Á leið í umferð Nýir bílar biðu nýrra eigenda á bílastæðinu í Þorlákshöfn í síðustu viku.
Á leið í umferð Nýir bílar biðu nýrra eigenda á bílastæðinu í Þorlákshöfn í síðustu viku. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fólksbílum á skrá og í umferð fjölgaði um tæplega hundrað þúsund frá árslokum 2000 og fram í byrjun apríl í ár. Bílunum hefur jafnan fjölgað í hagvexti en að sama skapi fækkaði þeim óvissuárið 2001, hrunárið 2008, samdráttarárin 2009 og 2010 og farsóttarárið 2020

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Fólksbílum á skrá og í umferð fjölgaði um tæplega hundrað þúsund frá árslokum 2000 og fram í byrjun apríl í ár. Bílunum hefur jafnan fjölgað í hagvexti en að sama skapi fækkaði þeim óvissuárið 2001, hrunárið 2008, samdráttarárin 2009 og 2010 og farsóttarárið 2020.

Þetta má lesa úr tölum um ökutækjaskráningar sem Samgöngustofa tók saman að beiðni Morgunblaðsins. Tölurnar eru hér endurgerðar á grafi og settar í samhengi við hagvaxtartölur og hagvaxtarspá Lansdbankans.

Skal tekið fram að hér er um að ræða bíla á skrá og í umferð en mun fleiri bílar eru í landinu.

Tæplega 141.300 fólksbílar voru á skrá og í umferð í árslok 2000. Fólksbílum á skrá og í umferð fækkaði milli ára 2000 og 2001 en síðara árið var óvissa í hagkerfinu og væntingar döpruðust. Væntingavísitala Gallup féll skarpt á síðari hluta ársins 2001: Netbólan hafði sprungið og árið 2002 mældist aðeins 0,6% hagvöxtur.

Fjölgaði jafnt og þétt

Árin 2002 til 2007 fjölgaði bílum jafnt og þétt og voru þeir tæplega 182 þúsund í árslok 2007, eða um 40 þúsund fleiri en í árslok 2000. Síðan skipti markaðurinn um gír og árið 2008 fækkaði bílunum í tæplega 179 þúsund, enda þótt hagvöxtur hafi þá mælst í hagkerfinu. Skýringin er efnahagshrunið í október 2008 en ein afleiðing þess var að margir gátu ekki lengur staðið í skilum af bílalánum.

Fólksbílum á skrá og í umferð fækkaði svo næstu tvö árin og í árslok 2010 voru tæplega 171.500 fólksbílar á skrá og í umferð, eða færri en í árslok 2006. Svo fór bílunum að fjölga ár frá ári og í árslok 2019 voru um 224 þúsund fólksbílar á skrá og í umferð á Íslandi. Vorið 2020 skall kórónuveirufaraldurinn með fullum þunga á íslenskt samfélag. Mikill samdráttur varð í hagkerfinu og fækkaði fólksbílum á skrá og í umferð í rúmlega 219.600.

Um 100 þúsund fleiri

Síðustu tvö ár hefur verið hagvöxtur í hagkerfinu og tók fólksbílum þá að fjölga á nýjan leik. Alls voru 239.200 fólksbílar á skrá og í umferð í byrjun apríl, eða tæplega 100 þúsund fleiri en í árslok 2000 sem áður segir.

Athyglisvert er að bera saman hagvöxt og fjölda fólksbíla í umferð. Eins og grafið hér fyrir ofan ber með sér er nokkuð sterk fylgni milli hagvaxtar og fjölda fólksbíla á skrá og í umferð. Bílunum fjölgar í hagvexti en undantekningarnar frá þeirri reglu eru sem áður segir óvissuárið 2001 og hrunárið 2008.

Út frá því má álykta að fólksbílum á skrá og í umferð muni halda áfram að fjölga næstu tvö ár, ef spár um hagvöxt ganga eftir. Landsbankinn spáir 3,2% hagvexti í ár og 2,7% og 2,3% hagvexti næstu tvö ár.

Ríflega 239 þúsund fólksbílar voru á skrá og í umferð í byrjun apríl og að 32 mánuðum liðnum, í árslok 2025, virðist ekki ósennilegt að fjöldinn verði ríflega 250 þúsund. Það yrði fjölgun um 300 bíla á mánuði.

Fækkaði árið 2019

Hópbifreiðum á skrá og í umferð hefur einnig fjölgað nokkurn veginn í takt við hagvöxt. Þær voru 1.245 talsins í árslok 2000 og fjölgaði í 1.477 í árslok 2005. Þeim fækkaði svo um þrjár árið 2006, fjölgaði árið 2007 en fækkaði 2008 og 2009. Þeim fjölgaði svo jafnt og þétt árin 2010 til 2018 er þær voru orðnar 2.221 talsins. Þeim fækkaði svo í 2.099 í árslok 2019, í kjölfar samdráttar í ferðaþjónustu, og svo nær helmingaðist fjöldinn í 1.101 farsóttarárið 2020. Þeim hefur síðan fjölgað á ný og voru þær orðnar 1.919 í byrjun þessa mánaðar.

Sendibifreiðum á skrá og í umferð fjölgaði jafnt og þétt árin 2000 til 2008, úr 10.139 í 17.869, samhliða auknum umsvifum í hagkerfinu. Þeim fækkaði úr 16.985 í 16.463 árin 2009 til 2012 en fjölgaði úr 17.112 í 22.995 árin 2014 til 2019. Þeim fækkaði lítillega 2020 en hefur síðan fjölgað á ný. Tæplega 25.500 sendibílar voru á skrá og í umferð í byrjun þessa mánaðar, eða ríflega 150% fleiri en í árslok 2000.

40% fjölgun vörubíla

Loks voru alls 5.474 vörubílar á skrá og í umferð í árslok 2000. Þeim fækkaði lítillega 2001, eða í 5.314, en fjölgaði 2002 til 2007, úr 5.222 í 7.973. Þeim fækkaði 2008 til 2012, úr 7.392 í 6.024 en hefur síðan fjölgað jafnt og þétt. Voru 8.598 talsins í byrjun apríl sem er ríflega 40% fjölgun frá árslokum 2012.

Athygli vekur að vörubílum fækkaði ekki farsóttarárið 2020, heldur fjölgaði, sem er til vitnis um aukin umsvif í byggingargeiranum. Vextir lækkuðu í faraldrinum og ýtti það undir eftirspurn eftir íbúðum, sem aftur örvaði byggingageirann.

Samanlagt hefur ökutækjum í þessum fjórum flokkum – fólksbílum, hópferðabílum, sendibílum og vörubílum – fjölgað úr 158.119 í árslok 2000 í 275.224 í byrjun þessa mánaðar, eða um 117 þúsund. Það er 74% fjölgun og verða samtals 300 þúsund ökutæki í þessum flokkum á skrá og í umferð í lok áratugarins, ef fram heldur sem horfir.

Höf.: Baldur Arnarson