Gunnar Pétur Ólason fæddist í Bjarnaborg á Ísafirði 14. desember 1933. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða 15. apríl 2023.

Foreldrar Gunnars voru Guðrún H.H. Ásgeirsdóttir, f. 31.5. 1902, d. 11.2. 1935, og Óli Pétursson, f. 14.4. 1901, d. 21.10. 1988. Fósturmóðir Gunnars var Sveinsína V. Jakobsdóttir, f. 21.1. 1909, d. 5.5. 1983.

Gunnar var einn 10 systkina. Hin eru Ásgeir E.S., f. 26.4. 1925, d. 22.1. 2002, Guðmundur, f. 1.9. 1927, d. 17.4. 2009, Elín V.J., f. 22.10. 1929, d. 1.2. 1996, drengur, f. 7.9. 1932, d. 7.9. 1932, drengur, f. 31.12. 1934, d. 31.12. 1934, Kristján Þ., f. 15.10. 1937, d. 3.7. 1996, Birgir S., f. 23.11. 1940, Sigríður J.M., f. 9.9. 1942, d. 14.2. 1943, og Jakob J., f. 20.10. 1946.

Gunnar kvæntist hinn 26.12. 1962 Guðbjörtu Kristínu Jónu Jónsdóttur, f. 4.2. 1934, d. 19.8. 2012, sem starfaði við aðhlynningu á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði. Börn þeirra eru: 1) Guðmundur Bjarni, f. 17.9. 1952, kvæntur Láru M. Lárusdóttur. Dætur þeirra: Kristín G. og Bryndís. Fyrir átti Lára tvo syni úr fyrra hjónabandi, þá Lárus M.K. og Jóhann D. 2) Garðar Smári, f. 4.4. 1959, kvæntur Hafdísi A. Gunnarsdóttur. Börn þeirra: Kristinn Þ., Ágúst B. og Þóra B.A. Fyrir átti Garðar soninn Gunnar P. 3) Kristín Guðrún, f. 27.8. 1962, gift Elíasi Jónatanssyni. Börn þeirra: Gunnar M., Berglind H. og Erna K. 4) Brynjar Már, f. 5.5. 1965.

Langafabörn Gunnars eru nú 23 talsins og langalangafabörnin eru tvö.

Gunnar bjó fyrstu mánuðina á fæðingarstað sínum í Bjarnaborg en fjölskyldan flutti svo í Fell og þaðan í Hannibalshús við Hrannargötu á Ísafirði. Rúmlega ársgamall missti hann móður sína og fór í fóstur um tíma í Fremri-Hnífsdal þar sem Elín I. Eyþórsdóttir gætti hans en flutti síðan aftur til fjölskyldu sinnar, þá á Hlíðarveg á Ísafirði, og gekk í skóla þar í bæ. Hann byrjaði á sjó 13 ára í sumarstarfi, en 15 ára fór hann á vetrarvertíð og lærði þá grunn í vélstjórn. Sjómennska var hans aðalstarf fram til þrítugs en þá hóf hann nám við Iðnskólann og lærði smíðar. Hann vann þá á verkstæði Daníels Kristjánssonar, sem jafnframt var meistarinn hans, og kláraði Gunnar húsasmíðameistarann. Um 1990 bjuggu þau hjónin, Gunnar og Stína, um tveggja ára skeið í Reykjavík, ásamt Brynjari, yngsta syni sínum, en fluttu svo aftur vestur og starfaði Gunnar í byggingarvöruverslun á Ísafirði um tíma. Síðustu 10 ár starfsævinnar starfaði hann í loðnuverksmiðjunni Gná í Bolungarvík, m.a. við gæðaeftirlit og smíðar.

Gunnar og Stína voru ötul við garðyrkju og blómarækt. Sem ungur maður æfði Gunnar fimleika, fótbolta og skíði. Síðari árin var golfið hans helsta áhugamál. Ásamt golffélögum sínum stofnaði hann golfhópinn „Fjórir flottir“, en Gunnar var líka meðlimur í „Einherjaklúbbnum“. Síðasta golfmótið hans var Bændaglíman á Ísafirði, haustið 2022.

