Stríð Íbúar í Kramatorsk bíða hér eftir strætisvagni við hlið sprengigígs.
Stríð Íbúar í Kramatorsk bíða hér eftir strætisvagni við hlið sprengigígs. — AFP/Anatolii Stepanov
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Kínversk stjórnvöld lýstu því yfir í gær að þau virtu fullveldi allra þeirra ríkja sem eitt sinn voru hluti af Sovétríkjunum. Mao Ning, talskona ráðuneytisins, sagði á blaðamannafundi ráðuneytisins að Kínverjar virtu fullveldi, sjálfstæði og landsvæði allra ríkja, sem og þær grundvallarreglur sem settar væru fram í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Kínversk stjórnvöld lýstu því yfir í gær að þau virtu fullveldi allra þeirra ríkja sem eitt sinn voru hluti af Sovétríkjunum. Mao Ning, talskona ráðuneytisins, sagði á blaðamannafundi ráðuneytisins að Kínverjar virtu fullveldi, sjálfstæði og landsvæði allra ríkja, sem og þær grundvallarreglur sem settar væru fram í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Sagði Mao að Kína hefði verið eitt fyrsta ríki heims til þess að taka upp stjórnmálasamband við viðkomandi ríki og sakaði hún „suma fjölmiðla“ um að hafa sett fram ranga mynd af afstöðu Kínverja til Úkraínu og „sá misklíð í samskiptum Kína og viðkomandi ríkja“.

Yfirlýsing kínverskra stjórnvalda kom í kjölfar ummæla sem Lu Shaye, sendiherra landsins í Frakklandi, lét falla í sjónvarpsviðtali á föstudaginn, þar sem hann gaf í skyn að þau ríki sem hefðu komið fram í kjölfar falls Sovétríkjanna hefðu ekki formlega stöðu samkvæmt alþjóðalögum.

Ummælin vöktu hneykslan víða í Evrópu, og kölluðu Eystrasaltsríkin þrjú sendifulltrúa Kínverja á teppið í gær vegna þeirra. Gabrielius Landsbergis, utanríkisráðherra Litháen, sagði að sendifulltrúarnir yrðu beðnir um að útskýra hvort afstaða Kínverja gagnvart sjálfstæði ríkjanna hefði breyst, og að þeir yrðu minntir á að Eystrasaltsríkin hefðu verið fullvalda ríki, sem hefðu verið hersetin ólöglega af Sovétríkjunum.

Þá sagði franska utanríkisráðuneytið að þau myndu setja ofan í við Lu á fundi hans með ráðuneytisstjóra sínum í gær, en sá fundur var settur á dagskrá áður en ummælin féllu. Emmanuel Macron Frakklandsforseti bættist í hóp þeirra sem gagnrýndu ummælin í gær, og sagði að landamæri fyrrverandi Sovétlýðvelda væru „órjúfanleg“. Sagði Macron að hann teldi ummæli Lus óviðeigandi fyrir diplómata.

Fordæmdi innrásina

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, fordæmdi í gær innrás Rússa í Úkraínu og þá eyðileggingu sem hún hefði valdið á fundi öryggisráðsins, þar sem Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sat í forsæti.

Sagði Guterres á fundinum að innrásin væri brot á alþjóðalögum og að hún hefði valdið úkraínsku þjóðinni ómældum hörmungum, auk þess sem innrásin hefði bætt á þau vandamál sem alþjóðahagkerfið hefði þurft að glíma við í kjölfar heimsfaraldursins.

Fundur öryggisráðsins í gær var settur á dagskrá af Rússum, sem fara með forsæti ráðsins í aprílmánuði. Var fundinum ætlað að ræða hvernig „vernda mætti heimsfrið og öryggi,“ sem og hvort alþjóðakerfið ætti að vera „einpóla“ undir ægivaldi Bandaríkjanna eða „fjölpóla“.

Sökuðu sendiherrar vesturveldanna Rússa um hræsni og fordæmdu harðlega innrás þeirra í Úkraínu. Linda Thomas-Greenfield, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði að innrás Rússa hefði vegið að „hjarta stofnsáttmálans“, og skoraði hún jafnframt á Lavrov að láta Bandaríkjamennina Evan Gershkovich, blaðamann Wall Street Journal, og landgönguliðann Paul Whelan lausa úr haldi.

Réðust á Svartahafsflotann

Rússnesk stjórnvöld lýstu því yfir í gær að þau hefðu „varist“ drónaárás á höfnina í Sevastopol, sem er á Krímskaga, í fyrrinótt, en þar eru jafnframt höfuðstöðvar rússneska Svartahafsflotans. Sögðu yfirvöld á skaganum að árásin hefði hvorki valdið skemmdum né mannfalli. Ekki var hægt að staðfesta yfirlýsingar Rússa í gær, en á samfélagsmiðlum mátti sjá myndir af tveimur sprengingum í höfninni um miðja nótt, og sögðu sjónarvottar að þær hefðu verið nógu háværar til þess að vekja flestalla íbúa borgarinnar.

Úkraínumenn vörðust allra frétta, en þeir hafa áður gert drónaárásir á Svartahafsflotann, þar á meðal í október þegar drónar reyndu loftárásir á Sevastopol. Nú var að sögn Rússa um árásir ómannaðra drónaskipa að ræða. Yfirvöld í borginni höfðu áður aflýst fyrirhuguðum hátíðahöldum þar vegna 1. maí og 9. maí af öryggisástæðum. Þá sagði Igor Súkhín, héraðsstjóri í Bogorodsky, einu af úthverfum Moskvu, í gær að úkraínskur dróni hefði fundist í skógi í nágrenni höfuðborgarinnar, og að það væri ekki í fyrsta sinn.

Washington Post greindi frá því í gær að í einu af skjölunum sem lekið var úr bandaríska varnarmálaráðuneytinu hefði komið fram að leyniþjónusta Úkraínuhers hefði fallist á kröfur Bandaríkjastjórnar um að hætta við árásir á Moskvu og önnur skotmörk í Rússlandi hinn 24. febrúar síðastliðinn, en þá var eitt ár liðið frá innrásinni.