[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er ekkert til sem heitir að „klára“ góða bók. Ég veit fátt betra en að rekast á textabrot við þriðja eða fjórða lestur bókar sem snertir mig djúpt en sem ég man samt ekkert eftir að hafa séð áður

Það er ekkert til sem heitir að „klára“ góða bók. Ég veit fátt betra en að rekast á textabrot við þriðja eða fjórða lestur bókar sem snertir mig djúpt en sem ég man samt ekkert eftir að hafa séð áður. Þá fyllist ég undrun yfir því að þessi snilld hafi verið þarna allan tímann, grafin inn í vefnað skáldskaparins og að það hafi einfaldlega þurft birtu nýs tíma og aðstæðna til þess að hún opnaðist upp fyrir mér.

Bókasafnið á bernskuheimilinu var ekki stórt en þar var þó til Laxness allur, þjóðsögur Jóns Árnasonar og einhver af verkum Þórbergs Þórðarsonar. Allt þetta var ég búin að tæta í mig um tíu, ellefu ára aldurinn. Þessar bækur eru eins og gamlir vinir sem ég gríp til aftur og aftur og kynnist upp á nýtt. Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég hef lesið Íslandsklukkuna og Sjálfstætt fólk til dæmis.

Ég les annars alls konar bækur og verð eiginlega alltaf að hafa tvær, þrjár í gangi samhliða til þess að geta skipt á milli stemmninga eftir dagsforminu. Hljóðbókabyltingin hefur ekki farið fram hjá mér og í dag gæti ég ekki hugsað mér að taka skurk í þvottahúsinu án þess að vera með góða hljóðbók í gangi. Ég mæli til dæmis eindregið með að hlusta á Rupert Degas lesa Haruki Murakami. Frábær raddleikari. Lestur Hallgríms Helgasonar á Sextíu kíló af sólskini og Sextíu kíló af kjaftshöggum er líka ekkert minna en stórkostlegur.

Ég les oft bækur um umhverfismál, dýraríkið og jafnvel um geimvísindi. Það er til svo mikið af góðu dóti þarna úti! The Mushroom at the End of the World eftir Anna Lowenhaupt Tsing sprengdi til dæmis á mér hausinn fyrir nokkrum árum (já, sem minnir mig á að ég þarf að fara að lesa hana aftur).

Íslenskar skáldsögur eru alltaf á náttborðinu. Ég læt sem dæmi ekki bækur eftir Gyrði, Auði Jóns, Guðrúnu Evu, Kristínu Ómars eða Kristínu Eiríks fara framhjá mér. Nú síðast las ég Lungu Gunnlaugs Pedro Garcia. Íslensku bókmenntaverðlaunin 2023 rötuðu á verðugan stað.