Bragi Halldórsson
Bragi Halldórsson
Greinin er um hækkun bílastæðagjalda á íbúa Vesturgötu 7, sem eru eldri borgarar, og í framhaldi af því samskipti mín við borgaryfirvöld vegna málsins.

Bragi Halldórsson

Forsaga þessara skrifa eru athugasemdir mínar fyrir hönd fimm eldri borgara sem búa á efri hæðum bílastæðahússins á Vesturgötu 7. Um áramótin voru bílastæðagjöld fyrir langtímaleigu hækkuð um 37,5% eftir samþykkt borgarráðs. Mánaðarleiga var 14.500 kr. sem var hækkuð í 16.600 kr. sem var hækkun sem hægt hefði verið að una við. Íbúar hússins höfðu notið 26,67% afsláttar hingað til en borgarráð ákvað um leið að fella hann niður. Ársleiga hækkaði því úr 144.820 kr. í 199.200 kr. eða um 37,5% eins og áður sagði. Borgarfulltrúar höfðu sagt að nauðsynlegt væri að hækka allar gjaldskrár vegna bágrar fjárhagsstöðu borgarinnar en barnafjölskyldum og eldri borgurum yrði að mestu hlíft við miklum hækkunum. Hér þótti mér ekki fara saman orð og efndir, a.m.k. ekki hvað varðaði okkur gamlingjana á Vesturgötu 7, og ég leit því svo á að þarna hefði borgarráð af vangá hlaupið á sig í hugsunarleysi. Þetta ætti því að vera auðvelt að leiðrétta og raunar sjálfsagt mál. 9. janúar skrifaði ég því til fjögurra borgarfulltrúa, þ.e. Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og borgarfulltrúanna Einars Þorsteinssonar, Kjartans Magnússonar og Helga Áss Grétarssonar, því að síst af öllu vildi ég gera málið að einhverju pólitísku stórmáli milli meirihluta og minnihluta. Helgi og Kjartan svöruðu fyrstir 22. janúar og sýndu umkvörtun minni skilning en bentu um leið á að erfitt væri að tjónka við meirihlutann sem væri andsnúinn því að sýna bíleigendum skilning. Meirihlutamenn tóku sér lengri tíma til að svara. Einar svaraði 2. febrúar og þakkaði fyrir að ég skyldi vekja athygli á málinu en vísaði málinu áfram til Guðbjargar Lilju Erlendsdóttur samgöngustjóra borgarinnar. Hún tók sér góðan tíma og svaraði 24. mars en kvaðst lítið geta gert því að hækkunin hefði verið pólitísk ákvörðun borgarráðs og þar við sat. Dagur borgarstjóri svaraði mér ekki en Tinna Garðarsdóttir borgarritari svaraði fyrir hans hönd 3. febrúar og benti mér á að hafa samband við Alexöndru Briem sem væri í forsvari fyrir skipulags- og umhverfisnefnd borgarinnar. Ég hafði nokkrum sinnum samband við hana símleiðis og hún tók umkvörtun minni af skilningi og taldi hækkunin óþarflega mikla og kvaðst að lokum myndu bera málið upp í nefndinni sem m.a. væri að fjalla um endurskoðun gjaldskrár bílastæðasjóðs. Hún færði mér fyrir tveimur dögum þau erindislok að hækkunin yrði ekki endurskoðuð að sinni. Á Bókmenntahátíð hitti ég um daginn síðan tilvonandi borgarstjóra og ítrekaði málið við hann. Hann kvaðst hafa skilning á málinu en gæti því miður ekkert gert og mér til huggunar tjáði hann mér að hann þyrfti líka sjálfur að greiða há bílastæðagjöld í Ráðhúsinu. Segja má því að sælt sé sameiginlegt skipbrot í þessu stórmáli en ég gat ekki stillt mig um að greina opinberlega frá þessum samskiptum mínum við borgaryfirvöld. Niðurstaðan er því kunnugleg: Stjórnmálamenn viðurkenna aldrei mistök, það er gömul saga og ný.

Höfundur er eldri borgari og íbúi á Vesturgötu 7.

Höf.: Bragi Halldórsson