Kristín Guðmundsdóttir fæddist 18. febrúar 1927. Hún lést 17. apríl 2023.

Útför Kristínar fór fram 26. apríl 2023.

Ég kom inn í fjölskyldu Kristínar sem tilvonandi tengdasonur árið 1988. Það var augljóst frá fyrstu kynnum hversu vönduð manneskja Kristín var. Óhemju dugleg, jákvæð, heiðarleg, vel gefin og hlý manneskja.

Það var oft gestkvæmt hjá Ólafi og Kristínu á Stórólfshvoli og við hjónin, Ingibjörg og ég, nutum góðs af því eins og fleiri. Á stórhátíðum gistum við gjarna fyrir austan, ásamt fleirum úr systkinahópnum, og voru næturgestir gjarna kvaddir með „ferðamannabrauði“ sem var bakkelsi sem Kristín bjó til. Ekki veit ég enn hvernig hún fór að þessu en samhliða fjölmörgum öðrum heimilisverkum gerði hún nokkrar sortir af brauðum og kökum sem maður tók með sér heitt úr ofninum. Yndislegar minningar frá fallegu heimili þeirra Kristínar og Ólafs. Eftir að Kristín flutti í bæinn skutlaði hún ósjaldan til okkar diski með pönnukökum sem hurfu fljótt ofan í mannskapinn enda allir á heimilinu sammála um að þetta væru bestu pönnukökur heims.

Kristín var einstaklega jákvæð og hlý manneskja. Viðmót hennar og framkoma öll á þann veg að öllum leið vel í kringum hana. Kristín leit alltaf á góðu hliðarnar á öllum málum og reyndi að gera gott úr öllu þegar eitthvað kom upp á. Hún var barngóð með eindæmum enda sóttu Katrín Birna, Fannar og Sindri Snær í að vera í návist hennar eins og aðrir sem hana þekktu.

Ég kveð þig elsku tengdamamma með hlýju og þakklæti í hjarta. Þakklæti fyrir allar góðu stundirnar og þau forréttindi að hafa fengið að verða samferða þér í gegnum síðustu áratugina.

Sigurður
Kristjánsson.

Undir háu hamra belti

höfði drúpir lítil rós.

Þráir lífsins vængja víddir

vorsins yl og sólarljós.

Ég held ég skynji hug þinn allan

hjartasláttinn rósin mín.

Er kristallstærir daggardropar

drjúpa milt á blöðin þín.

Æsku minnar leiðir lágu

lengi vel um þennan stað,

krjúpa niður kyssa blómið,

hversu dýrðlegt fannst mér það.

Finna hjá þér ást og unað

yndislega rósin mín.

Eitt er það sem aldrei gleymist,

aldrei það er minning þín.

(Friðrik Jónsson/

Guðmundur Halldórsson)

Elsku besta amma okkar, takk fyrir allt og allt uns við hittumst á ný.

Eva og Ólafur Björn.

Nú hefur Kristín eða Stína eins og hún var allaf kölluð lokið sinni lífsgöngu.

Það er alltaf jafn sárt að kveðja. Þrátt fyrir háan aldur og minnkandi lífsgæði þá er maður aldrei tilbúinn að missa sína nánustu. Nú erum við bara tvö eftir af ellefu systkina hópi.

Ljúfar og fagrar minningar streyma fram þegar hugsað er til bernskuáranna á Núpi, í minningunni var alltaf sólskin og alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast.

Það að alast upp í stórum systkinahópi þar sem hver og einn þurfti að standa sig var ómetanlegt veganesti út í lífið. Við svona aðstæður myndast sterk bönd og náin tengsl sem við systkinin höfum notið og búið að alla tíð.

En eins og gangur lífsins er tíndust börnin að heiman og stofnuðu sín heimili og er mér mjög minnisstætt þegar Stína var búin að finna sinn draumaprins.

Hann átti heima undir Eyjafjöllum og kallaður Óli. Við urðum ekki fyrir vonbrigðum, myndarlegur ungur maður sem féll inn í fjölskylduna frá fyrstu stundu.

Stína og Óli voru glæsilegt par, Stína flutti svo til hans undir fjöllin þar sem þau stofnuðu sitt heimili og þar fæddust fyrstu börnin. Búskapurinn var til fyrirmyndar og alltaf var gaman að skreppa í heimsókn, alltaf var verið að framkvæma og eitthvað skemmtilegt að gera.

Seinna fluttu þau svo á Hvolsvöll og áttu þar eftir að eiga góðan tíma og fæddust þar yngstu börnin. Það var kærkomið að fá þau í nágrennið, geta hist oftar og notið barnahópsins sem var sérlega líflegur og skemmtilegur.

Stína og Óli fóru bæði að vinna í ört stækkandi sveitarfélagi jafnframt því að reka bú á Stórólfshvoli. Sýnir þetta dugnaðinn og kraftinn sem í þeim bjó.

Nú er ferðin hafin yfir í annan heim, þar munu þeir bíða með opinn faðminn sem farnir eru á undan og taka vel á móti henni.

Við kveðjum ástkæra systur og þökkum henni allt sem hún var okkur og biðjum henni Guðs blessunar.

Elsku Ragnhildur, Guðmundur, Katrín, Sigurjón, Garðar, Grétar, Ingibjörg Birna og fjölskyldur, góði Guð styðji ykkur og styrki.

Sigríður
Guðmundsdóttir.