Útför Gunnars fer fram frá Ísafjarðarkirkju í dag, 29. apríl 2023, klukkan 14.

Pabbi var mikill Ísfirðingur, bærinn var honum afar kær og þar lifði hann og bjó allan sinn aldur að undanskildum tveimur árum þegar hann og mamma ákváðu að búa í Reykjavík.

Pabbi var fæddur árið 1933 og því af þeirri kynslóð sem þurfti að hafa fyrir hlutunum, lífið var ekki alltaf einfalt. Tæplega tveggja ára missti pabbi móður sína og var hann einhvern tíma eftir það í fóstri hjá góðu fólki í Hnífsdal. Hann ólst svo upp hjá föður sínum og stjúpmóður. Pabbi var sendur sex ára í sveit á Hesteyri í Jökulfjörðum til hjónanna Guðmundar og Hrefnu, pabbi talaði alltaf um vel um þau hjón.

Þrettán ára byrjaði pabbi að fara til sjós en við það starfaði hann að mestu þar til hann byrjaði að læra húsasmíði, þá kominn á fertugsaldur. Hann vað meistari í þeirri grein og starfaði lengst af hjá Daníel Kristjánssyni.

Foreldrar mínir byggðu sér hús að Engjavegi 11 á Ísafirði og naut pabbi dyggrar aðstoðar Guðmundar, fósturföður mömmu, við þá vinnu. Árið 1962 fluttum við inn í húsið ásamt Guðmundi afa og ömmu. Þarna bjuggu foreldrar mínir sér og okkur systkinunum gott heimili.

Foreldrar mínir voru mikið áhugafólk um garðrækt og útivist. Yfirleitt voru nokkrar bækur á náttborði þeirra um blóm og garðrækt. Lóðir þeirra báru merki um þennan áhuga og þá ástúð sem lögð var í þetta áhugamál enda báðir garðar verðlaunagarðar.

Pabbi var mikill áhugamaður um íþróttir og naut ég mikils stuðnings frá honum við allt sem ég tók mér fyrir hendur á þeim vettvangi, þó sérstaklega skíðaiðkunina þar sem hann fékk sér skíði og byrjaði að skíða aftur.

Pabbi byrjaði um miðjan aldur að stunda golf sem hann átti eftir að njóta sín vel í. Lengi var hann í félagi við þrjá vini sína í klúbbi sem þeir kölluðu Fjóra Flotta og var það hans hjartans mál að spila með þessum flotta hópi. Þær hafa verið nokkrar ferðirnar sem við Hafdís höfum farið vestur og þá að sjálfsögðu var spilað golf og fannst honum skemmtilegast ef sem flest barnabörnin væru líka, og jafnvel makar þeirra með. Þegar árin færðust yfir þá byrjaði pabbi að mæta reglulega í líkamsrækt á veturna til að halda sér við enda labbaði hann alltaf golfhringinn þó langt væri kominn á níræðisaldur. Síðasti golfhringur okkar Hafdísar með honum var síðastliðið haust.

Pabbi var hrókur alls fagnaðar og ef eitthvað var um að vera í fjölskyldunni, líkt og útskriftir eða brúðkaup, þá var hann mættur. Það var oft kátt á hjalla þegar hist var heima hjá honum og málefni líðandi stundar voru rædd. Auðvitað tóku skoðanir og viðhorf hans mið af því hverrar kynslóðar hann var en hann var fyrst og fremst maður sem þótti vænt um sitt fólk, börn, tengdabörn og svo öll barnabörnin. Það er varla til mynd af honum öðruvísi en að það séu einhvern börn með.

Nú hefur hann slegið síðustu golfkúluna og það verður öðruvísi að koma vestur í golf og hann ekki með.

Pabbi, við Hafdís munum alltaf minnast þín með hlýju og þakklæti og þeirra elskulegheita sem þú hefur sýnt okkur, börnum okkar og barnabörnum. Við biðjum algóðan guð að varðveita þig.

Garðar og Hafdís.

Garðar S. Gunnarsson og Hafdís A. Gunnarsdóttir.

Hetjan mín, partíljónið mitt og nú engillinn minn.

