Njáll Trausti Friðbertsson
Njáll Trausti Friðbertsson
„Stjórnarfrumvarp um bókun 35 var ekki á dagskrá þingfundar utanríkismálanefndar [á föstudag] og hafði aldrei verið sett á dagskrá,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson, varaformaður utanríkismálanefndar

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Stjórnarfrumvarp um bókun 35 var ekki á dagskrá þingfundar utanríkismálanefndar [á föstudag] og hafði aldrei verið sett á dagskrá,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson, varaformaður utanríkismálanefndar. Hann vísar því alfarið á bug sem fram hafi komið í Morgunblaðinu í vikunni, að hafa reynt að hraða afgreiðslu nefndarinnar um bókun 35 í frumvarpi utanríkisráðherra. Formaður nefndarinnar, Bjarni Jónsson, var fjarverandi í vikunni vegna funda erlendis.

Njáll Trausti segir að sl. miðvikudag hafi verið hefðbundinn nefndardagur hjá utanríkismálanefnd, eins og venja er alla miðvikudaga.

„Það sem var á dagskrá þann dag var að fá kynningu starfshóps á vegum utanríkisþjónustunnar um EES og bókun 35. Það náðist ekki á fundinum mánudeginum á undan vegna fjarveru formanns starfshópsins.“

Fresturinn lengdur til 11. maí

Njáll Trausti segir að síðastliðinn mánudag hafi hann spurt nefndarmenn hversu langan tíma þyrfti vegna málsins og hvort vika væri nóg. „Enginn óskaði eftir lengri tíma,“ segir hann, en bætir við að eftir það hafi komið fram óskir um að lengja umsagnarfrestinn um frumvarpið. Ekki hafi staðið á því. Því lagði hann til á nefndarfundi utanríkismálanefndar í gær að umsagnarfrestur yrði lengdur um tvær vikur eða til 11. maí.

Málið í opnu ferli

„Það er alls ekki ekki verið að loka á umsagnir eða taka málið úr nefnd. Þvert á móti er verið að vanda til verka. Nefndin hefur sent út 25 umsagnarbeiðnir. Að auki getur hver sem er sent inn umsögn til nefndarinnar. Þannig virkar lýðræðið okkar. Málið er allt í góðu og opnu ferli,“ segir hann.

Njáll Trausti segir málið standa þannig nú að farið verði yfir þær umsagnir sem berast. „Þá er hægt að hefja efnislega umræðu í nefndinni,“ segir hann að lokum.

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir