingur á augndeild Landakots og síðar á augndeild Landspítala þar til hún hóf störf hjá Lasersjón augnlækningum.

Útför Auðar fer fram frá Langholtskirkju í dag, 25. apríl 2023, klukkan 13.

Við minnumst elsku Auðar frænku af miklum hlýhug og væntumþykju. Auður spilaði stóran þátt í uppvexti okkar, enda fjölskyldur okkar nánar. Auður var nokkru eldri en við en var alltaf svo góð við okkur litlu frændsystkinin og tilbúin að dunda með okkur, hvort sem það var að spila, lita eða leyfa okkur að prófa gítarinn sinn. Við vorum svo heppin að eiga svona þolinmóða og yndislega stóra frænku.

Það var alltaf skemmtilegt þegar Auður frænka var á staðnum því það fylgdi henni svo mikil gleði. Auður var einstaklega hláturmild og hló ekki minna en við litlu frændsystkinin þegar Bjarni pabbi hennar og bræður hans, pabbar okkar, voru að sprella í fjölskylduboðum. Í minningunni var hún alltaf brosandi og stutt í hláturinn.

Okkur þótti mjög spennandi þegar Auður flutti á Reynimelinn í fyrstu íbúðina sína. Það var einhver ævintýraljómi yfir því að koma þangað. Sérstaklega minnisstætt er fíni ljósbleiki sófinn og allir smáhlutirnir sem margir hverjir tengdust sögu frá fjarlægum stöðum sem endalaust var hægt að skoða. Auður hafði næmt auga fyrir fallegum hlutum og allt tónaði svo vel saman heima hjá henni. Á Reynimelnum var líka ógrynni af matreiðslubókum enda var Auður listakokkur. Ógleymanlegt er þegar hún kynnti okkur ekta ítalska pítsu sem hún galdraði fram í notalega eldhúsinu sínu. Auður hafði sérstakt dálæti á Ítalíu og öllu sem var ítalskt. Hún lærði ítölsku og ferðaðist margoft þangað. Amma skildi ekki alveg þennan mikla Ítalíuáhuga en grínast var með að Auður hlyti að hafa verið Ítali í fyrra lífi.

Auður var mikil handverkskona, heklaði og prjónaði, þ.m.t. flíkur á okkur litlu frændsystkinin. Tónlist lék einnig stórt hlutverk í lífi Auðar, hún lærði á blokkflautu, gítar, þverflautu og seinna söng. Hún hafði svo fallega og bjarta rödd.

Myndavélin var aldrei langt undan. Auður hafði mjög gott auga fyrir umhverfi sínu og var afar fær ljósmyndari. Oft birtist húmorinn hennar í myndunum. Það var frábært að fá smá innsýn í hvað hún var að upplifa þegar hún birti fallegu myndirnar á síðunni sinni. Hvort sem það var ítalskt mannlíf, íslensk náttúra eða fallega framsett máltíð sem hún hafði eldað.

Auður var svo afskaplega hæfileikarík á svo mörgum sviðum. Það var sárt að horfa upp á hana svona unga í blóma lífsins smám saman missa getu til að gera hluti sem okkur þykja sjálfsagðir. Alzheimer er hræðilegur sjúkdómur og það er þyngra en tárum taki að horfa upp á ástvin breytast í eins og aðra manneskju sem maður ekki þekkir. Við áttum samt dýrmætar stundir með Auði eftir að hún greindist, meðal annars á stórhátíðum og á afmælum barnanna okkar meðan heilsa hennar leyfði. Fyrir það erum við einstaklega þakklát. Við kveðjum elsku hjartans Auði frænku með miklum söknuði en huggum okkur við allar yndislegu minningarnar.

Ásta Júlía, Guðbjört, Margrét og Herjólfur.

Hún er sloppin úr þessum líkams- og sálarfjötrum sem hún hefur verið í undanfarin ár. Hún var frábær kokkur, ljómandi ljósmyndari, hafði tónlistarhæfileika, söng í kór og gat vel bjargað sér m.a. á frönsku, þýsku og svo auðvitað ítölsku sem var hjartamálið hennar.

Við hittumst fyrst á skemmtilegu ítölskunámskeiði hjá HÍ árið 1988. Eftir námskeið númer tvö ákváðum við að skella okkur suður til Rómar á námskeið haustið 1989. Fórum saman þrjár – fengum inni í íbúð á Via Panisperna. Sambúðin þennan mánuð gekk alveg einstaklega vel. Við vorum aðskildar í skólanum en samrýndar utan hans. Auður og Lára, sem ekki þekktust áður, voru báðar áhugakonur um mat og eldamennsku og ég naut góðs af. Þær náðu vel saman og skemmtu sér ótrúlega vel við að kaupa inn á mörkuðum og elda saman.

Þetta var fyrsta ferðin okkar Auðar saman en langt í frá sú síðasta. Við fórum í Útivistargöngur og mjög oft í Bása. Við skruppum til Eyja eftir að mamma hennar dó og gengum upp á hraunið. Þar stoppuðum við á vissum stað og hún sagði: „Hér fyrir neðan er húsið okkar.“ Það var mjög sérkennileg upplifun.

Auður reyndist mér einstök vinkona, bæði í gleði og í sorg. Og við eyddum mörgum jólum og áramótum saman. Eftir að ég flutti til Egilsstaða kom hún og heimsótti mig og var hjá mér lungann úr sumrinu 2014.

Nokkrar Ítalíuferðir fengum við líka saman, til dæmis ógleymanlegar gönguferðir í Garfagnana-dalnum og Cinque Terre. Ferð til Sestri Levante og loks síðasta ferðin okkar saman – frá Lago Negro um Napólí og heim í nóvember 2017. Og í þeirri ferð fengum við ómetanlega aðstoð frá ræðismanninum í Napólí – hann hefur fengið margar hlýjar hugsanir síðan.

