Elín Friðbjörnsdóttir fæddist í Stefánshúsi (Ingubæ) í Vopnafirði 14. febrúar 1936. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 4. apríl 2023.

Foreldrar hennar voru hjónin Kristján Friðbjörn Einarsson, f. 25.2. 1896, d. 16.11. 1970, og Gunnhildur Ingiríður Grímsdóttir, f. 7.6. 1900, d. 11.1. 1968.

Systkini Elínar eru 12: Ólafur, f. 1926, d. 2004, Steinunn Júlía, f. 1928, d. 2022, Helga, f. 1930, d. 1980, Grímur, f. 1931, d. 2014, Kristján, f. 1931, d. 1959, Margrét Elísabet, f. 1932, d. 2021, Magnea Kristín, f. 1934, d. 2004, eftirlifandi systkini eru Stefanía, f. 1937, Einar, f. 1938, Bergþóra, f. 1940, Geir, f. 1943, og Sigurður, f. 1948.

Fyrri eiginmaður Elínar var Stefán Leifsson, f. 1940, d. 2019. Þau skildu 1975.

Hinn 13. janúar 2018 giftist Elín Víglundi Pálssyni, f. 25.5. 1930, d. 28.5. 2018. Foreldrar hans voru Svava Víglundsdóttir, f. 25.9. 1906, d. 13.1. 1935, og Páll Metúsalemsson, f. 24.8. 1899, d. 11.6. 1975, frá Refsstað í Vopnafirði.

Börn Elínar: Ester Jóhannsdóttir, f. 1952, maki Albert Már Steingrímsson, f. 1949. Grétar Ólafsson, f. 1960, maki Kolbrún Steingrímsdóttir, f. 1961. Kristján Stefánsson, f. 1964, maki Sólveig Erla Hinriksdóttir, f. 1967. Selma Dögg Víglundsdóttir, f. 1975, maki Geirmundur Júlíusson Hauksson, f. 1975, Hilmir Víglundsson, f. 1976, maki Sólveig Andrea Jónsdóttir, f. 1974.

Börn Víglundar frá fyrra hjónabandi: Uppeldissonur Aðalgeir Bjarkar, f. 1945, d. 2017. Svanborg, f. 1953, maki Ellert Árnason, f. 1946, d. 2022. Svava, f. 1955, maki Unnsteinn Arason, f. 1941. Einar, f. 1957, maki Jóhanna Rögnvaldsdóttir, f. 1966. Anna Pála, f. 1960, maki Gunnar Róbertsson, f. 1954.

Afkomendur Elínar eru 26 talsins.

Útför hennar fer fram frá Vopnafjarðarkirkju í dag, 29. apríl 2023, klukkan 13.

Elsku mamma og tengdamamma.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Takk fyrir allt.

Þín

Selma Dögg og
Geirmundur.

Elsku Ella mín, það er komið að kveðjustund. Í dag göngum við með þér síðustu sporin í þessu jarðríki. Allt hefur sinn tíma og allt hefur sinn endi. Margt er að minnast og margs er að sakna. Þú hefur verið hluti af lífi mínu frá því að ég var barn. Þú varst mér alltaf ljúf og góð, sama á hverju gekk. Ella mín, við áttum oft samtöl sem við deildum og enginn vissi hvað innihéldu. Þessi samtöl fara með þér og þau fara með mér.

Alla þína erfiðleika og brattar brekkur í lífinu barstu í hljóði. Þú varst mæt kona, æðrulaus og gekkst örugg og hljóðlát til þinna verka. Aldrei sá ég þig reiða eða í vondu skapi, eins og sagt er. Eftir að þið pabbi hófuð sambúð og elsku litla Selma systir fæddist varð hún, og er enn, minn augasteinn. Þá urðu tengsl okkar enn dýpri. Busi bróðir kom svo fljótt á eftir. Þessi systkini mín urðu mér líka eins og mín eigin börn, þar sem samgangur við mín börn var mjög mikill. Það má segja að Hamrahlíð 18 og Hótel Tangi hafi verið eitt heimili fyrir þessum börnum í uppvexti sínum enda öll nálægt í aldri.

