Joe Biden sækist eftir endurkjöri en þar sem Elli kerling hefur sótt hann heim er alls engin ástæða til að fagna.
Joe Biden sækist eftir endurkjöri en þar sem Elli kerling hefur sótt hann heim er alls engin ástæða til að fagna. — AFP/Jim Watson
Við fáum líklega seint að vita hverjir það eru sem raunverulega stjórna í Hvíta húsinu en ljóst er að það er ekki forsetinn.

Sjónarhorn

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Það er eitthvað í stjórnmálaumhverfinu sem gerir að verkum að þaulsætnir stjórnmálamenn, með hóp af já-fólki í kringum sig, fara að trúa um of á eigið ágæti og telja sig eiga brýnt erindi við kjósendur þótt blasa eigi við þeim að dagsverkinu er lokið. Allavega virðist dómgreind stjórnmálamanna sljóvgast merkilega mikið eftir því sem þeir eru lengur við völd. Þar getur ellin líka kvatt dyra með sínum leiðu kvillum.

Einmitt þetta á við um Joe Biden Bandaríkjaforseta. Sem stjórnmálamaður hefur hann örugglega á sínum tíma búið yfir snerpu, áræði og drifkrafti. Nú er hann orðinn gamall maður sem mismælir sig ítrekað í ræðum, ranglar um svið eftir að hafa lokið máli sínu, veit ekki hvert hann á að fara og horfir í ráðleysi á aðstoðarmenn sína. Stundum er eins og hann viti vart hvar hann er. Þetta er dapurleg sjón sem betra væri að hlífa umheiminum við. Það stendur hins vegar ekki til því nú á að endurtaka leikinn fjögur ár enn.

Bandaríkjaforseti er áttræður. Á þeim aldri eru hinir lánsömu enn ungir í anda og geta látið til sín taka. Aðrir eru það ekki, eins og núverandi Bandaríkjaforseti. Hann þjáist greinilega af elliglöpum og fyrir honum ætti ekki annað að liggja en að setjast í helgan stein. Það vill hann hins vegar alls ekki og segist eiga ýmsu ólokið. Hann er umvafinn ráðgjöfum sem nú, þegar forsetinn þarf sárlega rétta ráðgjöf, eru ófærir, eða ófúsir, að veita hana. Þannig fer þegar háttsettir menn raða í kringum sig já-fólki, þeim er einungis sagt það sem þeir vilja heyra.

Joe Biden hefur greinilega ekki andlega orku til að sinna starfi sínu eins og vera ber. Við fáum líklega seint að vita hverjir það eru sem raunverulega stjórna í Hvíta húsinu en ljóst er að það er ekki forsetinn.

Á hliðarlínunnni stendur síðan hinn ægilegi Donald Trump, afar slunginn lýðskrumari. Samkvæmt öllum almennum siðalögmálum ætti að vera útilokað að slíkur maður yrði forseti Bandaríkjanna en honum tókst það við æpandi fögnuð stuðningsmanna sína og ætlar nú að reyna aftur. Enda er uppgjöf ekki til í huga Donalds Trumps. Það er eitt af þeim mörgu vandamálunum sem fylgja tilvist hans.

Það er engin furða að fjölmargir spyrji sig hvað sé að gerast í Bandaríkjunum. Annars vegar höfum við ágætan mann sem því miður ræður ekki lengur við starf sitt því hann hefur glatað andlegri orku vegna elli. Af einhverjum ástæðum virðist ekki mega tala um það. Hins vegar höfum við veruleikafirrtan egóista og dóna sem veður áfram í algjöru skeytingarleysi um umhverfi sitt og hugar einungis að eigin hag. Þetta eru tveir afar vondir kostir, þótt annar sé reyndar skárri en hinn. Það er nefnilega betra að hafa viljalausan en velviljaðan mann í Hvíta húsinu heldur en skúrk mann sem spriklar af orku og áhuga á að koma glórulausum stefnumálum í framkvæmd. Um leið er þó svo átakanlega ljóst að hvorugur kosturinn er góður.

Það er verulega leitt og erfitt að geta ekki orðað þetta á kurteisari hátt, en þegar kemur að næstu forsetakosningum í Bandaríkjunum þá er staðan ömurleg og engin meðmæli með þessu heimsveldi. Ekki kemur á óvart að svo virðist sem Bandaríkjamenn séu almennt nokkuð skömmustulegir vegna stöðunnar og vilji hvorugan manninn kjósa.

Þótt margt megi gagnrýna í Bandaríkjunum hefur löngum verið horft til þeirra með ákveðinni virðingu og velvilja. Sá velvilji er sannarlega enn til staðar. En eiga Bandaríkin virkilega ekki eitthvað frambærilegra fram að færa í forsetakosningum en þessa tvo öldunga? Það getur ekki annað verið.

Nú er að vona, Bandaríkjanna og umheimsins vegna, að mál muni þróast á annan hátt en nú blasir við. Það skiptir máli fyrir heiminn allan að í Hvíta húsið veljist maður sem ræður við hið mikilvæga starf sem honum er treyst fyrir. Slíkur maður á að vera til en hvort hann komi í leitirnar á næstunni er allt annað mál.