Sigurður Ingólfsson orðar svo fallega í ljóðabókinni Ég þakka:

Ég þakka

fyrir alltof

stuttar stundir,

hvert stöku bros

frá vini

eða barni.

Ég geymi þær

sem glitský

þar sem fundir

í gleði sinni

spinna sól

úr hjarni.

Takk fyrir allt vinkona.

Jóhanna Hafliðadóttir.

Við kynntumst í Kvennaskólanum í Reykjavík á áttunda áratug síðustu aldar. Áður höfðu Auður og Fríða verið saman í bekk í Barnaskóla Vestmannaeyja. Í Kvennaskólanum bundumst við allar tryggðaböndum sem hafa haldið og styrkst í áranna rás. Ein okkar, Gyða Bjarnadóttir, lést fyrir aldur fram fyrir tveimur árum og nú þegar Auður er gengin söknum við tveggja góðra vinkvenna okkar.

Á Kvennaskólaárunum tókum við þátt í kristilegu starfi saman, einkum í Kristilegum skólasamtökum. Eftir að veru okkar í Kvennaskólanum lauk, lá beint við að við færum allar saman í Menntaskólann í Reykjavík. Við vinkonurnar áttum því samleið á helsta mótunarskeiði ævi okkar og verðum ævinlega þakklátar fyrir þá góðu og þéttu vináttu sem þá varð til. Í menntaskólanum kynntumst við Yrsu Þórðardóttur sem bættist þá í saumaklúbbinn okkar. Hún er erlendis en sendir aðstandendum og vinum Auðar innilegar samúðarkveðjur.

Auður var vönduð kona, brosmild, glaðvær og traustur félagi. Hún var góður námsmaður og afar hjálpsöm. Það kom því ekki á óvart að hún skyldi gera hjúkrun að ævistarfi. Að námi loknu starfaði hún lengst af á augndeild og hjá Lasersjón. Auður var myndarleg á öllum sviðum og hannyrðir léku í höndum hennar. Hún var líka sérstaklega góður kokkur. Það var alltaf tilhlökkunarefni að njóta matarins þegar Auður sá um saumaklúbbinn. Hún var sérfræðingur í ítalskri matargerð og reyndar í öllu sem ítalskt er. Hún lærði ítölsku og fór oft til Ítalíu til skemmri og lengri dvalar. Hún vann til verðlauna bæði í uppskrifta- og ljósmyndakeppni.

Auður hafði unun af tónlist. Hún lagði stund á þverflautunám fram á unglingsár og lærði einnig söng. Hún hafði afar góða söngrödd og gott tóneyra. Hún var fljót að ná því að spila lög á gítar og það kom sér einkum vel á unglingsárunum þegar við vinkonurnar höfðum gaman af að spila og syngja saman. Á fullorðinsárum söng Auður með kvennakórnum Kyrjunum og hafði mikla gleði af.

Auður átti góða foreldra og voru þau Auður, Bjarni og Unnur foreldrar hennar afar samrýnd alla tíð. Þau nutu þess að ferðast saman víða um heim. Auður stóð sem klettur við hlið foreldra sinna í veikindum þeirra, síðustu árin sem þau lifðu, og reyndist þeim afar vel. Eftir að foreldrar Auðar létust og það fór að bera á veikindum hennar sjálfrar, stóðu bæði föður- og móðurfjölskyldan þétt við hlið Auðar og hafa aðstoðað hana á alla lund allt til hins síðasta.

Að leiðarlokum þökkum við Auði fyrir allar góðu stundirnar, hjálpsemina og dýrmæta vináttu sem aldrei bar skugga á. Hennar verður sárt saknað. Núna yljum við okkur við minningarnar um góða og trausta vinkonu.

Fari Auður, vinkona okkar, í friði, bænir okkar fylgja henni. Við sendum innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu Auðar og allra vina hennar.

Guð blessi minningu Auðar.

Arnfríður Einarsdóttir, Ágústa Þorbergsdóttir, Katrín Kristín Ellertsdóttir, Svana Helen Björnsdóttir.

Það var á augndeild Landakotspítala sem leiðir okkar félaga og Auðar skárust, fyrir áratugum. Þar starfaði Auður sem hjúkrunarfræðingur með okkur árum saman og síðar á augndeildinni á Borgarpítala eftir að Landakoti lauk og síðan Landspítala. Við stofnun Lasersjónar fylgdi hún okkur og var hryggsúlan í því starfi í mörg ár.

Auður var lágvaxin og dökkhærð, skjót í hreyfingum. Hennar göngulag var hratt og smáskrefa og algerlega hljóðlaust eins og hjá indíána í kúrekamynd. Þannig virtist hún spretta upp úr gólfinu án aðdraganda.

Hún var hjúkrunarfræðingur í þeirri mynd sem engu er við bætandi, ábyrgðarfull og traustur vinnufélagi sem hægt var að reiða sig á. Utan vinnu hafði hún yndi af að syngja, ljósmyndun og ást á flestu ítölsku.

Langt fyrir aldur fram tóku örlögin stjórnina og leiddu hana inn í land hinna veiku. Þaðan átti hún aldrei afturkvæmt. Enginn fær að velja sér sjúkdóm og hinn veiki á sér aðeins eina ósk meðan hinn heilbrigði á margar. Nú eru öll hennar vandamál náðarsamlega leyst.

Við þökkum samfylgdina.

Hvíldu í friði.

Eiríkur Þorgeirsson, Þórður Sverrisson.