Ella amma og afi voru alltaf tilbúin fyrir allan hópinn og fyrir það er ég þér og pabba óendanlega þakklát. Það var oft glatt á hjalla þegar allir komu saman, mikið var þá hlegið, pabbi sagði sögur frá sínum uppvaxtarárum og prakkarastrikum, allir skemmtu sér og þú líka. Þegar þér fannst nóg komið sagðir þú með þínum sérstaka tón „Víglundur eða Pálsson“. Mér er hann svo í fersku minni þessi tónn ef þér fannst pabbi taka of djúpt í árinni. Það var ekki hávaði eða læti; aðeins þessi sérstaka áhersla í röddinni.

Þessir tímar eru svo eftirminnilegir. Ég minnist þess þegar við öll komum saman á hótelinu á gamlárskvöld, sem var orðin venja hjá okkur, og stundum buðum við fleirum. Þessi kvöld voru svo yndisleg.

Alltaf voruð þið pabbi til staðar fyrir mig í gleði og á erfiðum tímum. Til dæmis þegar mér datt í hug að stíga á fjalirnar og kanna leiklistarhæfileika mína og fara í leikferðalag, þá var ekkert mál að flytja niður á hótel í átta vikur og hjálpa mér með reksturinn og krakkana. Þið Dúa, með pabba á kantinum, leystuð þennan tíma eins og ekkert væri. Seinna sagðir þú mér að þér hefði þótt virkilega gaman að hafa gert þetta og oft minntumst við á þennan tíma. Þegar erfiðleikatímar voru hjá mér var það ekki málið að ég kæmi og flytti í kjallarann hjá ykkur pabba. Þá tókuð þið mig brotna og litla og byggðuð mig upp, þar áttir þú stóran þátt elsku Ella mín, svo vel hlúðir þú að mér.

Elsku Ella mín, ég gæti sagt og skrifað miklu meira en stundum er betra að eiga minningarnar fyrir sig, en eitt vil ég segja: hjartans þakkir fyrir systkini mín og þín börn, Estu, Grétar og Kidda, sem eru í lífi mínu og ég lít á sem mína fjölskyldu. Ég veit að pabbi tekur glaður á móti þér og þið munuð njóta þess að vera áfram saman í Sumarlandinu. Megi Guðs englar varðveita minningu þína elsku Ella, hún lifir í hjörtum okkar. Ég votta okkur öllum samúð með virðingu og þakklæti.

Þín

Svava Víglundsdóttir.

Elsku Ella amma. Í huga mínum og hjarta geymi ég dýrmætar og góðar minningar.

Mikið var alltaf indælt og ljúft að koma til ykkar Víglundar afa í rólegheit í Hamrahlíðina. Þar átti ég griðastað og var mikill samgangur á milli heimila. Voru Selma frænka og Busi frændi eins og uppeldissystkini Fannars, Katrínar og mín enda erum við fimm frændsystkini fædd á fimm ára tímabili og yndislegt að minnast gleðistunda og ógleymanlegra uppátækja okkar og annarra frændsystkina.

Á unglingsárunum hafði ég margar spurningar um tilvist mína, tengsl við ættingja og fleira, sem gat stundum verið svolítið flókið fyrir unga manneskju.

Alltaf gat ég treyst því, amma mín, að hjá þér fékk ég sönn og heiðarleg svör sem ég fékk hvergi annars staðar. Gat spurt að öllu sem mér datt í hug og vissi að okkar spjall og samveru áttum við í trúnaði.

Ég vildi að stundirnar með þér hefðu verið fleiri síðustu ár en ég ylja mér við minningarnar.

Þakka þér fyrir umhyggjuna, elskuna og kærleikann í æsku minni og alla tíð.

Ég elska þig amma,

þú ert mér svo kær.

Til tunglsins og til baka,

ást mín til þín nær.

Sögur þú segir,

og sannleikann í senn.

Þú gáfuð og góð ert,

en það vita flestir menn.

Ég elska þig amma,

þú færir mér svo margt.

það er ætíð hægt að sanna,

að um þig sé ljós bjart.

(rósin)

Sendi ættingjum og ástvinum hugheilar samúðarkveðjur. Ég bið algóðan guð að gefa ykkur styrk, ljós og frið á kveðjustund.

Jóhanna Bjarnadóttir (Hanna).