Flugvöllur Ný byggð í Skerjafirði kallar á mótvægisaðgerðir til að tryggja öryggi Reykjavíkurflugvallar. Aðstæður til flugs munu versna.
Flugvöllur Ný byggð í Skerjafirði kallar á mótvægisaðgerðir til að tryggja öryggi Reykjavíkurflugvallar. Aðstæður til flugs munu versna. — Morgunblaðið/Árnni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þessi skýrsla staðfestir að öll byggð nálægt flugvöllum rýrir aðstæður á þeim. Byggingar á flugvöllum eins og flugskýli gera það líka.“ Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra um niðurstöður starfshóps sem hann skipaði til að meta …

Baksvið

Hörður Vilberg

hordur@mbl.is

Þessi skýrsla staðfestir að öll byggð nálægt flugvöllum rýrir aðstæður á þeim. Byggingar á flugvöllum eins og flugskýli gera það líka.“ Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra um niðurstöður starfshóps sem hann skipaði til að meta áhrif á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar. Starfshópurinn telur ekki þörf á að hætta við byggingahugmyndir í Nýja Skerjafirði en ný byggð kalli á mótvægisaðgerðir. Á meðal þeirra eru að takmarka hæð fyrirhugaðrar byggðar og skoða möguleg áhrif landslagsmótunar. Skýrslan starfshópsins var birt í vikunni.

„Þetta var tæknileg skoðun sem að mínu mati var alveg bráðnauðsynleg áður en lengra yrði haldið,“ segir Sigurður Ingi. Hann segir að starfshópurinn hafi komist að því að með ákveðnum aðgerðum sé hægt að takmarka neikvæð áhrif þannig að nýtingarhlutfalli og öryggi flugvallarins sé ekki ógnað. Þó þurfi að huga betur að þeim. Í vinnu hópsins hafi menn uppgötvað gögn sem hafi verið safnað frá 2012. „Þannig að núna fer vinna í gang við að greina þau. Þar munum við sjá nákvæmlega áhrifin af Hlíðarendahverfinu og getum lært af því gagnvart annarri byggð. Ekki bara á Reykjavíkurflugvelli heldur líka við aðra flugvelli. Þessi gögn verða óháð þessu verkefni nýtt til ráðgjafar til flugmanna við þær aðstæður sem geta skapast.“

Ný byggð undirbúin

Í úttekt verkfræðistofunnar EFLU sem vísað er til kemur fram að skjól muni aukast á flugvellinum sem skapi vandamál við flugtak og lendingar og jafnframt muni ókyrrð í lofti aukast við flugvöllinn.

Í skýrslunni segir að innviðaráðuneytið og Reykjavíkurborg hafi komist að samkomulagi um að hefja jarðvegsframkvæmdir og þar með undirbúning uppbyggingar í Nýja Skerjafirði. Sigurður Ingi segir nokkuð í það. „Þær taka einhvern umtalsverðan tíma, Jafnvel þó menn þurfi deiliskipulagsbreytingu þá er nægur tími til þess.“

Eftir miklar deilur um framtíð flugvallarins í Vatnsmýri skrifuðu Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Sigurður Ingi undir samkomulag í nóvember 2019 um möguleika á að byggja nýjan flugvöll í Hvassahrauni. Markmiðið var að fullkanna kosti á að reisa og reka þar flugvöll til að gegna hlutverki varaflugvallar, innanlandsflugvallar og flugvallar fyrir æfinga-, kennslu- og einkaflug.

Í samkomulaginu fólst að rekstraröryggi Reykjavíkurfllugvallar yrði tryggt og að hann gæti áfram þjónað innanlandsflugi þar til nýr flugvöllur væri tilbúinn. Sú leit hefur ekki borið árangur.

„Í mínum huga alla tíð hefur legið fyrir að jafnvel þó að við finnum nýtt flugvallarstæði og myndum ákveða að hefja þar uppbyggingu þá tekur slík uppbygging áratugi frá þeim degi sem slík ákvörðun er tekin. Hvorki hefur fundist flugvallarstæði né slík ákvörðun verið tekin þannig að það er nokkuð augljóst og mjög mikilvægt að Reykjavíkurflugvöllur verði rekinn í óbreyttri mynd og öryggi hans verði ekki raskað.“

Engin stefnubreyting

Í maí 2022 tók Sigurður Ingi skýrt fram að Reykjavíkurborg væri ekki heimilt að fara í uppbyggingu í grennd við Reykjavíkurflugvöll fyrr en ný staðsetning innanlandsflugs væri fundin. Vísaði ráðherra sérstaklega til skýrslu frá hollensku loft- og geimferðastofnuninni þar sem segir að loka þyrfti vellinum einstaka sinnum ef til uppbyggingar kæmi, sem myndi þá ógna flugöryggi. Er innviðaráðherra búinn að skipta um skoðun varðandi byggingaráform við Reykjavíkurflugvöll? „Alls ekki,“ segir hann, „við erum að skoða hlutina í botn og svara ýmsum spurningum.“

Fólk á landsbyggðinni sækir ýmsa nauðsynlega þjónustu til höfuðborgarinnar. Hefur regluleg niðurfelling á flugferðum ekki neikvæð áhrif? „Ég veit ekki hvort það komi til þess og veit heldur ekki hvort þessi nýju gögn hjálpa okkur í að bæta ráðgjöf þannig að það komi ekki til þess.“ Sigurður Ingi segir að menn taki mið af þeim aðstæðum sem nýjar byggingar skapi og læri að fljúga á slíka velli. Með mótvægisaðgerðunum verði nýtingu og öryggi ekki raskað meira en svo að flugvöllurinn nýtist þannig að allir geti staðið við samkomulagið frá 2019 um framtíð vallarins.

Isavia og Reykjavíkurborg hafa nú fengið það verkefni að setjast niður og finna út úr því hvað Isavia telji nauðsynlegt til að útfæra tillögur á grundvelli ábendinga í skýrslunni. Ekki liggur fyrir hvað þær koma til með að kosta eða hver greiðir fyrir þær. „Nei, þetta er verk í vinnslu.“