Afleiðingar fíkniefna eru samfélagslegt mein

Færsla Bubba Morthens á samfélagsmiðlum um hrikalegar afleiðingar fíkniefnaneyslu hratt af stað nauðsynlegri umræðu. Bubbi birti mynd og sagði að á einu ári hefði hann sungið yfir 11 einstaklingum, sem hefðu fallið frá vegna fíknisjúkdóms. Sex þeirra höfðu ánetjast ópíóíðum.

„Þetta er voðalega einfalt, það er ópíóíðafaraldur að grassera meðal ungs fólks á Íslandi og dauðsföllin koma í hrönnum,“ sagði Bubbi í samtali við mbl.is í tilefni af færslunni. „Sumir þessara einstaklinga sem ég hef sungið yfir, þeir bara sviptu sig lífi vegna þess að þeir sáu ekki fram á að bara komast í gegn.“

Kjartan Jónas Kjartansson, yfirlæknir á fíknigeðdeild Landspítala, staðfesti í viðtali við mbl.is að vandinn vegna ópíóíðaneyslu hefði farið vaxandi á undanförnum mánuðum.

Ópíóíðafíknin er erfið við að eiga. Ópíóðafaraldur hefur geisað í Bandaríkjunum undanfarin ár og farið eins og logi um akur um heilu samfélögin. Þar var lýst yfir neyðarástandi í heilbrigðismálum vegna faraldursins í forsetatíð Donalds Trumps. Hér á landi virðist ástandið fara versnandi.

Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Sjúkrahúsinu Vogi, sagði í viðtali við mbl.is í febrúar að í fyrra hefðu á milli 250 og 300 virkir neytendur verið í lyfjameðferð við ópíóíðafíkn í hverjum mánuði. Árið 2014 voru þeir 120 í hverjum mánuði.

Í viðtalinu við Valgerði kom einnig fram að síðustu þrjú árin hefðu 40% þeirra, sem komið hefðu á Vog vegna ópíóíðafíknar, snúið þangað aftur í endurinnlögn.

Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, var í viðtali í Dagmálum, streymi Morgunblaðsins á netinu, í vikunni. Þar talaði hann um mikilvægi þess að taka á banaskömmtum fíkniefna og sjálfsmorðum. „Ef við horfum á síðustu tíu ár og lítum til fólks 44 ára og yngra, þá eru yfir 700 manns sem hafa dáið af þessum völdum. Þetta eru ekki náttúrulegar orsakir, þetta er ekki sjúkdómur, þetta er ekki bílslys … þetta er sjálfsskaði vegna vanlíðunar,“ sagði Grímur og bætti við: „Fyrir þetta litla samfélag er þetta hræðilegur fórnarkostnaður.“

Hér er á ferðinni grafalvarlegt mál, sem þarf að taka á frá öllum hliðum. Það þarf að draga úr skaðanum hjá þeim, sem þegar hafa ánetjast, og bæta í forvarnir til að koma í veg fyrir að neysla hefjist.

Mikið púður hefur farið í umræðu um að lögleiða neysluskammta fíkniefna. Hugmyndin á bak við það er að taka glæpinn úr neyslunni og það er vitaskuld rétt hugsun. Neysla fíkniefna er ekki glæpur. Hún er heilbrigðisvandamál og refsing er engin lausn.

Það er hins vegar ekki svo einfalt mál að lögleiða þennan eina þátt á meðan dreifing og sala er ólögleg og framleiðslan í mörgum tilvikum einnig.

Hollendingar hafa mátt súpa seyðið af afleiðingum þess að lögleiða aðeins neyslu. Þeir fóru af stað með að leyfa neyslu kannabisefna. Nú er Holland ein helsta gátt harðra fíkniefna inn í Evrópu og glæpagengjunum vex fiskur um hrygg þannig að fjölmiðlar þora ekki að segja fréttir og almenningur er uggandi.

Lögreglan hér á landi hefur bent á að verði neysluskammtar lögleiddir muni fíkniefnasalarnir einfaldlega passa að vera aldrei með meira á sér en nemur neysluskammti.

Svo má ekki gleyma því að ópíóðalyf eru lögleg, ólíkt til dæmis heróíni og kókaíni, þannig að erfitt er að sjá hvaða gagn umræðan um neysluskammta gerir í þessu samhengi.

Ópíóíðalyf eru hættuleg, en þau eru líka gagnleg. Með þeim er hægt að lina þjáningar, en þau eru svo ánetjandi að þau þarf að umgangast með mikilli varúð.

Í Bandaríkjunum hafa lyfjafyrirtæki mátt gjalda fyrir að hafa haldið þeim að fólki af of miklu offorsi. Þeim hefur verið gefið að sök að hafa beinlínis valdið faraldrinum.

Skelfilegt er að horfa upp á afleiðingarnar af ópíóíðalyfjum hér á landi. Bubbi Morthens gerði rétt í því að stíga fram og vekja þessa umræðu. Bubbi bendir á að ef svona margir færust í snjóflóðum eða öðrum náttúruhamförum væru allir búnir að bregðast við og hefja landssöfnun. Þessi mál þola ekki bið.