Í upphafi fótboltasumarsins hefur tilfærsla á leikjum verið áberandi karlamegin. Grasvellir koma sérlega illa undan vetri og vitanlega ekki að ósekju þar sem veturinn var sá kaldasti á þessari öld. Lið sem eru með grasvelli sem aðalvelli hafa fundið …

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Í upphafi fótboltasumarsins hefur tilfærsla á leikjum verið áberandi karlamegin.

Grasvellir koma sérlega illa undan vetri og vitanlega ekki að ósekju þar sem veturinn var sá kaldasti á þessari öld.

Lið sem eru með grasvelli sem aðalvelli hafa fundið sig knúin til að skipta á heimaleikjum við lið sem eru með gervigras á aðalvöllum sínum.

Í tilfelli Keflavíkur hefur félagið afráðið að færa heimaleiki liðsins á gervigrasvöll.

FH og KR áttu um stund að mætast á hlutlausum gervigrasvelli þar sem aðalgrasvellir hvorugs liðs eru tilbúnir, en leika þess í stað á grasvelli FH við frjálsíþróttavöll félagsins, sem var ekki boðlegur í leik gegn Stjörnunni á dögunum.

Hægt hefur verið að spila á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum en hann virðist þó ekki enn fyllilega reiðubúinn til notkunar.

Berst þá talið að gervigrasvæðingu. Auðvitað veitir maður því skilning að vilji sé fyrir hendi að halda áfram að spila á grasi, það heillar alltaf að gera það.

Veturinn var óvenju kaldur en íslensk veðrátta er yfirhöfuð stjörnugalin og því aldrei hægt að ganga að neinu vísu.

Þegar útlit var fyrir að vorið væri svo sannarlega komið, með óvenju háum hita, kyngdi niður snjó á fimmtudag. Hiti hefur þá verið við frostmark undanfarna daga, sem er ekki til að hjálpa grasvöllunum.

Nú þykist ég ekki vita hvernig loftslagið hér á landi muni þróast á næstu árum en hvað sem því líður, ef fram heldur sem horfir hljóta félög sem eru með gras á aðalvöllum sínum að fara að spyrja sig hvort ekki sé ráð að fara að skipta yfir í gervigras. Svona ástand er ekki ásættanlegt á hverju ári.