Kvika „Sköpunin er ekki eins og óvirkt eldfjall sem gýs stöku sinnum af miklum krafti heldur frekar hraunkvika sem rennur stöðugt,“ segir Anderson.
Kvika „Sköpunin er ekki eins og óvirkt eldfjall sem gýs stöku sinnum af miklum krafti heldur frekar hraunkvika sem rennur stöðugt,“ segir Anderson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leið bresku framúrstefnurokksveitarinnar Jethro Tull liggur til Íslands í áttunda sinn og kemur hún fram í Eldborg Hörpu á fimmtudag, 4. maí, kl. 20. Það verða þrettándu tónleikarnir hér. Nýjasta plata sveitarinnar, RökFlöte, kom út fyrir fáeinum…

Viðtal

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Viðtal

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidur@mbl.is

Leið bresku framúrstefnurokksveitarinnar Jethro Tull liggur til Íslands í áttunda sinn og kemur hún fram í Eldborg Hörpu á fimmtudag, 4. maí, kl. 20. Það verða þrettándu tónleikarnir hér. Nýjasta plata sveitarinnar, RökFlöte, kom út fyrir fáeinum dögum og er þar aldeilis að finna norræna tengingu.

„Vinnutitillinn var RockFlute,“ segir Ian Anderson sem frægur er fyrir að leiða sveitina með einkennandi flautuleik sínum. „Ég hafði sagt við plötuútgáfuna að þetta yrði rokkplata með meðlimum Jethro Tull sem myndi innihalda mikið af flautuleik. Það var upphafspunkturinn; rokk og flauta. En eftir fyrsta daginn sem ég vann í plötunni var ég ákveðinn í að hún skyldi snúast um fjölgyðistrú. Ég hafði velt fyrir mér grískri goðafræði og rómverskri en ég heillaðist af áskoruninni sem fylgdi því að skrifa um norræna goðafræði.“

Anderson bætir við að það sé áskorun að vinna með norræna goðafræði þar sem þungarokkssveitir hafi gert það ótal sinnum auk þess sem hugmyndir um yfirburði norræna kynstofnsins og karlmannlega eiginleika víkinga hafi heillað menn á borð við Heinrich Himmler.

„Það eru ýmiss konar óheppileg hugrenningatengsl þegar kemur að norrænni goðafræði. En ég ákvað að taka þeirri áskorun að reyna að tækla það með gagnrýnni sýn á söguna. Ég sneri mér að Snorra-Eddu og sögum sem voru skrifaðar niður á 11. öld og ákvað að einbeita mér að þeim. Næstu dagar einkenndust af mikilli rannsóknarvinnu.

Stones er ófrumleg stæling

Fyrri hluti laga eitt til ellefu er hlutlaus lýsing á norrænu goði, persónuleika og hlutverki, en í seinni hlutanum tengi ég þær lýsingar við lífið sem ég þekki í samtímanum. Mér fannst það áhugaverð leið til að draga fram hliðstæður milli norrænna goða og mannlegs eðlis, þess góða, slæma og stundum óhugnanlega í veröld samtímans. Ég er hrifinn af hliðstæðum sannleik, líkingamáli og myndhverfingum. Ég reyni samt að skrifa á gáskafullan máta, ég er ekki að reyna að lokka fólk í átt að heiðni. Heiðni er áhugavert viðfangsefni sem hluti af almennri trúarsögu og ég hef haft áhuga á því frá unglingsárum. En ég verð að viðurkenna að mér finnst heiðni sem slík, allt þetta með að klæða sig upp og taka þátt í helgisiðum, frekar kjánaleg. Svo ætlunin með plötunni er sannarlega ekki að ýta fólki í átt að heiðni.“

Hvers konar tónlist er að finna á plötunni?

„Jethro Tull var lýst í bresku pressunni sem framsæknu rokkbandi og mér fannst það góð lýsing á því sem mig langar að gera. Því framsækið rokk er tónlist sem nýtir klassíska tónlist, þjóðlagatónlist og djass. Reyndar ekki blús í mínu tilfelli, því ég skildi blúsinn eftir á unglingsárunum þegar ég áttaði mig á því að ég gæti ekki orðið sannur blústónlistarmaður, þar sem það er þjóðlagatónlist blökkufólks í Bandaríkjunum. Mig langaði að vera nær evrópskum rótum mínum og gera tónlist sem var sett saman úr ýmsu sem er nær mínu heimalandi,“ segir Anderson.

