Framkvæmdir Byrjað er að rífa stálgrindina og þakið af þeim hluta hússins sem skemmdist mest. Viðbyggingin stendur á milli tveggja eldri húsa.
Framkvæmdir Byrjað er að rífa stálgrindina og þakið af þeim hluta hússins sem skemmdist mest. Viðbyggingin stendur á milli tveggja eldri húsa. — Morgunblaðið/Guðlaugur Albertsson
Arctic Fish er að undirbúa uppbyggingu á þeim hluta seiðastöðvar fyrirtækisins í Norður-Botni í Tálknafirði sem skemmdist mikið í bruna í febrúar. Framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá fyrirtækinu segir stefnt að því að taka húsnæðið í notkun næsta sumar

Arctic Fish er að undirbúa uppbyggingu á þeim hluta seiðastöðvar fyrirtækisins í Norður-Botni í Tálknafirði sem skemmdist mikið í bruna í febrúar. Framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá fyrirtækinu segir stefnt að því að taka húsnæðið í notkun næsta sumar.

Unnið var að byggingu til viðbótar við seiðastöðina og átti að taka hana í notkun í júní. Með viðbyggingunni átti að tvöfalda eldisrými stöðvarinnar og gefa þannig svigrúm til að auka mjög seiðaframleiðslu og framleiða stærri laxaseiði til að setja út í sjókvíar fyrirtækisins. Stækkun stöðvarinnar er mikilvægur liður í stækkun sjókvíaeldis Arctic Fish í fjörðum Vestfjarða.

Húsið er alls um 5.500 fermetrar að stærð með tólf steinsteyptum eldiskerum, vatnshreinsistöð og öðrum búnaði. Unnið var við frágang húsnæðis og uppsetningu búnaðar þegar eldurinn kom upp í febrúar og stórskemmdi húsið og ýmsan búnað. Vatnshreinsistöðin var í fjórðungi eða fimmtungi hússins og er talið að hún sé að miklu leyti ónýt.

Seinkun um rúmt ár

Daníel Jakobsson framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar segir að ákveðið hafi verið að hefjast handa við uppbyggingu hússins að nýju, af fullum krafti. Tekur hann þó fram að vinda þurfi ofan af ýmsum hlutum og afla leyfa til að rífa það sem er ónýtt og byggja upp að nýju. Allt taki þetta tíma. Byrjað er að rífa og taka til.

Daníel segir að útlit sé fyrir að ekki þurfi að rífa kerin til að laga lagnir sem undir þeim eru, nema ef til vill hluta úr nokkrum kerum. Ef það tekst að koma seiðastöðinni í gagnið strax næsta sumar tefur tjónið ekki uppbyggingu fyrirtækisins um nema rúmt ár. helgi@mbl.is