Það dýrmætasta af öllu er að hafa fengið þig sem afa, litla lukkan sú! Ekkert vafðist fyrir þér, þú gerðir allt á þínum hraða og naust hverrar einustu mínútu.

Þegar ég ákvað að flytja vestur tókstu á móti mér með opinn faðminn - græjaðir eitt stykki herbergi fyrir mig og passaðir upp á að ég fengi pláss fyrir allt mitt heima hjá þér.

Búðarferðirnar okkar, bæjarrúntarnir og að útbúa reglulega saman kvöldmatinn eru ómetanlegar samverustundir þar sem allt milli himins og jarðar var rætt. Þú skófst aldrei af hlutunum og sagðir öllum nákvæmlega hvað þér fannst.

Eftir brúðkaupið okkar Daníels fékkstu viðurnefnið partíljónið, enda skemmtir þú þér manna best og gladdir okkur margfalt með þinni gleði og ánægju.

Minn besti, það að Helga Sara mín hafi fengið að sjá þig og þú hana var í raun mín heitasta ósk. Þú munt alltaf eiga sérstakan stað í hjarta mínu og mun Helga Sara fá að heyra endalausar sögur af langafa sínum.

Elsku afi, hjartasárið er djúpt og tárin renna óhindrað. Ég elska þig og sakna meira en orð fá lýst.

Þín skotta,

Þóra.

Með hækkandi sól á fallegum vordegi kvaddi elsku afi okkur. Á stysta degi ársins sagði hann alltaf „nú fer daginn að lengja“ og í júní, á þeim lengsta - þegar allt sumarið var eftir, talaði hann um að nú fari daginn að stytta.

Afi var mikill fyrirmyndarmaður í lífi og starfi. Eljusamur, sterkur, mjög staðfastur en blíður og góður. Grasið var aldrei grænna hinum megin fyrir honum. Hann trúði því og treysti að hans blettur væri grænastur. Hann ferðaðist einu sinni erlendis og fannst það stórkostlegt - en ekkert betra né fallegra en Ísafjörður. Hann var heimakær, þar sem honum tókst að skapa sér fallegt líf sem einkenndist af ást, öryggi og þægindum.

„Hvað eruð þið að rembast við að búa í Reykjavík, komið bara hingað.“ sagði hann í hverri heimsókn okkar Bolla vestur og þuldi upp alla þá kosti sem flutningunum myndu fylgja. Honum fannst í raun þessi vilji fyrir því að búa fyrir sunnan vera leikþáttur. Hann hafði sterkar skoðanir en ef barnabörnin hans völdu sér leiðir í lífinu sem voru á skjön við þær skoðanir samgladdist hann þeim. „Þá loks eignast þessi starfstétt almennilegan starfsmann“ var til dæmis setning sem hann henti í. Hann og amma voru umfram hæfilega hlutdræg gagnvart barnabörnum sínum og hældu þeim öllum bak og fyrir. Töldu þau langbest, yfirburðagreind og hæfileikarík sem var oft afskaplega gott og nauðsynlegt að heyra inn á milli. Þau höfðu óbilandi trú á fólkinu sínu og hvöttu það áfram í öllum þeim verkefnum sem lífið færði því.

Það er mér ómögulegt að rifja upp æskuminningar án þess að afi og amma á Urðarvegi liti þær. Í æsku voru heimsóknir til þeirra daglegar og ef til vill fleiri þegar ég byrjaði í menntaskóla. Daginn sem afi kvaddi fórum við fjölskyldan heim á Urðarveg 52 og þegar inn var gengið mætti okkur góður heimilisilmur og hlýja. Þá dundi það yfir mig. Aldrei aftur sest ég niður með afa í ,„sopa“ og spjall. Án þess að hafa endilega ætlað mér það þá labbaði ég beint inn í sjónvarpsherbergi og settist í hægindastólinn hans og leyfði huganum að reika. Þetta herbergi og þessi stóll, myndirnar á veggjunum, tifið í litlu klukkunni og allar spólurnar. Ég hugsa að þetta sé herbergið sem ég hef varið flestum klukkustundum lífs míns, ef svefnherbergið mitt telst ekki með, að horfa aftur og aftur á sömu spólurnar með örbylgjupopp og pepsi max í svo litlu glasi að gömlu hjónin skiptust á að koma á korters fresti til að athuga hvort ég þyrfti ábót, dekrið var þvílíkt.