„Mig langar ekki að gera bandarískt rokk og ról því ég er einfaldlega ekki bandarískur. Bandaríkjamenn geta þefað uppi eftirlíkingar. Ég furðaði mig þess vegna á því að þeir skyldu gleypa við Rolling Stones því þeir voru svo augljós eftirlíking. Ófrumleg stæling á tónlist blökkumanna í Bandaríkjunum og sungin með hræðilegum bandarískum uppgerðarhreim. Ég get skilið af hverju Bandaríkjamenn kunnu að meta Bítlana, þeir voru ekta, bara hópur af strákum frá Liverpool. En mér hefur alltaf þótt þeir sem herma eftir og syngja með asnalegum hreim svolítið fáránlegir.“

Unnur Birna les á plötunni

Yfirskrift tónleikanna er einmitt The Prog Years, ár framúrstefnutónlistarinnar. Hvers mega gestir vænta af tónleikunum í Hörpu?

„Ég get ekkert sagt um hvers þeir vænta en ég get sagt þér hvað þeir fá hvort sem það uppfyllir væntingar þeirra eða ekki. Þeir gætu vænst þess að heyra bestu smelli Queen eða valdar sinfóníur eftir Beethoven en þeir fá það ekki. Þeir fá hins vegar úrval af lögum Jethro Tull frá sjö ólíkum áratugum; frá 7. áratugnum til dagsins í dag. Lögin eru hvert um sig eitthvað sem kalla má framsækið rokk.“

Íslenska söngkonan Unnur Birna Björnsdóttir á svolítinn þátt í gerð plötunnar.

„Hún er sú eina sem ég þekki á Íslandi og gat beðið að flytja texta til að hefja plötuna og enda hana. Ég held að ég hafi átt inni hjá henni greiða. Ef hún hefði sagt nei þá hefði ég þurft að endurskrifa plötuna að einhverju leyti. Ég gældi við hugmyndina um að reyna að ná rétta framburðinum á forníslensku en ég hugsaði með mér að það myndi koma jafn fáránlega út og þegar Mick Jagger reynir að hljóma bandarískur.“

Jethro Tull gaf líka út plötu í fyrra, The Zealot Gene, og er önnur plata væntanleg á næsta ári. Sem sagt þrjár plötur á þremur árum.

„Ég hef svo sem ekkert orðið innblásnari en venjulega. Þetta rennur bara út, skapandi djús sem seytlar stöðugt. Sköpunin virkar ekki eins og óvirkt eldfjall sem gýs stöku sinnum af miklum krafti heldur frekar hraunkvika sem rennur stöðugt. Mér finnst það góð samlíking. Að sköpun sé eitthvað sem kraumar undir niðri og maður geti síðan tappað af eins og þegar maður borar niður í jörðina til þess að finna heitt vatn til að knýja áfram rafala og halda húsum heitum. Að þetta séu yfirveguð viðbrögð við hverfulum efniviði til þess að búa til orku. Þannig held ég að hið skapandi flæði sé fyrir fólk sem gerir þetta reglulega og sem ævistarf.“

Vill versta veitingastaðinn

Um 70 tónleikar eru á dagskrá hjá Jethro Tull á árinu.

„Ég hef ekki gaman af sjálfum ferðalögunum, það er svo mikil tímaeyðsla, að bíða á flugvöllum, koma sér til og frá flugvöllum. En það er annað mál að leika á tónleikum, til þess er ég kominn. Og eins ef það er auðvelt og öruggt að fara út fyrir hótelið, þá er það líka góður hluti dagsins. Ég reyni að gera það hvar sem ég kem, ganga um í klukkutíma eða tvo og heimsækja dómkirkju eða listasafn. Og ósjaldan hitti ég aðra hljómsveitarmeðlimi á þeim stöðum að gera akkúrat það saman. Við viljum allir fá smá tilfinningu fyrir menningu hverrar borgar fyrir sig. Það er góður partur af deginum en er því miður stuttur því ég þarf alltaf að grípa hádegismat, fara í hljóðprufur og spila sjálfa tónleikana. Svo þarf ég oftar en ekki að leggja af stað eitthvað annað klukkan sex eða sjö morguninn eftir. Ég hef komið oft til Íslands en ég hef aldrei haft tíma til að vera túristi og skoða mig um.“

Stoppið verður stutt í þetta sinn líka. „Ég er þó með lista af hlutum sem mig langar að gera en ég ætla ekki að upplýsa um hvað það er því ég vil gera það einn. Mér finnst almennt gott að vera einn og upplifa hluti án þess að einhver sé að blaðra. Mér finnst gott að vera með köttunum mínum því maður tengist þeim á einhvern andlegan hátt. Ég fer með þeim í göngutúr því þeir hafa tilhneigingu til að sleppa því að tala. Mér finnst konan mín líka ágæt því við getum bæði talað saman og þagað saman,“ segir Anderson og bætir við að lokum: „Ég hlakka til að heimsækja versta indverska veitingastaðinn í Reykjavík. Ég ætla að finna hann í von um að hann verði galtómur og ég geti fengið að borða í friði.“