Anna Elínborg Gunnarsdóttir fæddist 14. apríl 1964. Hún lést 26. mars 2023.

Útförin fór fram 4. apríl 2023.

Vinátta – skilningur – samkennd – velvild

Dýpt – næmni – jákvæðni – góður hlustandi

Traust – nærvera – leiðtogi – virðing

Fegurð – auðmýkt – opið hjarta – mildi

Gjöful

Yndislega Anna jógasystir.

Þessi orð koma til okkar, þegar að við hugsum um þig - finnum áfram dýrmæta tengingu við þig,

Þegar að við lútum höfði í sorg vegna veikinda þinna og andláts.

Á sömu stundu þakklátar fyrir allt það einstaka sem að við saman uppgötvuðum á þroskaleið inn á við.

Í jóga-kennaranáminu – á því ferðalagi fundum við hjartsláttinn saman og hver um sig.

Við, nokkrar „jógasystur“ völdum að hittast áfram hvenær sem tækifæri gæfist að loknu náminu – hugleiða saman, gera jógaæfingar, syngja möntrur, borða, njóta, tala og hlusta hver á aðra.

Samverur okkar á þessum sl árum voru gefandi og okkur dýrmætar. Lærdómur og þakklæti lýstu upp stundirnar – kennarar og á sama tíma nemendur í virðingu hvor til annarrar.

Í kennaranáminu, komum við nemendur saman. Hvert og eitt okkar með ,„bakpoka“ sem í var okkar eigin einstaka saga með skrifuðum köflum sem við völdum annað hvort að sleppa eða hlúa að og byggja ofaná, skilja betur og finna sátt í samkennd og kærleika.

Nærvera þín elsku Anna var í senn mild og sterk, þroski, viska, heilbrigð sýn á holla næringu líkamans í takt við andlega uppbyggingu og vöxt. Löngun þín að skilja dýpra þínar tilfinningar og sögu, hlutverk þitt og samband við æðri mátt var fléttuð saman í fegurð og æðruleysi.

Orð þín og skoðanir á upplifun þinni í daglegu ferðalagi um lífið voru hnitmiðuð, vönduð og vandlega framborin, skoðunum þínum fylgdi enginn dómur heldur einlægni og heiðarleiki.

Þú varst Ljósberi á þessu ferðalagi með okkur –

Þú ert ljós og kærleikur.

SatNam. Okkar dýpstu samúðarkveðjur kæra fjölskylda.

Jógasystur,

Unnur Huld, Guðlaug, Margrét, Ragnhildur,
Sólveig og Anna María.