Dagmál Oddvitarnir ræddu rekstur borgarinnar.
Dagmál Oddvitarnir ræddu rekstur borgarinnar. — Morgunblaðið/Hallur
Á árunum 2014-2022 fjölgaði stöðugildum Reykjavíkurborgar úr rúmlega 6.800 í ríflega 8.500, eða um 25%, á sama tíma og íbúum fjölgaði um 15%. Launakostnaður borgarinnar hefur nær tvöfaldast frá árinu 2014

Á árunum 2014-2022 fjölgaði stöðugildum Reykjavíkurborgar úr rúmlega 6.800 í ríflega 8.500, eða um 25%, á sama tíma og íbúum fjölgaði um 15%. Launakostnaður borgarinnar hefur nær tvöfaldast frá árinu 2014. Ársreikningur Reykjavíkurborgar var birtur á fimmtudag, en þar kom fram gríðarlegur hallarekstur borgarinnar, margfaldur á við það sem gert var ráð fyrir í áætlunum meirihlutans í haust. Í Dagmálum Morgunblaðsins, sem áskrifendum voru aðgengileg á mbl.is í morgun, ræddu þeir Andrés Magnússon og Stefán Einar Stefánsson við Dag B. Eggertsson borgarstjóra og Hildi Björnsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn.

Þreytandi og dónaleg orðræða

Dagur vill ekki viðurkenna að óvarlega hafi verið farið í rekstri Reykjavíkurborgar. „Ég held að almennt séu sveitarfélög, ekki bara Reykjavík, að fara vel með fé,“ segir hann. „Þau eru oftast að hagræða og spara til þess að geta gert betur og meira í skólum eða velferð eða menningu. Ef þú berð saman sveitarfélögin, þá er ekkert sveitarfélag sem kemst nálægt því að verja fjármunum til heimilislausra eða viðkvæmra málaflokka í velferð eins og Reykjavíkurborg,“ segir Dagur.

Hildur segist ekki sammála greiningu borgarstjóra og segir það vera þreytandi og dónalegt að málaflokki fatlaðs fólks sé kennt um hallarekstur borgarinnar líkt og Dagur hafi gert. „Við höfum séð þessi teikn á lofti auðvitað í mörg ár og núna er svolítið margra ára útgjaldafyllerí að springa í andlitið á hópnum. Það er staðan sem við erum í,“ segir hún og bætir við að stóru fréttirnar séu að borgin hafi farið 13 milljörðum fram úr áætlun í A-hluta starfseminnar árið 2022.