Jóhanna Birna Sigurðardóttir, Didda, fæddist 10. nóvember 1942 á Siglufirði. Hún lést 17. apríl 2023 í Reykjavík.

Foreldrar Jóhönnu voru hjónin Lovísa Guðrún Sigurbjörnsdóttir frá Langhúsum í Fljótum, f. 20.1. 1915, d. 16.8. 1995, og Sigurður Magnússon frá Grund í Svarfaðardal, f. 8.1. 1910, d. 7.2. 1979. Jóhanna var yngra barn þeirra hjóna en eldri var Magnús Þór, f. 4.3. 1938, d. 16.5. 2005, símvirki í Reykjavík.

Eftirlifandi eiginmaður Jóhönnu er Birgir Óskarsson, f. 21.6. 1939, sonur hjónanna Henríettu Bjargar Berndsen, f. 7.11. 2013, d. 15.2. 1998, og Óskars Sumarliðasonar, f. 29.7. 1904, d. 23.7. 1992. Þau Birgir eiga dæturnar Bylgju, f. 1962, gift Hauki Þ. Haraldssyni, og Sigrúnu, f. 1964, gift Ásgeiri E. Ásgeirssyni. Jóhanna á fimm barnabörn og þrjú langömmubörn. Dæturnar búa báðar í Reykjavík ásamt eiginmönnum sínum og fjölskyldum en elsta barnabarn Jóhönnu, elsti sonur Bylgju og Hauks, býr í Noregi með sinni fjölskyldu.

Jóhanna byrjaði ung að starfa heima á Siglufirði þar sem hún lauk skóla með gagnfræðaprófi. Hún starfaði þar á símstöðinni er hún kynntist Birgi sem var loftskeytamaður á togaranum Elliða SI-1. Fjölskyldan flutti til Reykjavíkur 1963 þar sem Birgi bauðst vinna á fjarskiptastöðinni í Gufunesi og var heimili þeirra í Laugarnesi. Árið 1965 flutti fjölskyldan svo að Gufuskálum á Snæfellsnesi þangað sem Birgir var ráðinn tæknimaður og ólust dæturnar þar upp og gengu í barnaskóla á Hellissandi. Jóhanna og dæturnar fluttu svo til Reykjavíkur 1976 vegna skólagöngu dætranna og voru þar á vetrum en á Gufuskálum yfir sumartímann þar sem Birgir vann ennþá, en hann fékk starf syðra 1980 og áttu þau heimili í Reykjavík eftir það. Í Reykjavík starfaði Jóhanna á ýmsum stöðum. Hún var mikil hannyrða- og handavinnukona, hún hafði ánægju af ferðalögum til útlanda, bæði með ferðaskrifstofum og á eigin vegum þeirra Birgis. Síðasta utanlandsferð Jóhönnu var til Tenerife í boði dætranna seint sl. haust, í tilefni stórafmælis hennar, og var Birgir með líka. Æskuheimili Birgis í Búðardal eignuðust þau 1998 og síðustu jól og nýár voru hennar síðustu dagar á Grund í Búðardal.

Útför Jóhönnu fór fram í kyrrþey 27. apríl 2023.

Í dag kveð ég elsku ömmu mína, Jóhönnu Birnu Sigurðardóttur. Amma var aldrei kölluð neitt annað en Didda. Ég minnist þess hvað mér fannst einkennilegt að komast að því, um það leyti sem ég var að hefja grunnskólanám, að amma héti í raun Jóhanna en ekki Didda. Hún hefur eflaust sjálf kannast við þá tilfinningu en hún var skírð mun síðar en almennt tíðkast og sagði hún prestinum sjálf hvað hún átti að heita þegar að því kom.

Það var alltaf gott að heimsækja ömmu. Aðeins Breiðholtsbrautin skildi okkur að þegar ég var að vaxa úr grasi og því var stutt að fara til hennar og afa þar sem ávallt var tekið vel á móti manni og aldrei þörf á að gera boð á undan sér. Þær heimsóknir hófust með faðmalagi og fylgdi því jafnan upptalning á öllum þeim mat og drykk sem reiðubúinn var eða hægt var að útbúa. Það að vera saddur var engin fyrirstaða fyrir því að fá sér aðeins meira, en ef maður sagðist ekki geta meir var svarið oftast nær ”það er nú gott, þú ert þá ekki svangur á meðan”. Árið 2020 styttist vegalengdin á milli okkar til muna þegar við fjölskyldan fluttum í stigaganginn við hliðina á ömmu og afa og þurfti þá aðeins nokkur skref til þess að heimsækja þau þar sem nýlagað eða nýupphitað kaffið beið eftir manni. Þá var einnig ómetanlegt að geta stokkið yfir til þeirra með langömmubarnið sem fæddist í september 2021 og var hún alltaf glöð að hitta langömmu sína.

Hún amma var ákveðin kona og hafði sterkar skoðanir á ýmsu. Hún ætlaði til að mynda aldrei að keyra Hvalfjarðargöngin, aldrei að nota debetkort, aldrei að fara í Hörpuna og aldrei um borð í skútuna hans afa. Hún fór aldrei í Hörpuna né skútuna en fjölmargar ferðir fór hún í gegnum Hvalfjarðargöngin og urðu þær sennilega næstum því jafn margar og debetkortafærslurnar. Þá var ferðinni oftast heitið í Búðardal á æskuheimili afa, Grund, og dvöldu þau þar langdvölum á sumrin og einnig mikið á öðrum árstímum. Þaðan á ég margar góðar minningar með ömmu og afa og var það ákveðinn hápunktur sumarsins þegar ég var yngri að komast til þeirra í Búðardal. Þar var oft mikill gestagangur og má segja að þar hafi ríkt fjölmenning enda voru margir gestanna tvímenningar, þremenningar og jafnvel fjórmenningar. Amma kunni skil á öllum þeim ættartengslum og var fús til þess að þylja þau upp fyrir mig þótt ég ætti til með að gleyma þeim jafn óðum. Það voru þó ekki einungis ættingjar sem voru gestkomandi heldur stóð húsið opið fyrir svo gott sem öllum.

Amma var vingjarnleg og mikið fyrir að spjalla. Síðustu árin var símanúmerið mitt ranglega skráð í símanum hennar sem númer hjá góðri vinkonu hennar og fann ég ávallt hlýjuna í röddinni þegar hún svaraði í símann haldandi að ég væri vinkonan að hringja. Ekki minnkaði þó hlýjan þegar hún áttaði sig á því að þetta væri í dóttursonurinn á hinum endanum. Ég mun ávallt sakna þess að geta ekki lengur tekið upp tólið og heyrt í henni, eða labbað yfir, en minningarnar eru allar rétt skráðar hjá mér og get ég glaður leitað í þær.

Birgir Hauksson.