Larry Hagman vel hattaður ásamt eiginkonu sinni, hinni sænsku Maj.
Larry Hagman vel hattaður ásamt eiginkonu sinni, hinni sænsku Maj. — AFP/Ruud Hoff
„Larry Hagman er allt öðru vísi í einkalífi sínu en sá vondi J.R. í Dallas. Hagman safnar höttum í frístundum sínum og á nú orðið um tvö hundruð af öllum gerðum.“ Þessa merkilegu frétt var að finna í þættinum Fólk í fréttum í Morgunblaðinu fyrir réttum 40 árum en þá var J.R

„Larry Hagman er allt öðru vísi í einkalífi sínu en sá vondi J.R. í Dallas. Hagman safnar höttum í frístundum sínum og á nú orðið um tvö hundruð af öllum gerðum.“

Þessa merkilegu frétt var að finna í þættinum Fólk í fréttum í Morgunblaðinu fyrir réttum 40 árum en þá var J.R. Ewing vitaskuld fastagestur í stofum landsmanna. Þar kom einnig fram að vinur Hagmans og kollegi, Ronald Reagan, hefði gefið honum hattasafn sitt enda væri ekki pláss fyrir það í Hvíta húsinu, þar sem hann vann á þeim tíma. „Larry safnar raunar ekki bara höttum, hann á líka mjög gott safn af grímubúningum, fánum og stöfum.“

Fullyrt var í fréttinni að Dallas-þátturinn hefði gert Hagman ríkan og frægan á svipstundu, „en velgengnin getur verið varasöm. Larry fékk að reyna það, í tvö ár lá hann með lappirnar upp í loft hjá sálfræðingi til að finna sjálfan sig. Hann hafði heppnina með sér og að lokum bar fundum þeirra saman.“

Hagman lést 2012, 81 árs.