Eyðimörk Þar eru tímalausir risakaktusar.
Eyðimörk Þar eru tímalausir risakaktusar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einar Benediktsson orti sem frægt er: „Ég skildi, að orð er á Íslandi til um allt, sem er hugsað á jörðu.“ Skáldið gerði sér ljóst að á íslensku er hægt að koma orðum að öllum hugsunum sem verða til í heilabúi mannskepnunnar

Tungutak

Þórhallur Eyþórsson

tolli@hi.is

Einar Benediktsson orti sem frægt er: „Ég skildi, að orð er á Íslandi til um allt, sem er hugsað á jörðu.“ Skáldið gerði sér ljóst að á íslensku er hægt að koma orðum að öllum hugsunum sem verða til í heilabúi mannskepnunnar.

Hvað er þá að segja um orð sem eru einstök fyrir íslensku, t.d. hundslappadrífa ‘mikil og stórflygsótt snjókoma í logni’. Mótar það orð ekki hugsun Íslendinga um vetrarveður? Hundslappadrífa er að sönnu sérstakt hugtak en það á sér þó allmörg samheiti: logndrífa, lámukyngja, jafnvel hrognkelsadrífa. Merkingin er tæplega óvenjuleg; þótt nákvæm samsvörun orðsins sé e.t.v. ekki til í öðrum málum er ólíklegt að aðeins þeir sem eiga íslensku að móðurmáli geti skynjað þá tegund snjókomu sem hér um ræðir. Sem sagt, það er vafasamt að orðið hundslappadrífa hafi áhrif á hugsun Íslendinga. Miklu fremur mótast hugsun og skynjun þeirra sem tala íslensku af þeim veruleika sem þeir búa við. Sá veruleiki felst m.a. í því að upplifa ýmiss konar snjókomu og tengja hana við hvers kyns fyrirbæri, svo sem hundslappir.

Þessar hugrenningar kviknuðu þegar ég var nýlega staddur í órafjarlægð frá allri hundslappadrífu, í miðri eyðimörkinni í Arizona í Bandaríkjunum. Þar um slóðir eru svokölluð verndarsvæði frumbyggja, m.a. þjóðar sem nefnd er hópí-indíánar. Tungumál þeirra vakti mikla athygli í fræðaheiminum á fjórða áratug síðustu aldar þegar málvísindamaðurinn Benjamin Lee Whorf (1897–1941), sem upphaflega var eldvarnaverkfræðingur, setti fram tilgátu um að tungumálið hefði áhrif á hugsunina þannig að fólk skynjaði heiminn á mismunandi hátt eftir því hvaða mál það talaði. Tilgátan er jafnan er kennd við Whorf og kennara hans við Yale-háskóla, málvísindaprófessorinn Edward Sapir, og kölluð Sapir-Whorf-tilgátan.

Whorf hélt því fram að í hópí-máli væru engin orð eða málfræðilegar formgerðir sem vísuðu beint til þess sem Vesturlandabúar kalla „tíma“. Síðar kom í ljós að lýsing hans á málinu var villandi – ef ekki bókstaflega röng – og tímaskynjun hópí-fólks er í grundvallaratriðum áþekk okkar. Hins vegar hefur þetta fólk aðrar leiðir til að tjá tímann. Sapir-Whorf-tilgátan, a.m.k. eins og hún var sett fram í sinni sterkustu mynd, féll í ónáð í málvísindum á sjöunda áratugnum en þó örlar enn á henni meðal leikmanna og jafnvel einstaka fræðimanna.

Talandi um hundslappadrífu, þá hefur önnur staðhæfing Whorfs reynst býsna lífseig: að Grænlendingar (eða inúítar, áður oft nefndir eskimóar) noti óvenju mörg orð um snjó. Vissulega verður Grænlendingum tíðrætt um snjó þótt nákvæm tala orðanna sé á reiki. Það stafar þó einfaldlega af því að snjór mótar umhverfi Grænlendinga í miklu meira mæli en hjá þeim sem búa í hlýrra loftslagi. Sama gildir vitaskuld líka um Íslendinga og aðra sem hafast við á norðurslóðum.