En nú er myndin búin og kreditlistinn rúllar. Það er ekki hjá því komist að tárast, vitandi að þessari mynd er ekki hægt að spóla til baka og byrja upp á nýtt.

Tengsl mín við ömmu og afa voru sterk. Ég verð eilíflega þakklát fyrir að hafa átt þau að og eignast í þeim góða vini sem gáfu mér innsýn í það sem mestu máli skiptir í þessu lífi. Nú eru þau loks sameinuð í Sumarlandinu. Sú tilhugsun gefur hlýju í hjartað því saman eru þau best. Við hin höldum bara okkar vegferð áfram, rík af góðum minningum.

Bestu þakkir fyrir allt.

Þín og ykkar,

Berglind Halla.

Elsku afi minn. Það er svo erfitt að hugsa til þess að þegar ég kem heim til Ísafjarðar og geng upp stigann uppi á vegi munir þú ekki standa efst í stiganum að bíða eftir að taka á móti mér með faðmlagi.

Við sitjum við eldhúsborðið uppi á Urðarvegi með kaffi í glasi. Þú ert með kaffi í litla glasinu, eins og alltaf. Við ræðum um heima og geima, um stöðu Vestfjarða og Ísafjarðar, um málefni líðandi stundar. Við tölum saman um æsku þína þar sem þú rifjar þegar þú fórst ungur í sveit á Hesteyri og í Aðalvík. Þú rifjar upp hvernig þú vannst á sjó, í sláturhúsi á Ísafirði og þegar þú fórst að læra smíðar. Þú gerir góðlátlega grín og eftir að þú hefur hrist hausinn örlítið og glott prakkaralega hlæjum við saman. Mikið er sárt að vita til þess að þessar stundir verða ekki fleiri, en á sama tíma er ég svo þakklát fyrir þær allar.

Ég er þakklát fyrir allar þær minningar sem ég á með þér, og með ykkur ömmu. Það var alltaf svo gott að koma heim til ömmu, afa og Brynjars. Alltaf var tekið á móti manni með opnum faðmi og hlýju.

Minningarnar streyma fram. Minningar um allar stundirnar sem við eyddum saman í fallega garðinum ykkar, sem þið gerðuð í brattanum í fjallinu á Urðarveginum, við garðyrkju og gróðursetningu fallegra blóma og trjáa. Minningar um kvöldkaffið, kringlur og mjólk, þegar við barnabörnin gistum hjá ykkur. Minningar um hvernig þið amma gerðuð góðlátlegt grín hvort að öðru og hvernig þið hlóguð sjálf mest að gríninu. Minningar um ótal mörg jóladagsboð á Urðarveginum hjá þér, ömmu og Brynjari. Þá var boðið upp á hangikjöt frá hið minnsta tveimur framleiðendum og borið saman. Í eftirrétt var frómas sem amma gerði. Eftir að amma lést gerðir þú alltaf frómasinn og varst nú svolítið montinn og ánægður með hversu vel til tókst. Þú sagðir að þú værir ekkert klár í eldhússtörfunum en þú varst nú samt mikill bakari. Það sem þú tókst þér fyrir hendur og gerðir gerðir þú vel.

Við ræddum oft um hversu margir afkomendur ykkur ömmu væru orðnir og þá kom alltaf blik í augun, þú sagðir að þú værir svo ríkur og að allir afkomendurnir væru gott og duglegt fólk. Þú varst stoltur af okkur öllum afkomendunum, fólkinu þínu, og okkar mesti stuðningsmaður.

Ég trúi því að núna séuð þið, þú og amma, sameinuð á ný. Þið svífið um dansgólfið þar sem þið dansið saman gömlu dansana, ræktið saman fallegan og blómlegan garð, gerið góðlátlegt grín og hlæið saman.

Minningarnar ylja, en söknuðurinn er sár.

Takk fyrir allt og allt elsku afi.

Þín afadóttir,

Bryndís.

