Erlendur Þorsteinn Birgisson fæddist 29. júní 1954. Hann andaðist 4. apríl 2023.

Erlendur var jarðsunginn 24. apríl 2023.

Elsku Elli okkar er látinn eftir stutt veikindi og munum við sakna hans mikið hér á Drekavöllum. Elli kom í þjónustu til okkar á Drekavelli árið 2002, hann bjó með vinum sínum Magnúsi og Þorláki í nokkur ár og urðu þeir þrír góðir vinir. Elli flutti í sjálfstæða búsetu á Drekavöllum árið 2014, þar rættist langþráður draumur hans um að búa einn í sinni íbúð. Þeir hittust í matarboði félagarnir vikulega eftir að Elli flutti út frá þeim Magnúsi og Þorláki.

Elli var ákveðinn og vissi hvað hann vildi, hann var með húmor og það voru sérstaklega litlu hlutirnir sem gerðu hann glaðan. Hann gat hlegið mikið að óförum annarra.

Elli kunni ekki á klukku en vissi alltaf hvað tímanum leið og var með tímasetningar á ferðaþjónustubílum á hreinu, hvenær starfsmenn áttu að vera mættir í vinnu og hvaða tíma dags hann vildi fara í bíltúr, fá sér kvöldmat og fara á fætur á morgnana. Elli þekkti ekki endilega vikudaga en var alltaf með skipulag hvers dags fyrir sig á hreinu. Elli var með allt á hreinu, hvað hann vildi og hvenær.

Hann var mjög hrifin af gúmmíefni og elskaði að vera í gúmmískóm og fékk starfsfólk oft með sér í að kíkja í búðir sem seldu gúmmískó eða regnkápur og átti hann ófáa gúmmískó og regnkápur í gegnum árin.

Leður var líka í miklu uppáhaldi og leðurvesti, leðurjakki eða leðurkápa í hvaða veðri sem var, hvort sem var 15 gráðu hiti eða 15 gráðu frost. Elli var líka mjög lausnamiðaður, eitt sinn langaði hann í leðurvesti, hann átti leðurjakka og því var lausnin að klippa ermarnar af honum og þar með var komið leðurvesti. Hann klippti líka gúmmístígvél í gúmmískó.

Ella leiddist mikið að bíða og það reyndist honum líka erfitt oft að bíða, en hann gat skemmt sér yfir því að horfa á aðra bíða, til að mynda þegar var keyrt fram hjá löngum biðröðum í umfelgun, þá var Ella skemmt.

Elli naut þess að búa hér á Völlunum, hann hafði sína eigin íbúð og rættist stór draumur þegar hann eignaðist bíl, hann var ekki með bílpróf sjálfur en hans ástríða var að fara með starfsmönnum í langan bíltúr, niður Laugaveginn eða Álftanesið. Elli eignaðist tvo bíla; fyrri bíllinn var hvítur jepplingur og þegar hann fékk þá hugmynd að kaupa sér rauðan bíl var ekkert annað hægt en finna út úr því. Elli og starfsmaður fóru að skoða rauða bíla, fóru stuttan prufurúnt og Elli var gríðarlega ánægður með þennan rauða bíl, og þegar hann koma á bílasöluna aftur tók hann upp debetkortið sitt og ætlaði að kaupa þennan bíl, sem hann svo gerði.

Hann sýndi umhverfinu og fólki áhuga og var mikið snyrtimenni og vildi hafa heimili sitt fallegt og snyrtilegt. Hann var góður í að lesa fólk og forðaðist ágreining við aðra. Oft var talað um að Elli hefði haft gaman af því að búa á Laugaveginum því hann myndi njóta sín best úti á svölum með kaffi og köku og fylgjast með fólkinu labba Laugaveginn.

Við starfsfólk Drekavalla eigum margar góðar minningar um Ella og verður hans sárt saknað.

Fyrir hönd starfsfólks búsetuþjónustu Drekavalla,

Steinunn Óskarsdóttir.