Núna gengur mér vel og ég hef vit á að njóta þess, segir verðlaunahöfundurinn Colson Whitehead.
Núna gengur mér vel og ég hef vit á að njóta þess, segir verðlaunahöfundurinn Colson Whitehead. — Mynd/Pétur Már Ólafsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
En þegar ég horfi á umheiminn þá sé ég hversu mikið er um átök og um leið finnst mér fólk almennt ekkert óskaplega gott.

Hinn bandaríski Colson Whitehead er einn þekktasti rithöfundur samtímans. Hann hefur tvívegis fengið hin eftirsóttu Pulitzer-verðlaun, fyrir Neðanjarðarjárnbrautina um örlög þræla og Nickel-strákana sem er byggð á sögu skóla þar sem mikið harðræði ríkti. Skáldsögurnar komu út í íslenskri þýðingu Árna Óskarssonar. Whitehead var meðal gesta Bókmenntahátíðar í Reykjavík.

Blaðamaður spyr Whitehead hvort honum finnist hann þurfa að koma einhverjum ákveðnum hlutum til skila með bókum sínum.

„Mér finnst aðalatriðið vera að sýna metnað. Ég vil ekki klúðra hugmyndinni. Ég hef skrifað alls konar bækur, þungar bækur og svo aðrar sem einkennast af léttleika. Það skiptir mig engu máli hvað öðrum finnst að ég eigi að gera. Aðalmarkmið mitt er að finna gott efni og síðan reyni ég að vinna eins vel úr því og ég mögulega get.“

Neðanjarðarjárnbrautin og Nickel-strákarnir eru ótvírætt vinsælustu bækur hans og þær sem hafa fyrst og fremst skapað honum nafn. Sjálfur er hann mjög meðvitaður um þetta. „Neðanjarðarjárnbrautin og Nickel-strákarnir voru fyrstu bækur mínar til að koma út í mörgum löndum og lesendur gætu því haldið að þær væru dæmigerð höfundarverk mín en svo er ekki. Bækur mínar eru mjög ólíkar. Ég hef skrifað bækur þar sem lítið gerist. Sag Harbor, uppvaxtarsaga sem gerist um sumar á níunda áratugnum, er til dæmis ekki sérlega tíðindamikil.“

Þér finnst ekki að þú verðir að skrifa um rasisma?

„Nei, það er ekki 1965, það er ekki 1981. Margir afrísk-amerískir rithöfundar á mínum aldri skrifa gjarnan um rasisma, ég geri það líka, en um leið erum við ekki að hengja okkur í hugmyndir annarra um það hvað svartur rithöfundur eigi að skrifa um. Mér hefur aldrei fundist ég skuldbundinn til að sinna ákveðnum hugmyndum í verkum mínum.“

Hugmyndin um skjól

Neðanjarðarjárnbrautin og Nickel-strákarnir eru mjög ofbeldisfullar skáldsögur og lesandinn kemst hvað eftir annað í tilfinningalegt uppnám við lesturinn. Blaðamaður spyr Colson hvernig honum hafi liðið þegar hann skrifaði þessa kafla.

„Þetta eru tvær alvöruþrungnar bækur sem komu út með stuttu millibili. Þegar ég ákvað að skrifa um þrælahald lagðist ég í miklar rannsóknir þannig að allur tilfinningapakkinn helltist yfir mig áður en ég byrjaði að skrifa. Neðanjarðarjárnbrautin átti að vera raunsæ og varð því að vera ofbeldisfull.

Í Nickel-strákunum varð ég mjög náinn aðalpersónunum tveimur. Mér fannst ég verða að heiðra raunverulegu fyrirmyndirnar, þá sem lifðu af. Ég varð æ þreyttari og þunglyndari eftir því sem nær dró endalokunum. Ég lauk við bókina og í tvo mánuði grillaði ég og fór í tölvuleiki. Þannig jafnaði ég mig.“

Ertu svartsýnismaður?

„Sennilega er ég meiri svartsýnismaður en bjartsýnismaður. Ég nærist á samskiptum við fjölskyldu mína og vini og á þann hátt er ég bjartsýnismaður. En þegar ég horfi á umheiminn þá sé ég hversu mikið er um átök og um leið finnst mér fólk almennt ekkert óskaplega gott.“

Það er samt von í bókum þínum.

„Í uppvakningabókinni minni, Zone One, sem hefur ekki komið út á íslensku, er von vegna þess að í heimsendasögu verða eftirlifendur að trúa því að einhvers staðar sé skjól. Cora í Neðanjarðarjárnbrautinnni verður að hafa einhverja óljósa hugmynd um að frelsi fyrirfinnist og Nickel-strákarnir verða að trúa því að til sé griðastaður. Vonin er sólargeislinn í þessum þremur skáldsögum sem eru mjög drungalegar.“

Breyttur lífsstíll

Time Magazine setti Colson á lista yfir hundrað áhrifamestu einstaklinga heims. Hann er spurður hvort ekki megi líta á það sem merki þess að rithöfundar og bækur þeirra geti breytt heiminum til hins betra

„Ég trúi á mátt listarinnar en ég trúi því ekki að list geti breytt löggjöf eða breyti Donald Trump í dásamlega manneskju. Í Flórída er verið að banna bækur, þeir sem það gera lesa ekki þessar bækur, ef þeir gerðu það myndu þeir átta sig á því hvað þeir eru að gera. Listin getur breytt einstaklingum en er hún nógu öflug til að breyta menningu og sögu? Ekki eins og er.“

Hann er spurður hvort það hafi breytt miklu fyrir hann að fá Pulitzer-verðlaunin tvisvar. „Viðurkenningin er frábær en í byrjun vinnudags er maður alltaf jafn auðmjúkur. Nickel-strákarnir fengu verðlaunin í covid og þá var ekki hægt að fagna. Daginn eftir fór ég að vinna. Hvort sem hlutirnir ganga vel eða illa þá er vinnudagur á morgun. Ekkert annað kemur til greina, sem er frábært. Það er gott að hafa markmið,“ segir Colson sem er að skrifa lokabókina í Harlem-þríleik sínum, sem er fjölskyldu- og glæpasaga.

Hann segir frægðina ekki hafa breytt miklu í lífi sínu. „Stundum þekkir fólk mig á götu. Ég hugsa: Af hverju er verið að horfa á mig? Er ég með opna buxnaklauf? Svo átta ég mig á því að þarna er lesandi sem þekkir mig.

Nú er ég á Íslandi, ég hef aldrei komið hingað áður og er hérna vegna bóka minna. Áður vann ég eingöngu heima en núna skrifa ég líka á hótelum, í flugvélum og í lestum. Lífsstíllinn hefur breyst en á jákvæðan hátt. Ferillinn var skrykkjóttur en núna gengur mér vel og ég hef vit á að njóta þess. Og þegar hlutirnir ganga ekki nógu vel þá er bara eitt að gera og það er að halda áfram að vinna og reyna að gera sitt besta.“