Elsku afi. Þær eru margar minningarnar sem koma upp í hugann á þessari stundu. Það eru minningar um góðan heiðarlegan afa, afa sem tók ætíð vel á móti mér, afa sem tók vel á móti fjölskyldu minni og afa sem hafði raunverulegan áhuga á mér og verkefnum mínum í lífinu þótt fjarlægðin á milli Hafnarfjarðar og Ísafjarðar hafi oft verið mikil. Þú hafðir mikinn áhuga á samfélagsmálum og velferð Vestfjarða var þér efst í huga. Ég hef alltaf sagt að þú hafir verið mikill landsbyggðarvinur og oftar en ekki vísað mér veginn hvað þau mál varðar. Takk fyrir það. Allt kemur þetta til viðbótar við það sem þú gafst af þér til mín, Áslaugar og strákanna okkar í gegnum árin. Það eru mikil verðmæti í því fólgin og þetta eru allt minningar sem lifa um ókomna tíð. Ég verð svo að nefna yfirgengilegan áhuga þinn á golfi og minnist allra okkar golfhringja saman í gegnum árin. Sá síðasti var á vellinum í Bolungarvík síðasta sumar þar sem þú varst með syni, tengdasyni og okkur barnabörnum þínum. Ég man hvað þú naust þess mikið og vel með fólki sem þér þótti svo vænt um. Ég vil því að lokum minna okkur öll, sem tökum þátt í kapphlaupinu um lífsins gæði á hverjum degi, á hvað það er mikilvægt og ekki síður ómetanlegt fyrir barnabörn að fá að upplifa þessar stundir með ömmum og öfum. Þetta eru þær stundir sem að lokum sitja eftir, líkt og þær gera hjá mér nú, þrátt fyrir að vera ekki alltaf stórar, keyptar eða fanga mikla sigra. Þær eru verðmætar um fram allt annað.

Í bljúgri bæn og þökk til þín

sem þekkir mig og verkin mín.

Ég leita þín, Guð leiddu mig

og lýstu mér um ævistig.

(Sr. Pétur Þórarinsson)

Takk fyrir allt og allt.

Þinn

Ágúst Bjarni.

Afi var einstakur maður og mun ég seint kynnast einhverjum eins og afa. Hann var í rauninni besti afi sem hægt var að hugsa sér. Minningar um gönguferðirnar á sjoppuna að kaupa bland í poka, bónusferðirnar og kósíkvöldin að horfa á Barnaby munu alltaf eiga stað í hjarta mínu.

Ég fór mínar fyrstu níu holurnar með afa mínum á golfvellinum í Tungudal. Honum fannst það ekki leiðinlegt, enda var golf besta íþróttin í hans huga. Hann sagði auðvitað við mig að ég gæti orðið fagmaður í þessari íþrótt með mín golfhögg, því hjá afa var maður alltaf bestur í öllu og það var enginn jafn fær um hlutina og við fjölskyldan.

Þegar ég byrjaði í menntaskóla var líka mjög gott að hafa eitt stykki afa. Hann var alltaf til í að sækja mann og í rauninni krafðist hann þess. Ef ég labbaði til hans skildi hann ekkert í mér að hringja ekki og fá hann til þess að sækja mig, samt er þetta bara sjö mínútna labb.

Ég tók þátt í söngkeppninni í menntaskólanum og í leikritunum líka og þá lét afi sig sko ekki vanta. Hann elskaði alla viðburði sem við tókum þátt í. Hann kom alltaf á tónleikana mína í tónlistarskólanum og á allar árshátíðir hjá grunnskólanum. Hann kom auðvitað líka í útskriftina mína úr menntaskólanum og var með okkur á kvöldfagnaðinum. Hann var líka síðastur út enda elskaði hann að vera í kringum fólk.

Ég er mjög þakklát fyrir að hafa unnið á Ísafirði á sumrin frá 2018-2021 því þá gat ég alltaf farið til afa í hádeginu. Hann var alltaf tilbúinn að taka á móti manni og alltaf til í að spjalla um allt og ekkert. Þá var hann vanur að fá að rökræða smá og var stríðnin þá aldrei langt í burtu.

