<strong>Fagna stuðningsmenn ÍA?</strong>
Fagna stuðningsmenn ÍA?
Skagamönnum var í gær spáð sigri í 1. deild karla í fótbolta, Lengjudeildinni, á kynningarfundi deildarinnar sem haldinn var í gær. Þar fékk ÍA flest stig hjá formönnum, fyrirliðum og þjálfurum liðanna tólf sem leika í deildinni

Skagamönnum var í gær spáð sigri í 1. deild karla í fótbolta, Lengjudeildinni, á kynningarfundi deildarinnar sem haldinn var í gær. Þar fékk ÍA flest stig hjá formönnum, fyrirliðum og þjálfurum liðanna tólf sem leika í deildinni. Skagamenn féllu síðasta haust og þykja því afar líklegir til að staldra aðeins við í eitt ár í 1. deild.

Gangi spáin eftir verða það Grindvíkingar sem fylgja þeim upp en Grindavík lék síðast í efstu deild árið 2019. Fjölni er spáð 3. sæti, Leikni í Reykjavík 4. sæti, Gróttu 5. sæti, Aftureldingu 6. sæti, Vestra 7. sæti, Njarðvík 8. sæti, Þór á Akureyri 9. sæti, Þrótti í Reykjavík 10. sæti en Suðurlandsliðunum tveimur er spáð falli því Selfyssingar voru settir í 11. sætið og Ægismenn í það tólfta. Ægir leikur í 1. deild í fyrsta skipti en liðið hafnaði í þriðja sæti 2. deildar í fyrra, á eftir Njarðvík og Þrótti í Reykjavík, og fékk fyrstudeildarsætið þegar Kórdrengir hættu við þátttöku.