Kannski kemur að því að það þyki ekki lengur töff að drekka og við munum horfa til baka og hugsa um hversu slæm vínmenningin hafi verið.

Pistill

Ásdís Ásgeirsdóttir

asdis@mbl.is

Mikið er sorglegt að heyra af öllu þessu unga fólki sem deyr af völdum ofneyslu ópíóða og sannarlega er hægt að tala um faraldur. Foreldrar missa börn sín fyrir vágestinum og fjölskyldur og vinir standa eftir í djúpri sorg. Óskiljanlegir harmleikir eru að gerast úti um allan bæ og ekki bara af völdum eiturlyfja, heldur einnig áfengis.

Fíkn spyr ekki um stétt eða stöðu. Það vita allir. Við erum sennilega flest með einhverjar fíknir, en sumar fá að blómstra en öðrum er haldið niðri eða fá aldrei að vakna. Sá sem aldrei reykir verður ekki nikótínisti og sá sem aldrei bragðar áfengi þróar ekki með sér áfengisfíkn. Sama gildir auðvitað um eiturlyfin hvað sem þau heita. Best er að byrja aldrei og því eru forvarnir kannski eina vopnið sem samfélagið getur notað til að koma í veg fyrir allan þennan missi og alla þessa sorg.

Við sem erum komin af léttasta skeiði munum eftir herferðinni gegn reykingum; herferð sem skilaði árangri. Það er varla nokkur maður sem reykir lengur og sem betur fer þykir það ekki töff í dag. Það er auðvitað með ólíkindum að hugsa til baka til þessa tíma þegar mátti reykja í flugvélum, í bönkum, á vinnustöðum, á veitingastöðum og í skólum! Svo hófst herferðin og reykingabann var sett víða, sem var nú ekkert sérlega vinsælt í byrjun hjá reykingafólki sem sá sér þann kost vænstan að drepa í eða standa úti og frjósa. Því miður hafa níkótínpúðarnir hneppt marga í níkótín-„fangelsi“ sem erfitt er að sleppa úr. Fíknin er nefnilega sterk og oft er viljastyrkurinn bara ekki nóg.

Líklega byrja flestir þeir sem nota eiturlyf fyrst í áfengi. Auðvitað bera allir ábyrgð á sjálfum sér, en við foreldrar berum ábyrgð á börnum okkar. Samfélagið í heild ber líka ábyrgð. En hvað er til ráða? Mögulega vantar betri fyrirmyndir fyrir börnin. Barn sem horfir á foreldra sína drekka áfengi um hverja helgi eða oftar er líklegt til að gera slíkt hið sama. Barn sem elst upp hjá foreldrum sem drekka lítið eða ekkert er líklegra til að feta í þau fótspor. Nú þykir sannað að áfengi, jafnvel í hófi, er bara ekkert hollt. Kannski kemur að því að það þyki ekki lengur töff að drekka og við munum horfa til baka og hugsa um hversu slæm vínmenningin hafi verið.

Þetta eru aðeins vangaveltur og ekki er til ein töfralausn til að þurrka út vandamál sem fylgja ofneyslu. Auðvitað er gott forvarnarstarf unnið víða en greinilega þarf að gera betur. Dánartölur eru nefnilega allt of háar og sorgin yfirþyrmandi.