Elsku afi, ég þakka þér fyrir allt sem við brölluðum saman og ekki síður fyrir allar samverustundirnar með ykkur ömmu á Urðarveginum. Megi góður guð geyma ykkur.

Þín

Erna Kristín.

Vatnið bylur á glugganum – „það eru sautján stig og sól“ heyrist í tengdapabba í vorverkunum að þrífa gluggana á Engjavegi 11, húsinu sem hann byggði. Unga parið, ég og dóttir hans Disda, hugðumst sofa út, en áttum auðvitað að vera úti að njóta góða veðursins – góðlátleg stríðni var honum eðlislæg. Hann var kominn út í garð snemma á sunnudagsmorgni, garð sem bar af öðrum görðum sökum fegurðar og mikillar natni eigendanna, Kristínar tengdamóður minnar, sem lést árið 2012, og Gunnars, sem lést þ. 15. apríl, 89 ára að aldri, eftir skamma legu á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.

Gunnar P. Ólason hafði skýrar skoðanir og var ófeiminn við að tjá þær, hafði gaman af skoðanaskiptum en var minna fyrir að skipta um skoðun. Atvinnulíf á Vestfjörðum var honum mjög hugleikið, en Gunnar hafði líka mikla réttlætiskennd og fannst hlutirnir ganga hægt.

Hann fór fyrst á sjó í sumarvinnu þrettán ára, en sjómennska varð síðar hans aðalstarf fram undir þrítugt. Hann hóf þá nám í smíðum og fékk réttindi byggingameistara og starfaði við smíðar næstu áratugina. Síðustu tíu ár starfsævinnar vann hann við gæðaeftirlit í loðnuverksmiðjunni Gná.

Gunnar var laghentur smiður og átti heldur betur eftir að reynast okkur Disdu haukur í horni þegar við byggðum húsið okkar í Grænuhlíð í Bolungarvík. Hann vann við nánast alla þætti hússins, allt frá uppslætti til uppsetningar milliveggja og innréttinga. Fyrir það erum við honum ævinlega þakklát.

Gunnar hafði á sínum yngri árum m.a. stundað knattspyrnu, skíði og fimleika, en fékk golfáhugann um miðjan aldur og spilaði golf síðast í fyrra, þá 88 ára að aldri. Gunnar var „Skálameistari“ GÍ 2009 og náði einu sinni holu í höggi á þeirri sjöundu í Tungudalnum. „Fjórir flottir“, eins og þeir kölluðu sig golffélagarnir, spiluðu reglulega saman í meira en áratug, en nú eru þeir tveir fallnir frá. Hann stundaði líkamsrækt á veturna til að styrkja sig fyrir golfið og ekki dugði minna en heimsfaraldur til að breyta þeirri venju.

Þrátt fyrir golfáhugann var það fjölskyldan og tengdamóðir mín, Kristín J. Jónsdóttir, sem hann kvæntist 26. desember 1962, á skírnardegi konu minnar, Kristínar Guðrúnar, sem var í fyrsta sæti. Gunnar var alltaf reiðubúinn til að rétta börnum sínum hjálparhönd, ekki síst þegar kom að framkvæmdum í hans fagi. Hann var líka einstakur afi og dýrkaði barnabörnin sín og dekraði. Söknuður þeirra er mikill.

Gunnar var farsæll í sínu einkalífi og hraustur allt sitt líf þótt hann hafi tvisvar áður á lífsleiðinni glímt við veikindi. Hann tók þeim verkefnum fumlaust og náði góðum bata. Gunnar var hraustur allt fram á síðustu vikur ævinnar og bjó enn heima hjá sér ásamt Brynjari Má syni sínum þegar kallið kom. Gunnar var undir það búinn eins og allt annað sem að höndum bar í lífinu og kvaddi þetta líf í faðmi fjölskyldunnar.

Ég kveð nú tengdaföður minn og góðan vin til áratuga.

Um leið og ég votta fjölskyldunni allri mína dýpstu samúð, óska ég honum góðrar ferðar á vit almættisins.

Guð blessi minningu Gunnars Péturs Ólasonar.

Elías Jónatansson.