Grænland Danski og grænlenski fáninn blakta hér hlið við hlið í Ilulissat á V-Grænlandi. Ný drög að stjórnarskrá Grænlands voru kynnt í gær.
Grænland Danski og grænlenski fáninn blakta hér hlið við hlið í Ilulissat á V-Grænlandi. Ný drög að stjórnarskrá Grænlands voru kynnt í gær. — AFP/Odd Andersen
Stjórnlaganefnd Grænlands afhenti í gær grænlenska þinginu drög að stjórnarskrá, sem gæti tekið gildi, þegar og ef til þess kemur að Grænland fái sjálfstæði frá Danmörku. Stjórnarskrárdrögin eru í 49 málsgreinum og á grænlensku, og mun grænlenska þingið nú ræða þau og ákveða hver næstu skref verða

Stjórnlaganefnd Grænlands afhenti í gær grænlenska þinginu drög að stjórnarskrá, sem gæti tekið gildi, þegar og ef til þess kemur að Grænland fái sjálfstæði frá Danmörku. Stjórnarskrárdrögin eru í 49 málsgreinum og á grænlensku, og mun grænlenska þingið nú ræða þau og ákveða hver næstu skref verða.

Múte B. Egede, forsætisráðherra grænlensku heimastjórnarinnar, sagði, þegar hann tók á móti drögunum, að þetta væri gleðidagur og mikilvægur dagur í sögu Grænlands. Hann lagði þó áherslu á að næstu skref við mótun stjórnarskrárinnar myndu kalla á samvinnu Grænlendinga.

Í stjórnarskrárdrögunum er lögð sérstök áhersla á menningararf og sögu Ínúíta, og segir í inngangsorðum að það beri að virða og vernda þau gildi öllum stundum. Hins vegar er ekki tekin afstaða til nokkurra veigamikilla mála, líkt og á hvaða grunni fólk geti fengið grænlenskt ríkisfang og vegabréf, eða endanlegrar tilhögunar dómsmála, en hæstiréttur Danmerkur er nú einnig hæstiréttur Grænlands.

Þá fjalla núverandi drög ekki um þjóðhöfðingja, þar sem óvissa ríkir um hvort sjálfstætt Grænland myndi vilja slíta sig frá dönsku krúnunni, eða vera áfram fullvalda ríki með ríkisarfa Danmerkur sem þjóðhöfðingja.

Grænland hefur notið heimastjórnar frá árinu 1979, og var sjálfstjórn þeirra aukin með lögum árið 2009. Voru þá gjaldmiðillinn, dómsmál og varnar- og öryggismál enn undir yfirstjórn Dana, en Grænlendingar og Danir fara saman með utanríkismál.

Í lögunum frá 2009 voru ákvæði um að ef grænlenska þjóðin ákvæði að lýsa yfir sjálfstæði myndu Grænlendingar og Danir hefja viðræður um fullveldi Grænlendinga. Það samkomulag sem þá yrði gert yrði borið undir danska og grænlenska þingið til samþykktar og síðan sett í þjóðaratkvæðagreiðslu í Grænlandi.

Að sögn danska ríkisútvarpsins DR er í drögunum gert ráð fyrir að fullvalda Grænland fái rétt til þess að semja við önnur ríki um tilhögun varnarmála sinna. Yrði það þá gert með sérstöku samkomulagi við annað ríki, sem fæli þá í sér að það ríki tæki yfir varnir landsins. Fimm eyríki á Kyrrahafi eiga nú í slíku sérstöku sambandi við annað og stærra ríki, en í frétt DR eru Marshall-eyjar, sem eru með sérstakt samband við Bandaríkin í þessum efnum, nefndar sem dæmi.